„Heildarmarkmið áætlunarinnar er að gera Reykjavík að framúrskarandi góðri hjólaborg," segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður starfshóps um hjólreiðaáætlun sem samþykkt hefur verið í borgarstjórn. „Reykjavík hefur mjög margt til þess að bera að verða góð hjólaborg," segir Gísli sem bendir á til dæmis að borgin sé ekki mjög hæðótt, auðvelt sé að ferðast meðfram strönd hennar, götur séu tiltölulega breiðar sem gefi svigrúm til að bæta við hjólastígum og veðurfar sé gott fyrir hjólreiðafólk meirihluta ársins.

Hjólreiðaáætlunin er ekki komin í formlegt ferli þannig að ekki hefur verið lagt mat á kostnað við gerð hjólastíga. Gísli Marteinn bendir hins vegar á að kostnaður við að leggja hjólastíg sé brotabrot af lagningu vega og takist það markmið að fá fleiri Reykvíkinga á hjólhestinn í stað bifreiða þá verði minna slit á vegum borgarinnar.

Ýmsar athyglisverðar upplýsingar og tölur er að finna í áætluninni. Til að mynda kemur þar fram að heildarkostnaður vegna reksturs hjóls á ári hverju teljast vera 9.000 krónur. Heildarkostnaður vegna reksturs bíls er 900.000 þúsund, munurinn eru 891.000 krónur. Bent er á að ef að tíu prósent aukning verði á hjólreiðum á kostnað ökuferða sparist níu milljarðar í rekstrarkostnaði reykvískra heimila.

Gísil Marteinn segir kannanir hafa leitt í ljós að Reykvíkingar hafi áhuga á að bæta aðstöðu til hjólreiða í borginni. „Af því yrði heilbrigðislegur ávinningur, því hjólatúr á hverjum degi skilar sér í betri heilsu. Auk þess sparast peningar, bæði í rekstri heimila og borgarinnar vegna minna slits á vegum. Mengun verður einnig umtalsvert minni."

Í áætluninni eru settar fram hugmyndir um nýjar hjólaleiðir í Reykjavík. Markmiðið er að tengja úthverfin betur kjarna borgarinnar, til dæmis með brú yfir Elliðaárósa svo dæmi séu tekin auk þess sem þétta á net hjólastíga innan kjarna Reykjavíkur. Sem dæmi um það er hjólreiðastígur frá Laugardalnum, um Sundlaugarveg, Borgartún og Skúlagötu, niður í miðbæ Reykjavíkur.

„Þessi leið er þægileg og myndi tengja saman útivistarsvæðið í Laugardal við miðbæinn," segir Gísli Marteinn sem segir að þessi stígur sé ekki flókinn í framkvæmd og því raunhæfur möguleiki á næstunni.

Sjá kort sem synir hjólastíg sem lagt er til að lagður verði fá Laugardalnum niður í miðbæ.

Birt:
Feb. 1, 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Reykjavík verði gerð að alvöru hjólaborg“, Náttúran.is: Feb. 1, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/02/01/reykjavik-verdi-gerd-ad-alvoru-hjolaborg/ [Skoðað:Nov. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 13, 2010

Messages: