Undirbúningur: Áður en farið er út með krakkana fer leiðbeinandinn út og velur 15–20 metra langa leið t.d eftir mjóum göngustíg. Meðfram henni er komið fyrir 10–15 tilbúnum „ónáttúrulegum“ hlutum, algengu drasli, fernum, sælgætisbréfi, pappír o.fl. Sumir eru látnir sjást vel, öðrum er komið þannig fyrir að þeir falli inn í umhverfið.

Verkefni: Farið út og komið að þessum stað. Þar er leikurinn útskýrður (ef kalt er úti getur verið gott að útskýra leikinn inni áður en farið er út).

- Krökkunum er sagt að þeir eigi að finna hluti sem passa ekki í þetta umhverfi. Þeir fá ekki að vita hve hlutirnir eru margir.

- Þeir eiga að ganga leiðina, einn og einn í einu, og reyna að koma auga á hlutina, telja þá en mega ekki hreyfa við þeim og ekki segja neitt.

- Við enda stígsins hvísla þeir í eyra leiðbeinandans hve marga hluti þeir sáu.

- Ef enginn hefur séð alla hlutina, þá segir kennarinn hve margir hlutir hafi sést en um leið að þeir séu fleiri og sendir krakkana aftur af stað að leita betur.

- Senda má þá eftir stígnum nokkrum sinnum til að vita hvað þeir geti fundið marga hluti og hver séð flesta.

Að sjálfsögðu þarf að gæta þess í lokin að tína upp allt draslið og koma því í sorpflokkunina!

Birt:
May 25, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Hvað á heima hvar?“, Náttúran.is: May 25, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/05/25/hvad-heima-hvar/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Aug. 1, 2014

Messages: