Munu Alþingismenn fórna náttúruperlum á Reykjanesskaga og Suðvesturlandi fyrir ótímabæra orkuvinnslu. Nú eru síðustu forvöð að láta í sér heyra ef þú ert ósátt/ósáttur við að allt að 12 af 15 virkjunarhugmyndum á Suðvesturlandi verði að veruleika. Hvað vilt þú?

Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSVE) efna til baráttufundar til bjargar náttúruperlum á svæðinu, ekki síst í Reykjanesfólkvangi. Að loknum framsöguerindum verða pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokkanna þar sem fundargestum gefst færi á að spyrja þingmenn spurninga.

Náttúruunnendur, ferðaþjónustuaðilar, útivistarfólk...hvernig sem við merkjum okkur: nú er þörf á stuðningi allra! Fjölmennum í Tjarnarbíó miðvikudagskvöldið 30. maí kl. 20-22.

Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis, en leitað verður eftir frjálsum framlögum til að standa straum af kostnaði við viðburðinn.

Dagskrá:

  • Reykjanesfólkvangur: Jarðminjar og orkuvinnsla - Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur
  • Reykjanesskaginn – ruslatunna rammaáætlunar?  - Ellert Grétarsson, náttúruljósmyndari, leiðsögumaður og stjórnarmaður í NSVE
  • Eldfjallagarður á Reykjanesskaga: Náttúruvernd sem auðlind - Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur
  • Pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokka.

Fundarstjóri: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar

Nánar:

Örlög Reykjanesfólkvangs hvíla nú á herðum 63 þingmanna. Samkvæmt tillögu iðnaðar- og umhverfisráðherra verður leyft að ráðast í sjö af fimmtán virkjunarhugmyndum á Suðvesturlandi, og aðrar fimm hugmyndir bíða á hliðarlínunni (biðflokkur). Verði tillaga ráðherranna samþykkt gæti Reykjanesskaginn, þ.m.t. Reykjanesfólkvangur, orðið nær samfellt orkuvinnslusvæði, með fjölda orkuvera, vegum og slóðum, borholum, lögnum og háspennulínum.

Reykjanesfólkvangur er eitt vinsælasta útivistarsvæði í nágrenni stærsta þéttbýlis landsins og býður upp á einstaka möguleika fyrir náttúrutengda ferðamennsku og upplifun fólks af lítt snortinni náttúru. Náttúruverndarsamtök á Íslandi hafa mótmælt því harðlega hve margar virkjunarhugmyndir lenda í orkunýtingarflokki á Suðvesturlandi og hafa lagt sérstaka áherslu á verndun Reykjanesfólkvangs með stofnun eldfjallaþjóðgarðs.

Ljósmynd: Grænavatn ©Árni Tryggvason.

Birt:
May 30, 2012
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Björgum Reykjanesfólkvangi - fundur og pallborð með stjórnmálamönnum“, Náttúran.is: May 30, 2012 URL: http://www.natturan.is/d/2012/05/24/bjorgum-reykjanesfolkvangi-fundur-og-pallbord-med-/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 24, 2012
breytt: May 30, 2012

Messages: