Umhverfismerkið SvanurinnHann er eftirsóttur og hefur fengið sívaxandi útbreiðslu frá því hann fór að birtast á vörum sem þóttu viðurkenningarinnar virði. Svanurinn er tuttugu og fimm ára í dag, en þennan dag árið 1989 ákváðu ráðherrar neytendamála á Norðurlöndum að setja á stofn sameiginlegt opinbert umhverfismerki.

Stefán Gíslason flutti afmælispistil í Samfélaginu á RÚV í dag.

Umhverfismerkið Norræni Svanurinn á stórafmæli í dag, því að í dag eru nákvæmlega 25 ár liðin frá því að ráðherrar neytendamála í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi samþykktu að setja á stofn sameiginlegt opinbert umhverfismerki fyrir Norðurlöndin. Með þessu vildu ráðherrarnir sjá neytendum fyrir áreiðanlegu tæki til að aðstoða þá við að draga úr neikvæðum áhrifum sínum á umhverfið og stuðla þannig að sjálfbærari neyslu. Og það er óhætt að segja að þarna hafi ráðherrunum tekist virkilega vel upp, því að í dag er Svanurinn eitt þekktasta vörumerkið á Norðurlöndunum og eitt fjögurra virtustu umhverfismerkja í heiminum ef marka má alþjóðlega úttekt sem gerð var árið 2008 og náði til rúmlega 200 merkja.

Samkvæmt nýlegri könnun þekkir 91% Norðurlandabúa Svaninn og veit nokkurn veginn hvað hann stendur fyrir. Í einstökum löndum er þetta hlutfall enn hærra, og í Svíþjóð er það jafnvel haft á orði að fleiri þekki Svaninn en vörumerkið Coca Cola. Um þetta hef ég reyndar ekki séð áreiðanlegar tölur, en þegar hlutfallið er komið vel yfir 90% er augljóst að fá vörumerki skora hærra hvað þetta varðar.

Þegar maður horfir aldarfjórðung aftur í tímann hlýtur maður að undrast þá framsýni sem greinilega hefur svifið yfir vötnunum sem norrænu neytendaráðherrarnir hittust við í byrjun nóvember 1989. Á þessum tíma voru umhverfismerki nefnilega nokkurn veginn óþekkt fyrirbæri. Eina merkið sem var komið vel á legg á þessum tíma var Blái engillinn sem stofnað var til í Þýskalandi árið 1978. Ákvörðunin um að stofnsetja Svaninn var því nánast einstök á heimsvísu og reyndar alveg einstök þegar haft er í huga að þetta var sameiginleg ákvörðun fjögurra sjálfstæðra ríkja.

Svandís Svavarsdóttir fv. umhverfisráðherra og Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri tekur við Svansvottun fyrir hönd Farfuglaheimilisins. Svanurinn er það sem kalla mætti „alvöru umhverfismerki“, þar sem hann uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til merkja af þessu tagi og er nánar lýst í staðlinum ISO 14024. Svanurinn er óháð merki sem felur í sér vottun þriðja aðila og það að tiltekin vara beri merkið þýðir að hún stenst tilteknar viðmiðunarkröfur um umhverfislegt ágæti, auk þess að hafa verið gæðaprófuð til að sannreyna að hún dugi til þess sem hún er ætluð.  Svanurinn er því ekki bara umhverfismerki, heldur líka gæðamerki. Kröfurnar sem þarf að uppfylla til að fá Svansvottun ná til margra þátta og alls lífsferils vörunnar frá vöggu til grafar, hvort sem um er að ræða framleiðsluaðferðir, innihaldsefni, orkuþörf þegar varan er notuð, endurvinnanleika, áhrif á heilsu eða eitthvað enn annað. Merkið tryggir vissulega ekki að varan sé góð fyrir umhverfið, en það gefur í það minnsta til kynna að varan sé minna skaðleg fyrir umhverfið en aðrar vörur til sömu nota. Svanurinn felur því í sér einföld og áreiðanleg skilaboð, alveg eins og norrænu ráðherrarnir gerðu sér vonir um þar sem þeir sátu á fundi fyrir nákvæmlega 25 árum.

Umhverfisstofnun sér um daglegan rekstur Svansins á Íslandi – og á hinum Norðurlöndunum er sömuleiðis starfrækt ein Svansskrifstofa í hverju landi. Skrifstofurnar fimm hafa með sér náið samstarf en Norræna umhverfismerkjaráðið leggur meginlínurnar í starfinu. Þar sitja fulltrúar allra landanna og auk þess vinna 2-3 starfsmenn að því að samræma starfið á norrænum vettvangi.

Rafhlöður voru fyrstu vörurnar sem Svanurinn þróaði viðmiðunarreglur fyrir og skömmu síðar fylgdu ljósritunarpappír og þvottaefni í kjölfarið. Núna, 25 árum síðar, spannar Svanurinn 191 vöruflokk. Kröfurnar fyrir þessa flokka eru tilgreindar í 61 skjali, og þessar kröfur eru alla jafna uppfærðar á þriggja ára fresti til að tryggja að á hverjum tíma geti bara bestu vörurnar fengið þetta eftirsótta merki. Fyrirtækin sem hafa fengið leyfi til að merkja vörurnar sínar með Svaninum eru orðin 1.628 talsins og vörurnar eru samtals orðnar um 18.000 þegar allt er talið. Reyndar er ekki alveg rétt að tala bara um vörur í þessu sambandi, alla vega ekki í venjulegasta skilningi þess orðs, því að Svanurinn nær líka til ýmiss konar þjónustu, til dæmis gistingar, ræstiþjónustu, prentþjónustu, bílaþvottastöðva og dagvöruverslana, svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef stundum heyrt því haldið fram að Svanurinn sé bara fyrir stór fyrirtæki með mikil umsvif, því að það hljóti að vera alltof dýrt fyrir smærri aðila að greiða leyfisgjöld og leggja í þann kostnað sem kann að vera nauðsynlegur til að uppfylla allar kröfurnar. En þegar maður skoðar hvers konar fyrirtæki hafa fengið Svansvottun fyrir vörurnar sínar eða þjónustuna kemur annað í ljós. Í þeim hópi eru vissulega nokkur stórfyrirtæki með fleiri hundruð starfsmenn en þarna eru líka, svo dæmi séu tekin, örlítil dagvöruverslun í sænsku Dölunum þar sem eldri hjón eru einu starfsmennirnir yfir vetrartímann, og örlítið fyrirtæki í Óðinsvéum, þar sem húsmóðir á besta aldri framleiðir skóhillur í hjáverkum í um það bil 50% starfi. Þegar menn velta fyrir sér kostnaðinum við vottunina þarf auðvitað líka að velta fyrir sér verðmætinu sem liggur í því að mega merkja vöruna sína með einu sterkasta vörumerki Norðurlandanna.

Á Íslandi var Svanurinn svolítið lengi að ná flugi, en þróunin hefur verið mjög hröð síðustu árin. Nú eru 28 íslensk fyrirtæki komin með leyfi til að merkja vörurnar sínar eða þjónustuna með Svaninum. Í þeim hópi eru ræstingarfyrirtæki, prentsmiðjur, hótel, farfuglaheimili, veitingastaðir, kaffihús, hreinsiefnaframleiðandi og mötuneyti. Til samanburðar má nefna að í árslok 2008 voru fyrirtækin ekki nema fjögur. Fjöldinn hefur sem sagt sjöfaldast á tæpum sex árum.

Eins og fram kom í upphafi þessa pistils voru það neytendaráðherrar norrænu ríkjanna sem tóku ákvörðun um að koma Svaninum á legg. Árið 2006 tóku umhverfisráðherrar ríkjanna við keflinu og í síðustu viku hittust þeir einmitt í Stokkhólmi í tengslum við ársfund Norðurlandaráðs, og þar gafst tækifæri til að fagna 25 ára afmælinu. Ekki verður annað séð en að framtíð Svansins sé björt og að hann muni halda ótrauður áfram við að liðsinna neytendum við val á umhverfisvænstu kostunum á markaði hverju sinni.

Birt:
Nov. 6, 2014
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Svanurinn á 25 ára afmæli“, Náttúran.is: Nov. 6, 2014 URL: http://www.natturan.is/d/2014/11/06/svanurinn-25-ara-afmaeli/ [Skoðað:Jan. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: