Guð er kærleikur. Þessa staðreynd uppgötva ég á jóladag þegar ég vakna og horfi inn í augu sjö vikna gamals sonar míns, sem horfir á mig fullur trúnaðartrausts og kærleika. Ég fer hjá mér. Mér finnst ég varla eiga skilið að vera elskuð á þennan innilega og saklausa barnslega hátt en eins og séra Óskar Hafsteinn sagði í predikun sinni í Selfosskirkju á jólanótt: Börnin kenna okkur að elska á nýjan leik. Þau þurfa svo skilyrðislaust á umhyggju okkar að halda.

Jólin voru sérstaklega yndisleg í þetta skiptið og að sjálfsögðu var það alltsaman syni okkar, honum Sigga litla að þakka. Siggi var reyndar of lítill til þess að vita að það væru jól, en samt var þetta ánægjulegur dagur. Amma var í heimsókn og pabbi og mamma gáfu sér nógan tíma til að snúast í kringum litla drenginn.

Þegar lítið barn fæðist uppgötvar maður einnig skyndilega hvað til er mikið af góðu fólki í veröldinni. Ungabarnið laðar fram það besta í hverjum og einum, og svo margir vilja líta við með heillaóskir og gjafir til litla snáðans svona rétt fyrir jól. Bros læðist fram á andlitum bæði barna og fullorðinna, ekki síst þegar að allir vita að barnið er langþráð og foreldrarnir svo afskaplega hamingjusamir.

Í einhverjum skilningi eru öll börn heimsins samt okkar börn. Þegar maður uppgötvar hvað ungabarnið er smátt og varnarlaust í þessum heimi, vaknar hjá manni vilji til að vernda ekki bara sitt eigið barn, heldur standa vörð um öll ungabörn heimsins. Því heimurinn er fullur af ungabörnum sem öll þurfa að eiga sér möguleika á lífi og framtíð. Hvert einasta ungabarn sem deyr vegna skeytingarleysis okkar eða sem skilið er eftir eitt úti í snjónum t.d. í Hvíta Rússlandi og er síðan sett á munaðarleysingjahæli. Hvert slíkt lítið barn þarf á umhyggju okkar og aðstoð að halda.

Undanfarin ár hef ég stutt menntun og skólagöngu lítillar stúlku í Uganda. Núna fyrir jólin fengum við hjónin jólakort frá henni þar sem hún lýsti því hreinlega yfir að við værum í raun og veru hennar foreldrar. Þetta hitti beint í hjartastað og ég mun ekki gleyma því heldur að lítil stúlka í Uganda treystir á mig.

Ég vil hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að styðja börn heimsins gegnum Rauða Krossinn, ABC, SOS, Hjálparstofnun Kirkjunnar eða UNICEF nú um þessi jól, og reyndar allt árið um kring. Við sem teljumst vera fullorðin í þessum heimi erum í raun ábyrg gagnvart öllum börnum veraldarinnar. Hvernig bjargar maður heiminum? Maður bjargar heiminum með því að bjarga einu barni og einni manneskju í einu. Öðruvísi er það ekki hægt og meiru getur ein manneskja ekki heldur komið til leiðar.

Góðar stundir.
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Birt:
Jan. 31, 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að loknum jólum“, Náttúran.is: Jan. 31, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/01/01/ad-loknum-jolum/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 1, 2010
breytt: Jan. 31, 2010

Messages: