„Hvað munu næstu fjórir áratugir hafa í för með sér?“ er spurning sem ný skýrsla OECD um horfur í umhverfismálum fram til 2050 glímir við. Skýrslan beinir sjónum að fjórum meginatriðum: loftslagsbreytingum, líffræðilegri fjölbreytni, vatni og lýðheilsu og loks umhverfi.

„Mannkynið hefur orði vitni að fordæmalausum vexti og velmegun á síðastliðunum fjórum áratugum, stærð efnahagskerfis heimsins hefur meira en þrefaldast og mannkyni fjölgað um þrjá milljarða frá árinu 1970. Þessum vexti hefur fylgt í kjölfarið umhverfismengun og eyðing náttúruauðlinda. Núverandi þróun vaxtar og röng stjórn á nýtingu náttúruauðlinda kann að lokum að draga úr þróun mannkyns,“ segir í útdrætti úr skýrslunni.

Til að leita svara við spurningunni að ofan er horft fram til ársins 2050 og dregin upp sviðsmynd af því hvaða þýðingu aukinn mannfjöldi og þróun efnahagsmála kann að hafa á umhverfið. Þá er kannað hvaða stefnur gætu orðið til að breyta þeirri sviðsmynd til betra horfs.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að ef ekkert verður að gert verði aukin skaðleg áhrif frá loftslagsbreytingum viðvarandi, áfram muni draga úr líffræðilegum fjölbreytileika og hið sama gildir um framboð á fersku vatni. Þá er sú sviðsmynd dregin upp að loftmengun sé að verða helsta umhverfisvandamálið hvað varðar ótímabær dauðsföll.

Segir í skýrslunni að rökrétt sé út frá sjónarhóli efnahagsmála að grípa til tafarlausra umhverfisverndaraðgerða, jafnvel þótt það kunni að draga úr hagvexti um 0,2% á ári. Á móti kemur að talið er að kostnaðurinn sem hljótist af aðgerðaleysi gæti orðið allt að 14% af meðalneyslu á mann á heimsvísu.

OECD Environmental Outlook to 2050: The Consequences of Inaction


Útdráttur á íslensku.

Ljósmynd: Mosakoddi, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
June 1, 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Mælt með tafarlausum aðgerðum í umhverfismálum“, Náttúran.is: June 1, 2012 URL: http://www.natturan.is/d/2012/06/01/maelt-med-tafarlausum-adgerdum-i-umhverfismalum/ [Skoðað:Sept. 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: