Niðurstöður evrópsks rannsóknarverkefnis, EcoFishMan, voru kynntar á alþjóðlegu málþingi sem haldið var í National Research Council í Róm þann 28. febrúar 2014. Verkefnið var einnig kynnt 5. mars á alþjóðlegu ráðstefnunni Fisheries Dependent Information sem haldin var í aðalstöðvum FAO í Róm.

Í verkefninu hefur verið þróað nýtt gagnvirkt fiskveiðistjórnunarkerfi (e. Responsive Fisheries Management System (RFMS)) í samvinnu við helstu hagsmunaaðila í evrópskum fiskveiðum. Markmið EcoFishMan verkefnisins hefur verið að stuðla að algjörlega nýrri nálgun að stjórnun fiskveiða í Evrópu sem sé ásættanlegt jafnt fyrir hagsmunaaðila, stjórnvöld og fiskiðnaðinn og að hafa þannig umtalsverð áhrif á fiskveiðistefnu í framtíðinni.

RFMS lýsir því hvernig færa má ábyrgð á fiskveiðistjórnun til fiskimannanna, það er notenda auðlegðarinnar, að því tilskildu, að þeir setji sér og nái skilgreindum stjórnunarmarkmiðum. Tekið er tillit til umhverfis-, viðskiptalegra og félagslegra þátta og einnig leiða til að bæta samstarf og gagnkvæman skilning milli stefnumótunar- og hagsmunaaðila til að auðvelda innleiðingu kerfisins. Þátttaka hagsmunaaðila er styrkt með því að taka tillit til þekkingar þeirra og þarfa.

RFMS er innleitt í áföngum og sniðið að hverri tegund fiskveiða fyrir sig. Fyrsta skref í EcoFishMan verkefninu í þá átt að leggja til mismunandi kosti fyrir hverja tegund fiskveiða var að leggja mat á ólíkar leiðir í fiskveiðistjórnun. Samstarfið við hagsmunaaðila leiddi í ljós að þeir telja RFMS koma til greina sem stuðningstæki við fiskveiðistjórnun í heppilegum evrópskum tilraunaverkefnum. Það má einnig nota sem “forrit” til að semja drög að aðgerðum til að draga úr brottkasti, sem hluta af yfirstandandi endurbótum á fiskveiðistefnu Evrópusambandins (e. European Common Fisheries Policy (CFP)).

Mike Parrk hjá Samtökum skoskra bolfiskframleiðenda sagði: „Ég held að með þessari nýju nálgun að fiskveiðum, getum við tekið á núverandi göllum CFP, en þeir eru: óskýr markmið og skammsýnt og oft viðbrigðið ferli ákvarðanatöku, sem torveldar atvinnugreininni og hagsumaaðilum að innleiða breytingar”.

Nýja kerfið leggur fiskimönum auknar skyldur á herðar við að stjórna og greina frá starsemi sinni. Ábyrgðin á að úthluta einstökum kvótum og að fylgjast með að farið sé að settum reglum er flutt frá stjórnvöldum til fiskimannanna. Þetta mun auka staðbundið eignarhald á fiski og gögnum, og gegnsæi, bæði um ákvarðanir og brot á reglum, mun aukast.

Verkefnið var styrkt af sjöundu rannsóknaáætlun Evrópusambandsins, EU FP7. Styrkurinn var alls 3,8 miljón evrur og var til þriggja ára frá 1. mars 2011. Að EcoFishMan verkefninu koma alls 14 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, er í vísindanefnd verkefnisins. Þáttakendur eru Matis (IS), Eurofish (DK), CETMAR (ES), Syntesa (FO), Háskóli Íslands (IS), National Research Council/Institute of Marine Sciences (IT), Nofima Marin (NO), University of Tromsø (NO), Centro de Ciências do Mar (PT), IPMA (PT), MAPIX technologies Ltd (UK), Marine Scotland Science (UK), University of Aberdeen (UK) og Seafish (UK).

Birt:
March 26, 2014
Höfundur:
Matís ohf
Uppruni:
Matís ohf
Tilvitnun:
Matís ohf „Ný nálgun að stjórnun fiskveiða þróuð í Evrópu“, Náttúran.is: March 26, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/03/26/ny-nalgun-ad-stjornun-fiskveida-throud-i-evropu/ [Skoðað:Jan. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: