Fyrirlestraröð Landverndar og Norræna Hússins, Frá Vitund til Verka: Hugarfarsbreyting í umhverfismálum, fer kröftuglega af stað á nýju ári með tveimur fyrirlestrum fimmtudaginn 3.janúar. Viðfangsefnin að þessu sinni verða veraldarvefurinn og félagsmiðlar. Bjarki Valtýsson, lektor við menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla flytur fyrirlestur um félagsmiðla og Guðrún Arndís Tryggvadóttir, framkvæmdastýra og Einar Bergmundur Arnbjörnsson, tæknistjóri Náttúran.is, flytja saman fyrirlestur um náttúruna og upplýsingamiðlun. Fyrirlestrarnir hefjast kl 16:00 í Norræna Húsinu og eru allir velkomnir.

Bjarki Valtýsson er doktor í boðskipta- og menningarfræðum og lektor við menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Í fyrirlestri sínum, Allt online? Félagsmiðlar og umhverfisvernd, mun hann greina hvers konar boðskiptamynstri samfélagsmiðlar stuðla að og hver staða einstaklinga, og stofnana og samtaka á sviði umhverfisverndar er innan þess umhverfis.

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er myndlistamaður og upphafsmaður vefsins Náttúran.is en á þeim vef er leitað nýrra leiða til að gera almenningi kleift að taka þátt í sjálfbærri þróun með neysluákvörðunum sínum og vali á lífsstíl. Vefurinn stuðlar að því að þróa tæknilegar lausnir að samskiptaveröld sem tengir á milli þátta sem annars hafa aðeins huglæga eða óbeina tengingu.

Einar Bergmundur Arnbjörnsson vann við kvikmyndagerð og síðar vefþróun og hugbúnaðarhönnun, en hann er tæknistjóri Náttúran.is. Tækniþróun og hönnun smáforrita á vefinn eru meðal viðfangsefna Einars.

Í sameiginlegum fyrirlestri sínum, Náttúran á Umbrotatímum, munu þau fjalla um upplýsingamiðlun til náttúruunnenda sem vilja gera sitt til að stuðla að sjálfbæru samfélagi í sátt við náttúru og menn.

Allt online? - Félagsmiðlar og umhverfisvernd

Bjarki Valtýsson. lektor við menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla.

Félagsmiðlar á borð við Facebook, Twiter og Pinterest gera fólki, stofnunum, samtökum og fyrirtækjum kleift að koma margs konar boðskap á framfæri. Ætlun þessa fyrirlestrar er að greina hvers konar boðskiptamynstur samfélagsmiðlar stuðla að og hver staða einstaklinga, og í þessu tilviki stofnana og samtaka á sviði umhverfisverndar, er innan slíkrar miðlunar. Hvað einkennir félagsmiðla? Hverjir eru notendaskilmálar? Hvað má og hvað má ekki? Hver er munur á notanda og neytenda í stafrænu boðskiptamynstri og hverjum er öll þessi upplýsingasköpun, upplýsingaöflun og upplýsingasöfnun til gagns?

Náttúran á umbrotatímum

Guðrún A. Tryggvadóttir, framkvæmdastýra og Einar Bergmundur Arnbjörnsson tæknistjóri Náttúran.is.

Náttúran á umbrotatímum fjallar um upplýsingamiðlun aðila sem er annt um náttúruna eins og hún er, ósnortin og sjálfri sér nóg. Á síðustu áratugum hefur náttúrunni verið fórnað langt umfram þá þörf sem samfélagið þarf til heimila og almenns atvinnulífs. Að þeim framkvæmdum standa fjársterkir aðilar en möguleikar náttúruunnenda hafa verið takmarkaðir til að koma málstað sínum á framfæri. Markmið Náttúran.is er að vera málsvari náttúrunnar og koma á framfæri upplýsingum og hugmyndum sem miða að sjálfbæru samfélagi í sátt við náttúruna og fólkið í landinu.

Birt:
Jan. 2, 2013
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Fyrirlestraröð Landverndar og Norræna hússins: Veraldarvefurinn og félagsmiðlar“, Náttúran.is: Jan. 2, 2013 URL: http://www.natturan.is/d/2012/12/20/fyrirlestrarod-landverndar-og-norraena-hussins-ver/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Dec. 20, 2012
breytt: Jan. 2, 2013

Messages: