Kötturinn LísaÁ Selfossi eru menn hræddir við ketti. Þeir hafa verið að lesa gamlar galdraskræður sem halda því fram að kettir séu djöfulóð dýr og svartir kettir séu beinlínis af hinu illa. Galdrafár hefur geisað í bæjarstjórninni, svo megnt að öll bæjarstjórnin greip til þess ráðs á síðasta kjörtímabili nota bene, að ganga að sem flestum köttum dauðum og krefjast þess að eftirlifandi kattarhræður yrðu hafðar í bandi á lóð eigenda sinna undir ströngu eftirliti.

Grunur leikur á að uppruna þessa galdrafárs megi rekja til Skruddu einnar, gamallar galdrabókar Flóa- og Skeiðamanna sem Bjarna Harðar tókst að grafa upp í dánarbúi bónda eins uppi á Skeiðum. Bæjarstjórnin komst í skrudduna og nú er fjandinn laus í bókstaflegum skilningi. Menn hafa einnig tekið eftir því að óvenjulega líflegur draugagangur hefur verið undanfarið í draugasafninu, og loga þar hrævareldar á næturnar. Nú er svo komið að jafnvel galdrakunnustu menn eru orðnir smeykir.

Gripið hefur verið til þess ráðs að setja upp sérstakt embætti kattafangara og gengur hann um með horn og klaufir í svörtum búningi og veiðir saklausar kisurnar og stingur þeim í skjóðu sína og drekkir kisunum síðan í hyl í Ölfusánni.  Hrelldir kattareigendur emja og veina og heyrst hefur að verið sé að magna seið gegn bæjarstjórninni. Fjölkyngnin í bæjarfélaginu á sér engin mörk enda hefur komið upp sú hugmynd að leita til geistlegra manna, þ.e. presta til þess að reyna að kveða niður þetta illvíga galdrafár. Einn presturinn sást um daginn vera að fylgjast með þegar lífsýni var tekið úr Bobby Fischer, en aðrir segja að Fischer gangi nú laus og sé farinn að tefla fjöltefli á fimmtudagskvöldum í Sunnlenska bókakaffinu og eru víst fáir sem standast honum snúning.

En hvað á að gera? Kvittur hefur komið upp um að kattaútrýmingarherferðin sé einungis upphafið á einhverju meira og stærra. Nornir í Árborg mega víst fara að vara sig enda gætu galdrabrennur orðið næsta skref. Einhver þóttist sjá nakta konu á kústskafti fljúga yfir Kentucky Fried Chicken staðnum á miðvikudagskvöldið og einhver annar sagðist hafa séð Meistarann úr Meistaranum og Margarítu eftir Búlgakov fá sér pylsu í pylsuvagninum. Aðrir halda því fram að brennisteinsfnykur sé farinn að berast úr áhaldahúsinu og einhver þóttist sjá Fást sjálfan bregða sér inn í Krónuna að kaupa lakkrís.

En bæjarstjórnin er með stjórn á þessu öllu saman, eða það segir hún a.m.k. og á meðan fer köttum í Árborg ört fækkandi.

Ljósmynd: Kötturinn Lísa, frjáls læða, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
July 10, 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Galdrafár geisar á Suðurlandi - svartir kettir, afturgöngur og skelfdir bæjarstjórar“, Náttúran.is: July 10, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/07/10/galdrafar-geisar-sudurlandi-svartir-kettir-afturgo/ [Skoðað:Jan. 22, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 13, 2010

Messages: