Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lokið við gerð stafræns gróðurkorts af miðhálendi Íslands. Kortið á eftir að auðvelda vinnu við mat á umhverfisáhrifum en verður líka gert aðgengilegt almenningi.

Stuðst var við öll gróðurkortagögn sem aflað hefur verið frá upphafi en kortlagning á gróðri á miðhálendinu hófst fyrst árið 1955 þegar meta þurfti beitarþol á afréttum. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða hafa unnið að gerð stafræna kortsins. Kortin voru endurteiknuð ofan á ný myndkort og notaðar gervitunglamyndir, þrívíddarmódel og ljósmyndir svo nokkuð sé nefnt. Til eru upplýsingar um hvern einasta reit á hálendinu.

Guðmundur Guðjónsson, landfræðingur og verkefnisstjóri gróðurkortagerðar Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að þegar kortið verði komið á netið geti hver sem er, hvar sem er, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í veröldinni skoðað gróður landsins mjög náið.

Búið er að kortleggja mikinn meirihluta miðhálendisins, einungis 13% eru eftir.

Mjög mikið af upplýsingum má finna í kortunum. Þar sést t.d. að 25% af miðhálendinu eru jöklar, 21% melar, 20% annað ógróið land, 3% vatn, 14% moslendi, 10 % mólendi, 5 % votlendi og 2% annar gróður.

Hægt er að fara á ákveðinn stað eins og Almenninga, setja bendillinn á kortið og þá birtast upplýsingar um gróðurinn sem þar er. Kortið á eftir að nýtast vel við mat á umhverfisáhrifum, náttúruvernd, skipulagsgerð og margt fleira.

„Það kom beiðni bara strax og kortð var tilbúið, um að gera úttekt á afrétti sem hefði kostað mikið fyrir nokkrum árum síðan. Við gerðum það og það tók ekki nema 20 tíma, þá voru komnar allar upplýsingar,“ segir Guðmundur.

Hann segist halda að kortið gæti verið gert aðgengilegt almenningi á næstu dögum.

Birt:
May 6, 2014
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Uppruni:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Nýtt stafrænt gróðurkort af miðhálendinu“, Náttúran.is: May 6, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/05/06/nytt-stafraent-grodurkort-af-midhalendinu/ [Skoðað:Jan. 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: