Stjórn Framtíðarlandsins hefur skrifað Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og handhafa friðarverðlauna Nóbels, opið bréf vegna heimsóknar hans til landsins. Hann fékk bréfið í hendur við komu sína til landsins, í gær mánudag.

Stjórn Framtíðarlandsins fagnar komu Al Gore til landsins og þakkar honum
lofsvert framtak hans við að fræða almenning um loftslagsbreytingar og
afleiðingar þeirra. Með bréfinu vill félagið benda Gore á þá staðreynd að á
síðustu árum hafa álfyrirtæki eins og Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century
Aluminum beitt miklum þrýstingi til að fá ódýra raforku til framleiðslu sinnar
á Íslandi. Félagið bendir einnig á að orka fengin með beislun jökuláa er hvorki
sjálfbær né endunýjanleg auðlind þar sem uppistöðulón fyllast af leir á
tiltölulega skömmum tíma. Einnig er ekki að fullu ljóst hver langtímaáhrif
jarðhitavinnslu hafa á vinnslugetu háhitasvæða og getur hún því ekki talist
sjálfbær. 

„Græn orka" á Íslandi hefur að auki verið notuð til að réttlæta hið
svokallaða „íslenska ákvæði" í Kyoto samningnum, þ.e. að Íslendingar fái auknar
losunarheimildir koltvíoxíðs fyrir stóriðju. Er það mat stjórnar
Framtíðarlandsins að þetta hafi hindrað alvarlegar umræður um loftslagsmál á
Íslandi. Ennfremur hafi það komið inn þeirri ranghugmynd að Íslendingar þurfi
ekki að axla ábyrgð í loftslagsmálum með því að draga almennt úr notkun
jarðefnaeldsneytis. Sjá bréfið.

Birt:
April 8, 2008
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Framtíðarlandið skrifar Al Gore“, Náttúran.is: April 8, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/04/08/framtioarlandio-skrifar-al-gore/ [Skoðað:April 20, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: