Egg í hreiðri. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, skorar á stjórnvöld að auka landvörslu við Mývatn og Laxá. Verndarsvæðið hefur gildi á heimsmælikvarða. Það er á rauðum lista Umhverfisstofnunar sem þýðir að það er í verulegri hættu og er að tapa eða hefur tapað verndargildi sínu að hluta. Fjölgun ferðamanna allt árið gerir nauðsynlegt að veita fé til uppbyggingar, verndunar og aukins eftirlits. Meiri landvarsla eykur öryggi ferðamanna og bætir upplifun þeirra. Fjöregg lýsir einnig verulegum áhyggjum af ferðamannastöðum utan verndarsvæða í Mývatnssveit, svo sem Hverarönd og Leirhnjúk. Nauðsynlegt er tryggja öryggi ferðamanna þar og sjá til þess að verndargildi svæðanna skerðist ekki.

Fjöregg tekur undir kröfu Landverndar um að umhverfisáhrif raflína frá Kröflu að Bakka við Húsavík verði metin að nýju. Framkvæmdin felur í sér veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif á hraunið vestan við Kröflueldstöðina. Þar að auki myndi hún skemma illa lítt snortin víðerni sunnan Gæsafjalla. Þá myndi raflína á þessu svæði hafa neikvæð áhrif á útsýni frá Leirhnjúk. Almennt myndi framkvæmdin hafa verulega neikvæð áhrif á nýtingu svæðisins fyrir ferðaþjónustu.

Starf og markmið Fjöreggs

Markmið Fjöreggs er verndun náttúru og umhverfis í Mývatnssveit. Félagið vill stuðla að sjálfbærri umgengni, byggðri á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja. Félagið vinnur að markmiðum sínum með fræðslu, umræðu og með því að hvetja fólk og fyrirtæki til umhverfisvænna lífshátta og starfsemi. Félagið var stofnað fyrir rúmu ári og hefur starfsemin verið blómleg.

Fjöregg hefur þegar haldið tvö glæsileg málþing. Hið fyrra var um fráveitumál en það seinna um áhrif ferðaþjónustu á umhverfi og menningu.  Margir fyrirlesarar voru á hvoru málþingi og voru þau vel sótt. Á heimasíðu félagsins, fjoregg.is, er úrdráttur úr erindum sem flutt voru á málþinginu um fráveitur. Þar kom fram að jafnvægi á botni Mývatns hefði raskast af mannavöldum. Kúluskítur, friðaður þörungur, virtist með öllu horfinn og aðrir þörungar ættu undir högg að sækja. Fjöregg hefur hvatt íbúa sveitarinnar til að kynna sér málið og skorað á sveitarstjórn að taka það föstum tökum. Sérfræðingar Ramsar, alþjóðlegra samtaka um verndun votlendis, telja að önnur ógn sem steðji að vistkerfi Mývatns og Laxár sé leki eitraðs úrgangsvatns frá jarðvarmavirkjunum. Meðal annars í ljósi þess ákvað Fjöregg að halda málþing í haust um áhrif jarðvarmavirkjana á náttúru og mannvist.

Í Mývatnssveit er að hefjast flokkun á úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum. Markmiðið er að draga markvisst úr þeim úrgangi sem er urðaður og endurnýta verðmætin sem fólgin eru í honum. Sveitarfélagið tekur þátt í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi ásamt öðrum sveitarfélögum á svæðinu frá Melrakkasléttu vestur í Hrútafjörð. Fjöregg leggur sig fram um að styðja þessar úrbætur sveitarfélagsins og hafa jákvæð áhrif á framvindu verksins.

Birt:
May 21, 2015
Tilvitnun:
Hjördís Finnbogadóttir „Ályktanir frá Fjöreggi“, Náttúran.is: May 21, 2015 URL: http://www.natturan.is/d/2015/05/21/alyktanir-fra-fjoreggi/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: