Umhverfisráðuneytið efnir til ráðstefnu um erfðabreytta ræktun þar sem fjallað verður um sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Fyrirlesarar á ráðstefnunni verða úr röðum íslenskra vísindamanna og sérfræðinga á þessu sviði auk þess sem sérfræðingur danska umhverfisráðuneytisins mun fjalla um stefnu og stjórnsýslu í málefnum erfðabreyttrar ræktunar innan Evrópusambandsins og í Danmörku.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um erfðabreytta ræktun, og þá sérstaklega sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Þetta á ekki síst við lönd Evrópusambandsins þar sem skoðanir eru skiptar en nokkur Evrópuríki hafa bannað slíka ræktun innan eigin landamæra.  Með ráðstefnunni vill umhverfisráðuneytið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um þessi mál hér á landi og gefa almenningi kost á að fylgjast með stöðu og þróun mála.

Ráðstefnan verður haldin í Hvammi á Grand Hóteli í Reykjavík, þriðjuudaginn 15. maí 2012 kl. 13 - 17. Hún er öllum opin og er aðgangur ókeypis.

Á ráðstefnunni verður m.a. útskýrt í hverju erfðabreytt ræktun felst, farið verður yfir þau lög og reglur sem gilda um erfðabreytta ræktun hér á landi, hlutverk Umhverfisstofnunar í þessu sambandi verður útskýrt sem og hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur. Þá verða flutt erindi um áhrif erfðabreyttrar ræktunar á heilsu, umhverfi og efnahag  og loks velt upp siðferðislegum spurningum sem kunna að vakna í tengslum við málefnið.

Meðal fyrirlesara verður Ole Kaae í danska umhverfisráðuneytinu, en hann hefur sérhæft sig í umhverfisvernd með sérstakri hliðsjón af erfðatækni og tekið virkan þátt í samstarfi Evrópuríkjanna á þessu sviði.

Dagskrá:

 • Ávarp og setning - Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra
 • Erfðatækni og erfðabreytt ræktun - Kristinn P Magnússon, prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands
 • GM-crops - Policy and administration in the EU and Denmark - Ole Kaae, sérfræðingur í danska umhverfisráðuneytinu
 • Löggjöf á Íslandi um erfðabreytta ræktun - Glóey Finnsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu
 • Hlutverk Umhverfisstofnunar - Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun
 • Hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur - Ragnhildur Sigurðardóttir, formaður nefndarinnar

Kaffihlé

 • Eru áhrif erfðabreyttrar ræktunar þekkt:
 • - á heilsu? Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
 • - á umhverfi? Ásgeir Björnsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
 • - á þjóðfélag og efnahag? Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
 • Erfðabreyttar lífverur - siðfræðileg viðhorf - Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
 • Umræður og fyrirspurnir Samantekt og ráðstefnuslit - Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra

Ráðstefnu- og umræðustjóri er Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins.

Ljósmynd: Erfðabreytt bygg í tilraunagróðurhúsi LBHÍ að Reykjum, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

 

Birt:
May 3, 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ráðstefna um erfðabreytta ræktun, sleppingu og dreifingu“, Náttúran.is: May 3, 2012 URL: http://www.natturan.is/d/2012/05/03/radstefna-um-erfdabreytta-raektun-sleppingu-og-dre/ [Skoðað:Sept. 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 10, 2012

Messages: