Grænir fánar Hraunavina blakta í Gálgahrauni sl. haust.Formaður Landverndar segir Hæstarétt hafa brotið á rétti Hraunavina til réttlátrar málsmeðferðar með því að meina þeim aðgang að dómstólum líkt og gert hafi verið í Gálgahraunsmálinu. Hraunavinir hafa höfðað mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna málsins.

Landvernd, Hraunavinir og tvö önnur umhverfisverndarsamtök kröfðust þess fyrir dómi að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um hvort þau gætu krafist lögbanns á framkvæmdir við nýjan Álftanesveg um Gálgahraun þar til skorið hefði verið úr um lögmæti þeirra. Sýslumaður hafði hafnaði beiðni þeirra um lögbann. Beiðninni var hafnað bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Rök Hæstaréttar voru að samkvæmt Árósarsamningnum, sem á að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku um umhverfismál, hefðu ríki svigrúm til að meta hvort stjórnsýsluleið eða dómstólaleið hentaði betur til að fá úr slíkum málum skorið.

Hraunavinir og tveir einstaklingar hafa nú, með stuðningi Landverndar, höfðað mál fyrir Mannréttindadómstólnum, þar sem þau telja að þessi niðurstaða sé brot á Árósarsamningnum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar segir það skilning Hæstaréttar að þar sem til sé úrskurðarnefnd í stjórnsýslunni þurfi þau ekki aðgang að dómstólum. „Þessu erum við algjörlega ósammála og teljum Hæstarétt hafa brotið á rétti samtakanna fyrir hönd þeirra félagssmanna, á réttlátri málsmeðferð og rétti til raunhæfra úrræða fyrir dómstólum.“

Guðmundur Ingi segir Evrópudómstólinn hafa komist að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur í fleiri en einu máli. „Dómstóllinn telur að það megi ekki svipta umhverfisverndarsamtök þeim rétti að sækja mál fyrir dómstólum sem þau eiga rétt á samkvæmt Árósarsamningnum og Evróputilskipunum sem byggja á honum.“

Mannréttindadómstólinn mun nú taka sér tíma til að ákveða hvort hann tekur málið fyrir. Guðmundur Ingi segir óljóst hvenær sú ákvörðun liggur fyrir en staðfesting hafi þó borist frá dómstólnum um að málið verði skoðað fljótlega.

Birt:
Sept. 25, 2014
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Hraunavinir kæra til Mannréttindadómstóls“, Náttúran.is: Sept. 25, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/09/25/hraunavinir-kaera-til-mannrettindadomstols/ [Skoðað:March 20, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: