Bæjaryfirvöld í Hveragerði mótmæla harðlega öllum áformum um virkjun við Bitru en borholur virkjunarinnar verða í 4 kílómetra fjarlægð frá bænum. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að Hvergerðingar séu mjög ósáttir við framgöngu nágranna sína í Ölfusi.

Bæjarstjórnin sé einhuga um, að með því að leyfa byggingu Bitruvirkjunar verði meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Samþykkt bæjarstjórnarinnar byggir á fundargerð og ályktun skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðis frá fyrri viku og var samþykkt einróma í bæjarstjórninni.

Aldís segir virkjun á þessum stað hafa mikil áhrif á svæði, sem sé afar sérstakt frá náttúrunnar hendi:

,,Þetta svæði er ómetanlegt fyrir þéttbýlið sem er hérna í kring, ekki bara okkur Hvergerðinga heldur ekki síður alla íbúa á suðvesturhorninu. Þetta svæði ætti í rauninni að friða," segir Aldís.

Hvergerðingar gerðu strax athugasemdir þegar frummatsskýrsla um framkvæmdirnar var kynnt og Aldís segir að engin viðbrögð hafi borist við þeim, að minnsta kosti ekki um að hætt verði við:

,,En ég hef nú trú á því að erfitt sé að hundsa þann vilja sem bæjarstjórn Hveragerðisbæjar og skipulagsnefndin setur fram í þessu máli og ég tala nú ekki um eindreginn vilja fjölmargra annarra sem hafa lýst yfir miklum áhyggjum af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum," segir Aldís.

Aldís segir að vissulega eigi hvert sveitarfélag rétt á að ákveða sitt aðalskipulag og heimila framkvæmdir innan ramma þess og því sé ekki hægt að banna Ölfusingum að heimila framkvæmdina.

,,Þeir geta þannig séð ákveðið að setja niður virkjun í túnfætinum hjá Hveragerðisbæ án þess að virða vilja okkar í því efni. Það er aftur á móti mjög sérstakt að ganga þannig fram," segir Aldís.

Hvergerðinga séu uggandi vegna mikilla umhverfisáhrifa frá virkjuninni, verði hún byggð, og margvíslegra annarra neikvæðra áhrifa:

,,Ég trúi því ekki að þetta verði reyndin og ég mun bara ekki trúa því fyrr en ég tek á því. Við munum að sjálfsögðu skoða okkar stöðu í kjölfarið ef það verður reyndin," segir Aldís Hafsteinsdóttir.

Sjá fundargerð í fullri lengd hér að neðan: 

Ár 2008, þriðjudaginn 13. maí kl: 8:00 kom bæjarstjórn Hveragerðis saman til fundar á skrifstofu bæjarins Sunnumörk 2, Hveragerði.
Fundinn sátu Aldís Hafsteinsdóttir, Unnur Þormóðsdóttir, Guðmundur Þór Guðjónsson, Ragnhildur Hjartardóttir í forföllum Eyþórs H. Ólafssonar,  Herdís Þórðardóttir,  Róbert Hlöðversson og Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir.
Ennfremur sat fundinn Helga Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Þór Guðjónsson,  setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum um fundarboð en engar komu fram.
Dagskrá:

1. Fundargerðir
1.1. Skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí 2008.
               
Hér var gengið til dagskrár

1. Fundagerðir;
1.1.    Skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí 2008.
Eftirtaldir tóku til máls: Guðmundur Þór Guðjónsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Herdís Þórðardóttir, Róbert Hlöðversson og Unnur Þormóðsdóttir.

Fundargerðin samþykkt samhljóða með eftirfarandi bókun vegna liðar 1: Aðalskipulag Ölfuss,  virkjanasvæði við Hverahlíð og  Bitru, línulagnir, tvöföldun Suðurlandsvegar og mislæg gatnamót.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega öllum áformum um virkjun við  Bitru og telur einsýnt að með þeim áformum sé verið að fórna meiri  hagsmunum fyrir minni.   Við skorum á sveitarfélagið Ölfus að hætta við þá breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem gerir ráð fyrir virkjun á þessu svæði enda yrðu neikvæð  áhrif virkjunar og tengdra framkvæmda afar mikil á þessu verðmæta útivistarsvæði.  Óumdeilt  er að áhrifin verða einnig mikil á  lífsgæði íbúa í næsta nágrenni virkjunarinnar, hljóta hagsmunir Hvergerðinga að vega þar þyngst.   Bæjarstjórn vill í þessu sambandi enn og aftur minna á að borholur vegna Bitruvirkjunar verða staðsettar í um  4 kílómetra fjarlægð frá byggðinni í Hveragerði.

Orkuveita Reykjavíkur hefur sýnt það og sannað í gegnum tíðina að fyrirtækið og forverar þess hafa haft umhverfismál að leiðarljósi og við trúum því að á því verði ekki breyting nú. Bæjarstjórn Hveragerðis treystir því að stjórn og stjórnendur OR sjái að sér í þessu máli og láti náttúruna og íbúa Hveragerðisbæjar njóta vafans og hætti við öll áform um virkjanir á Bitrusvæðinu og í næsta nágrenni þess.

Bæjarstjórn gerir verulegar athugasemdir við framgöngu Sveitarfélagsins Ölfuss í  málinu. Ekki er ásættanlegt að sveitarfélag geti gengið fram með þeim hætti sem hér er gert og skipulagt starfsemi í túnfæti nágrannasveitarfélags sem getur haft mikil áhrif á framtíð og uppbyggingu þess.

Verði af virkjun við  Bitru, þrátt fyrir eindregin mótmæli Hveragerðisbæjar, áskilja forsvarsmenn bæjarfélagsins sér allan rétt í framhaldinu. 

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl.  8:25

Guðmundur Þór Guðjónsson, (sign).
Aldís Hafsteinsdóttir, (sign).
Unnur Þormóðsdóttir, (sign).      
Róbert Hlöðversson, (sign).
Ragnhildur Hjartardóttir, (sign). 
Herdís Þórðardóttir, (sign)     
Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, (sign).
Helga Kristjánsdóttir, (sign).       

Efri myndin er tekin í Reykjadal. Ljósmynd: Einar Bergmundur. Neðri myndin er af bæjarstjóra Hveragerðis, Aldísi Hafsteinsdóttur.

Birt:
May 13, 2008
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Bæjarstjórn Hveragerðis mótmælir Bitruvirkjun“, Náttúran.is: May 13, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/05/13/baejarstjorn-hveragerois-motmaela-bitruvirkjun/ [Skoðað:Jan. 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 14, 2008

Messages: