Nemendahópar í Grunnskóla Siglufjarðar og Snælandsskóla í Kópavogi eru varðliðar umhverfisins 2009. Útnefningin fór fram á Degi umhverfisins 25. apríl. Umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur hjá Umhverfis- og samgöngusviði standa fyrir keppninni.

Nemendaárgangur 1997 í Grunnskóla Siglufjarðar hlaut viðurkenninguna fyrir verkefnið Jaðrakan. Nemendur fylgdust með ferðum merktra jaðrakana frá Bretlandi til Íslands og tóku þátt í merkingum fugla.  Einnig hafa þessir nemendur látið sig búsvæði fuglanna varða, meðal annars með ályktun um verndun þess. Verkefnið er samstarfsverkefni Grunnskóla Siglufjarðar og grunnskóla á Bretlandseyjum og nemendur hafa því skrifast á við félaga sína í Bretlandi, fengið gögn þaðan og miðlað upplýsingum um stöðu verkefnisins í þeirra eigin skóla.

Nemendahópur í Snælandsskóla hlaut viðurkenninguna fyrir verkið Hjólaríið var komið var á fót haustið 2006. Þau komu upp reiðhjólaverkstæði í tómu kennsluhúsnæði og þar læra nemendur að gera við reiðhjól. Nemendur hafa gefið Rauða krossinum fjölda hjóla sem þau hafa tekið við og lagað. Skólinn ný tir einnig reiðhjól fyrir bekkjardeildir í styttri vettvangs- og skemmtiferðir. Nemendur sem ekki eiga reiðhjól geta eignast ódýr hjól auk þess sem kennurum stendur til boða að kaupa viðgerð hjól. Markmið verkefnisins er meðal annars að endurnýta og að læra að meta reiðhjól sem farartæki.

Verkefnin halda úti heimasíðu þar sem lesa má nánar um markmið. Keppnin Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni um umhverfismál á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk.

Jaðrakan - Siglufjörður, Hjólaríið - Kópavogur, Náttúruskóli Reykjavíkur, Varðliðar umhverfisins

Myndin er af nemendum úr Snælandsskóla ásamt umhverfisráðherra Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir framan Iðnó að verðlaunaafhendingu lokinni. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
April 27, 2009
Höfundur:
Náttúruskólinn
Tilvitnun:
Náttúruskólinn „Framúrskarandi nemendur í umhverfismálum“, Náttúran.is: April 27, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/04/27/framurskarandi-nemendur-i-umhverfismalum/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: