Landgræðslan vekur athygli á því að 22. mars er árlegur dagur vatns í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar hafa að þessu sinni helgað daginn vatni sem flæðir á milli landa. Skortur á vatni gæti orðið ein af erfiðustu kreppum mannkyns.

Okkur Íslendingum þykir stundum nóg um rigninguna. Við eigum því erfiðara með en margar þjóðir að átta okkur á að ferskvatn mun á næstu áratugum taka við af olíunni sem sú náttúrulega auðlind jarðar sem fólk mun hafa mestar áhyggjur af. Aðrir valkostir munu innan tíðar leysa olíu af hólmi sem aðal orkugjafinn. Mun erfiðara verður hins vegar að mæta ört vaxandi þörf margra þjóða fyrir neysluvatn.

Ísland er ein vatnsríkasta þjóð veraldar miðað við höfðatölu. Fjöldi þjóða býr hins vegar við ófullnægjandi aðgang að vatni og mengun fer auk þess vaxandi. Árið 2025 er líklegt að 1,8 milljarður manna muni búa í löndum eða á stöðum þar sem alvarlegur vatnsskortur er, og 2/3 jarðarbúa muni ekki hafa fullnægjandi aðgang að ómenguðu vatni.

Um 40% jarðarbúa býr á svæðum þar sem ár og vötn spanna tvö eða fleiri lönd. Samkeppni um vatn fer stöðugt vaxandi, og samningar milli þjóða og um vatnstöku úr ám verða stöðugt erfiðari. Nokkrar af mikilvægustu ám heimsins ná ekki lengur að renna  til sjávar alla daga ársins og spenna milli þjóða út af vatnsréttindum fer vaxandi.

Vatn verður í framtíðinni ein af dýrmætustu auðlindum Íslands. Sú staðreynd er hins vegar hvorki virt í lögum né umgengni á veigamiklum vatnasvæðum. Einnig verður að taka ríkara tillit til þess að gróður og jarðvegur er  ein af meginundirstöðum heilbrigðrar vatnsmiðlunar. Gróðurinn og moldin hægja á yfirborðsrennsli vatns eftir rigningar og leysingar, geymir vatn í sér, hreinsar það og miðlar síðan frá sér.

Aukin vatnsmiðlun er því eitt af hinum fjölmörgu markmiðum landgræðslustarfsins. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi, hvort heldur sem um er að ræða jöfnun á rennsli áa og lækja og þar með t.d. tekjur af lax og silungsveiði, gæði neysluvatns víða um land og möguleika á útflutningi á vatni í framtíðinni.

Þeim sem vilja kynna sér meira um hina alvarlegu stöðu vatns í veröldinni er bent m.a. á þessar vefsíður:

World Water Day 2009, Business News Americas, guardian.co.uk, Earth Policy Institute, Circle of Blue

Lækjarspræna ofan við Hveragerði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
March 20, 2009
Tilvitnun:
Landgræðsla ríkisins „Dagur vatnsins er 22. mars“, Náttúran.is: March 20, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/03/19/dagur-vatnsins-er-22-mars/ [Skoðað:Dec. 11, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2009
breytt: March 20, 2009

Messages: