Landvernd, Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist og Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu um að vinna sameiginlega að viðgangi og vexti verkefnisins Hálendið – hjarta landsins, sem Landvernd hleypti af stokkunum í september sl. Undirskriftin fór fram á útsýnispalli Perlunnar í Öskjuhlíð í Reykjavík. Nú þegar hafa um 6.000 manns frá 70 löndum skrifað undir áskorun Landverndar á hjartalandsins.is og heartoficeland.org um að hlífa hálendinu gegn fyrirhuguðum stórframkvæmdum.

Markmið verkefnisins er að vinna að vernd hálendis Íslands þannig að náttúru þess verði ekki raskað frekar af mannavöldum. Félögin leggjast gegn allri stórfelldri mannvirkjagerð og áníðslu á hálendinu, svo sem uppbyggðum vegum, hótelum, umferð umfram þolmörk svæða, ofbeit, háspennulínum, borplönum og virkjunum og telja að slík mannvirki eigi ekki heima á hálendi Íslands. Sérstaklega verði gætt að vernd óraskaðra svæða og víðerna.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja vernd þess einstaka landsvæðis sem hálendi Íslands er og auka áhuga almennings, fjölmiðla, þingmanna og sveitarstjórna á málefninu. Skorað er á stjórnvöld og sveitarfélög sem fara með skipulagsvald á hálendinu að tryggja að náttúru þess verði hlíft.

Samtökin sem undirrita yfirlýsingu þessa skipa hvert einn aðalmann og einn varamann í fimm manna verkefnisstjórn Hjarta landsins.

Landvernd ber ábyrgð á rekstri verkefnisins og fer með daglega stjórn þess.

Ljósmynd: Frá undirritun samstarfssamningsins í Perlunni í dag, Landvernd.

Birt:
April 4, 2014
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Tímamótasamstarf um vernd hálendisins“, Náttúran.is: April 4, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/04/04/timamotasamstarf-um-vernd-halendisins/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: