Vitlu taka þátt í að móta leiðir til að auka veg staðbundinna matvæla innan ferðaþjónustunnar? Ráðstefna og málstofa á sveitahótelinu Smyrlabjörgum í Suðursveit dagana 26. - 27. október nk.

Sjálfbærni í staðbundinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu

 • Hvernig getur staðbundin matvælaframleiðsla stuðlað að sjálfbærni í ferðaþjónustu?
 • Hvernig skal staðið að markaðssetningu staðbundinna matvæla, hvaða kröfur skal setja?
 • Er til mælikvarði fyrir vottun á sjálfbærni sem frumkvöðlar geta unnið að, hvernig á hann að vera?

Ráðstefnan hefst miðvikudaginn 26. október kl 9:30 með fyrirlestrum. Fimmtudaginn 27. október verður haldin málstofa þar sem eftirfarandi málefni verða rædd í rýnihópum.

 • Upprunamerkingar og markaðssetning svæðisbundna matvæla
 • Staðbundin sjálfbærni, samstarf einstaklinga, fyrirtækja og opinbera aðila, vottun á sjálfbærni

Vinnuhópar skila inn greinagerð um stöðu mála í dag og tillögum að betrumbótum.

Þátttaka á ráðstefnunni er ókeypis. Þátttakendur fá sérstakt tilboð í gistingu og kvöldverð á Smyrlabjörgum. Gisting með morgunverð kr. 5.500 - kvöldverður kr. 2.800. Rútuferð í boði frá flugvellinum á Hornafirði að Smyrlabjörgum fyrir þá sem koma með flugi (40 mín).

Málþingið er liður í verkefninu Matur og sjálfbær ferðþjónusta sem er eitt af öndvegisverkefnum RANNÍS. Verkefnishópinn skipa Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Þróunarfélag Austurlands, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Rannsóknarsetur HÍ á Hornafirði og Háskóli Íslands.

Taktu þátt í mótun sjálfbærra leiða í staðbundinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu!

Skráning fer fram hér: tinna@nmi.is

Drög að dagskrá:

Fundarstjóri málþings: Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri Hornafjarðar

Dagur 1. (9:30-16:00)

Fyrir hádegi

 • Hvað er sjálfbærni? Svæðisbundin sjálfbærni á Íslandi, hvað hefur verið gert á Íslandi og hverju hefur það skilað? Getum við lært af dæmum erlendis frá? Hver er núverandi stefna yfirvalda? Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, Environice.
 • Matur og sjálfbær ferðaþjónusta: Mælingar á sjálfbærni – niðurstöður tilraunaverkefnis kynntar. Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður, & Johannes T. Welling, verkefnastjóri, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði
 • Viðhorf Listaháskólans. Matur-Samfélag-Umhverfi-Hönnun. Jóhannes Þórðarson, deildarforseti Hönnunar og arkitektúrardeildar Listaháskóla Íslands & Dr. Halldór Gíslason, Kunsthøgskolen i Oslo .
 • Svæðisbundnar/staðbundnar merkingar – staðan í dag, framtíðarsýn. Laufey Haraldsdóttir, lektor, Hólaskóli háskólinn á Hólum.
 • Viðhorf notenda/grasrót – stuttar kynningar frá nokkrum aðilum um starfsemi sína og reynslu. Erlendur Pálsson frá Sólheimum, Laufey Helgadóttir á Smyrlabjörgum og Fanney Björg Sveinsdóttir Heimamarkaðsbúðin Höfn.

Eftir hádegi

 • Sjálfbær framtíð - Framtíðarsýn fyrir Ísland. Kynning á Samleiðniverkefninu (Converge). Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands
 • Slow food. Leið til sjálfbærar matvælaframleiðslu? Ari Þorsteinsson, Slow food.
 • Sjálfbærni í ferðaþjónustu, Vakinn. Elías B. Gíslason, forstöðumaður Þróunarsviðs, Ferðamálastofa
 • Frá stoðkerfi í iðnaðinn. Sjónarhóll á staðbundin matvæli og sjálfbærni. Guðmundur Heiðar Gunnarsson, Framleiðslutjóri, Skinney-Þinganes.

Dagur 2. (9:30-16:00)

Rýnihópar fjalla um málefni fyrri dags. Nánari dagskrá síðar.

Um verkefnið Matur og sjálfbær ferðaþjónusta:

Í verkefninu Matur og sjálfbær ferðaþjónusta er unnið að því að byggja upp staðbundna matvælaframleiðslu á ólíkum svæðum á Vestur-, Suður- og Austurlandi til að stuðla að aukinni sjálfbærni í ferðaþjónustu. Reynslan úr verkefninu verður síðan nýtt til að yfirfæra yfir á önnur svæði á landinu. Með átaki um aukna nýsköpun og framleiðslu verður unnið markvisst að því að auka framboð og eftirspurn eftir staðbundnum matvælum innan ferðaþjónustunnar á hverju svæði. Lögð verður áhersla að veltan skili sér betur til viðkomandi samfélaga, þar sem  dregið er úr hagrænum leka vegna aðflutnings matvæla inn á svæðin. Þannig er hagræn sjálfbærni ferðaþjónustunnar aukin til muna.

Með nálguninni er horft til nýrra atvinnutækifæra í smáframleiðslu matvæla. Eins er lagt upp úr þverfaglegu og dýnamísku samstarfi hagsmunahópa sem hafa nú þegar verið stofnaðir á öllum svæðunum og teymis sérfræðinga frá háskólum og rannsóknastofnunum. Þetta er gert til að vega á móti takmörkuðum aðgangi að sérhæfðri þekkingu í vöruþróun/hönnun matvæla á svæðunum. Með þessu er samfélagsleg sjálfbærni svæðanna aukin til muna sem styrkja mun enn frekar ferðaþjónustu á svæðinu með nýjum tækifærum í sölu á afurðum sem veita ferðamanninum tækifæri að upplifa land og þjóð í gegnum staðbundin matvæli og skapandi iðnað.

Ekki er síður mikilvægt að benda á aukin lífsgæði íbúa á svæðunum sem nú búa jafnvel við takmarkað aðgengi að ferskum og heilnæmum matvælum. Með aukinni vinnslu afurðar innan svæðanna eykst umhverfisleg sjálfbærni einnig verulega. Þannig styttast allar flutningsleiðir mikið sem dregur úr sótsporum (“food milage”) matvæla bæði á svæðinu í heild sinni og innan ferðaþjónustu.  Enn fremur dregur einföldun á dreifingu úr sóun í ferlinu. Smáframleiðsla afurða byggir á forsendum sjálfbærrar þróunar þar sem lagt er upp úr takmarkaðri framleiðslu á grænan hátt. Verðmæti slíkrar framleiðslu byggir í dag á því að líta á neytandann sem meðframleiðanda. Varan er því háð því að uppfylla væntingar neytandans um heilnæmi og góða framleiðsluhætti.

Ljósmynd: Rófa, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 25, 2011
Höfundur:
Matís
Uppruni:
Matís ohf
Tilvitnun:
Matís „Sjálfbærni í staðbundinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu“, Náttúran.is: Oct. 25, 2011 URL: http://www.natturan.is/d/2011/10/24/sjalfbaerni-i-stadbundinni-matvaelaframleidslu-og-/ [Skoðað:Sept. 28, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Oct. 24, 2011
breytt: Oct. 26, 2011

Messages: