Yfirlýsing Landverndar vegna áforma um álver í Helguvík
Stjórn Landverndar harmar linnulausar árásir fylgjenda byggingar álvers í Helguvík á umhverfisráðherra landsins undanfarið og skorar á hlutaðeigandi aðila að útskýra fyrir þjóðinni hvernig það þjóni hagsmunum Íslendinga að verja nær allri orku sem hugsanlega eftir stendur á Suður- og Suðvesturlandi til einnar verksmiðju í þungaiðnaði. Samtökin beina þessari fyrirspurn til þeirra aðila vinnumarkaðarins sem hafa haft sig í frammi, til Norðuráls, til HS Orku, til Orkuveitu Reykjavíkur, og til viðkomandi sveitarfélaga og alþingismanna. Þá hvetja samtökin landsmenn alla til að hlusta á unga fólkið sem á að erfa landið og til að gera boðskap ný afstaðins Umhverfisþings um sjálfbært Ísland að sínum.

Áform um álver í Helguvík gera ráð fyrir einu stærsta álveri í Evrópu með 360.000 tonna framleiðslugetu og gífurlegri orkuþörf eða allt að 630 MW. Til samanburðar var framleiðslugeta álvers Ísal í Straumsvík 33.000 tonn þegar það tók til starfa árið 1969 og er því fyrirhugað álver í Helguvík um 11 sinnum stærra. Landvernd bendir á að ekki hefur verið sýnt fram á hvernig á að afla nægilegrar orku til svo stórs álvers, hvað þá hvernig flytja á orkuna frá stórum fjölda orkuvinnslusvæða til Helguvíkur án þess að valda verulegu eignatjóni á friðuðum svæðum og spilla ásýnd Reykjanesskagans með tröllvöxnum háspennulínum. Minnt er á að sum þeirra orkuvinnslusvæða sem horft er til hafa verndargildi á heimsvísu.

Landvernd minnir enn og aftur á að hagvöxtur og náttúruvernd eru ekki andstæður heldur, þvert á móti, er umhverfis- og náttúruvernd forsenda efnahagslegar og samfélagslegar velmegunar til lengri tíma litið. Hægt er að byggja upp blómlegt atvinnulíf á Íslandi án þess að valda alvarlegum spjöllum á náttúru landsins. Nýting orkuauðlinda þarf ekki að fela í sér stórkostleg náttúruspjöll. Vanda þarf til verka, bæði hvað varðar val á verkefnum sem og stjórnsýslu og átta sig á heildaráhrifum áður en lagt er af stað. Einnig þarf að kunna sér hóf. Í stað þess að ráðast í 360.000 tonna álver í Helguvík er mun vænlegra fyrir íslenskt samfélag og efnahag að takmarka stærð væntanlegs álvers við það sem orkulindir og náttúra landsins geta borið.

Yfirlýsing Landverndar í heild.

Birt:
Oct. 18, 2009
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Landvernd harmar árásir á umhverfisráðherra“, Náttúran.is: Oct. 18, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/10/18/landvernd-harmar-arasir-umhverfisraoherra/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: