Umhverfisstofnun Evrópu hefur gefið út skýrslu um átta mikilvæg verkefni á vettvangi umhverfismála í Evrópu um þessar mundir (EEA Signals 2009: Eight Environmental Stories for Europe). Í skýrslunni er m.a. fjallað um framrás Spánarsnigilsins og áhrif hans á líffræðilega fjölbreytni, hugmyndir um strangari takmarkanir af hálfu Evrópusambandsins á losun loftmengandi efna og vakin er athygli á aðferðum sem beitt er við að komast undan banni við útflutningi á raftækjaúrgangi til þróunarríkja. Þá er einnig fjallað um þann góða árangur sem náðst hefur í að draga úr losun brennisteins í Evrópu, en hún dróst saman um 70% milli áranna 1990 og 2006.

Umhverfisráðherra Tékklands og Jacqueline McGlade, forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu, kynntu skýrsluna í Prag í dag, en Tékkar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu. Von er á viðameiri skýrslu á næsta ári um stöðu umhverfismála í Evrópu (State of the Environment Report 2010) en slík skýrsla er gefin út á fimm ára fresti.

Umhverfisstofnun Evrópu er ein af fagstofnunum Evrópusambandsins og er staðsett í Kaupmannahöfn. Starfsemi stofnunarinnar hófst árið 1994 og hefur Ísland átt aðild að stofnuninni frá upphafi. Hlutverk stofnunarinnar er að samhæfa upplýsingar og vöktun á sviði umhverfismála og koma upp evrópsku upplýsinganeti á því sviði. Nú eiga 32 ríki aðild að stofnuninni, þ.e.a.s. ESB ríkin 27, öll ríki EFTA (Noregur, Ísland, Sviss og Liechtenstein) ásamt Tyrklandi. Dr. Hermann Sveinbjörnsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, á sæti í stjórn Umhverfisstofnunar Evrópu fyrir Íslands hönd.

EEA Signals 2009: Eight Environmental Stories for Europe (pdf-skjal).

Heimasíða Umhverfisstofnunar Evrópu.

 

Mynd:

Spánarsnigillinn: Fjallað er um framrás Spánarsnigilsins í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu og áhrif hans á líffræðilega fjölbreytni. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að snigillinn sé alræmd plága í nágrannalöndum Íslands. Í röku loftslagi getur fjöldinn snigilsins orðið gífurlegur og skaði þar með mikill, t.d. í garðrækt og matjurtagörðum.

Birt:
Jan. 9, 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Mikilvæg verkefni á vettvangi umhverfismála í Evrópu“, Náttúran.is: Jan. 9, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/01/09/mikilvaeg-verkefni-vettvangi-umhverfismala-i-evrop/ [Skoðað:Sept. 16, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: