Fróðleikur, skemmtun og útivist eru einkunnarorð Alviðru og eru þau í hávegum höfð þessa dagana, því nú er haustönnin hafin.

Það ríkti gleði og góður andi í haustblíðunni í Alviðru í dag þegar 6. bekkur Vallaskóla á Selfossi kom í Alviðru til að fræðast um lífið í vatninu.
Krakkarnir gengu út yfir Sogið og urðu vitni að því þegar veiðimaður dró lax að landi. Þau sóttu vatnssýni í Sogið, óðu og nutu útiverunnar. Heima í Alviðru könnuðu þau smádýralífið í víðsjá og smásjá og kom þá margt forvitnilegt í ljós. Uppstoppaðir sundfuglar og vaðfuglar voru dregnir fram og reyndust krakkarnir vera vel að sér um fuglana.

Þau skoðuðu og handléku urriða og bleikjur og heimsóttu kanínurnar.
Góð heimsókn frá frá 6. bekk Vallaskóla undir styrkri stjórn Vigdísar og Ingileifar kennara.
Starfsemin í Alviðru er komin á fullt skrið og búið er að bóka út september, en enn eru lausir dagar í október og nóvember og eru kennarar sem hafa áhuga á að koma hvattir til að ská sitt fólk sem fyrst.

Alviðra, umhverfis- og fræðslusetur Landverndar, er í Ölfusi í Árnessþsslu og stendur undir Ingólfsfjalli rétt við Sogsbrú, í 60 km fjarlægð frá Reykjavík. Sjá vef Alviðru.

Birt:
Sept. 5, 2008
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Hjördís B. Ásgeirsdóttir „Haustönn hafin í Alviðru“, Náttúran.is: Sept. 5, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/09/05/haustonn-hafin-i-alvioru/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: