Í raun og veru er hægt að byrja að lesa fyrir barnið hvenær sem er. Hann Siggi litli er að verða þriggja mánaða og ég prófaði að setja hann í ömmustólinn og lesa Bangsímon fyrir pjakkinn. Ég veit að þetta var alveg hámark bjartsýninnar, en Siggi var hin rólegasti, fylgdist með tilþrifum mínum við lesturinn og virtist hafa frekar gaman af. Ég geri mér þó engar þær grillur að hann hafi skilið orð af því sem ég sagði, heldur virðist sem rödd mín, þ.e. rödd móðurinnar hafi haft róandi áhrif og hann hafi gaman að því að hlusta á mismunandi hljómbrigði tungumálsins.

egna þess hversu vel þetta gekk og hversu rólegur drengurinn var á meðan ég las, ætla ég frá og með deginum í dag (30. Janúar 2010), að halda áfram að lesa fyrir hann. Hvenær hann byrjar að skilja eitthvað veit ég ekki, en lesturinn getur ekki annað en örvað málþroskann auk þess sem ég veiti honum alla mína athygli og horfi á hann stíft á meðan ég les, þannig að hann nýtur þess að vera í miðpunkti smá stund. A.m.k. má fullyrða að honum leiðist ekki á meðan.

Hvort ungabörnum getur leiðst veit ég ekki. Þau hafa svo mikið að gera við að drekka, sofa og vaxa svo hratt á fyrsta árinu að alls óvíst er að þau hafi þann hæfileika að láta sér leiðast. Hann Siggi minn er  farinn að segja agúúúú og agííí, þ.e. mynda sérhljóða og hann reyndi að syngja með mér á sinn einstaka hátt, þegar ég var að syngja fyrir hann í dag.  Honum finnst mamma sín greinilega dáldið skondin og skemmtileg.

Það sem er þó allra mikilvægast er athygli og umönnun foreldranna, snerting, að hossa og halda á barninu og tala við það frá upphafi eins og fullorðinn einstakling jafnvel þótt barnið skilji á þessum tímapunkti mest lítið af því sem verið er að segja.

Þannig örvast málþroskinn og hnokkinn vex og dafnar umkringdur ástríki og umhyggju sem nærir hinn nýja einstakling. Það er líka yndislegt fyrir foreldrana að uppgötva við þriggja mánaða aldurinn hve öll samskipti barnsins aukast og þroski þess tekur mikið stökk. Það er ólýsanleg tilfinning.

Hin hamingjusama móðir,
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Birt:
Jan. 31, 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hvenær á að byrja að lesa fyrir barnið?“, Náttúran.is: Jan. 31, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/01/31/hvenaer-ad-byrja-ad-lesa-fyrir-barnid/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: