Hið íslenska náttúrufræðifélag hélt í dag afmælisfund í tilefni af 120 ára afmæli sínu. Yfirskrift hennar var „Náttúruminjasafn Íslands: Hvernig safn viljum við eignast?“ Fjölluðu ræðumenn um það ástand sem lengi hefði ríkt í húsnæðismálum Náttúruminjasafnsins, sem áratugum saman hefur verið á hrakhólum. Í lok fundarins voru pallborðsumræður þar sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra voru meðal gesta.

Ráðherrarnir tóku undir með fundargestum að tími væri kominn til að leysa úr málum safnsins. Menntamálaráðherra benti á að innan ráðuneytisins væri nú í gangi vinna við að móta framtíðarsýn safnsins, og vonast hún til að þeirri vinnu ljúki nú á vormánuðum.

„Náttúran á Íslandi er sálin í samfélaginu. Hún er allt í kring og þar af leiðandi hættir okkur kannski til að taka henni sem sjálfsagðri,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra við þetta tilefni. Segir hún áratugalanga baráttu fyrir fullnægjandi húsnæði fyrir Náttúruminjasafnið jafnframt vera til marks um þá forgangsröðun sem viðgengist hefur, að náttúran og náttúruvernd hafi ekki notið sannmælis. Undanfarið hafi áherslur í náttúruvernd breyst og vegur náttúrunnar fari vaxandi, svo von sé til að úr fari að rætast.

Mynd: Frá 120 ára afæmlisfundi Hins íslenska náttúrufræðifélags. Svandís Svavarsdóttir umhvrerfisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum á afmælisfundinum.

Birt:
Dec. 28, 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Afmælisfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags“, Náttúran.is: Dec. 28, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/12/28/afaemlisfundur-hins-islenska-natturufraeoifelags/ [Skoðað:Sept. 27, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: