Í þeirri sóknaráætlun í loftslagsmálum sem þrír ráðherra kynntu í morgun er bara að finna eitt magnbundið og tölusett markmið. Nefnilega að „... að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) um 40% til 2030 miðað við 1990 frá sjávarútvegi.“ Engin slík markmið er að finna um losun frá landbúnaði eða samgöngum.

Stefna Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í París er afar óljós. Ísland fylgir Evrópusambandinu sem stefnir að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 samanborið við 1990. Þess í stað er sagt að Ísland vilji taka á sig byrðar sem geti talist réttmætar (e. fair share).

Náttúruverndarsamtök Íslands telja einboðið að ríkisstjórn Íslands að lýsi því yfir afdráttarlaust að stefnt sé að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við 1990 - óháð markmiði Evrópusambandsins.

Ennfremur telja Náttúruverndarsamtök Íslands brýnt að ríkisstjórnin marki þá stefnu að Ísland verði kolefnishlutlaust (e. carbon neutral) eigi síðar en árið 2050.

Þá krefjast samtökin þess að hætt verði við öll áform um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu enda ljóst að þau áform samræmast á engan hátt því markmiði að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.

Samgöngur

Hvað samgöngur varðar er ítrekað markmið frá 2010 um að „... árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10% og mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að því að ná því marki.” Ekki er að finna neitt markmið um hvert þetta hlutfall skuli vera árið 2030 sem er afar bagaleg í ljósi þess að þetta árið seljast nýir bílar í svipuðu magni og fyrir hrun. Þeir bílar sem koma á götuna í dag eru að miklum hluta til alltof eyðslufrekir og þeir verða að meirihluta til enn í notkun árið 2030.

Með aðgerðaleysi sínu hefur ríkisstjórn Íslands fest stóran hluta þess bílaflota sem bætist við næstu árin í við losun sem er langt umfram sjálfbær mörk. Þetta er ekki sókn heldur er sett í bakkgírinn.

Sjávarútvegur

Að sjávarútvegur vilji draga úr losun um 40% árið 2030 miðað við 1990 eru góðar fréttir. Á hinn bóginn, Ísland verður að gera betur í öllum geirum, ekki bara sjávarútvegi. Lífríki hafsins er nú ógnað af loftslagsbreytingum og súrnun sjávar. Ísland hefur til alls að vinna með því að taka sér stöðu með þeim ríkjum sem kunna að sökkva í sjó takist ekki að halda hækkun hitastigs innan við 1,5°C, að meðaltali.

Endurheimt votlendis

Nú hafa liðið fjögur ár síðan Ísland fékk endurheimt votlendis viðurkennda sem mótvægisaðgerð hjá Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Það er fyrst næsta sumar sem eitthvað á að gera í málinu. Hver á svo að borga brúsann? Skattgreiðendur eða þeir sem menga?
Af hverju ætti ríkisstjórn Íslands að reka metnaðarfulla loftslagsstefnu?

Svar: Sterkasta vopn Íslendinga til að knýja á um skýr markmið alþjóðasamfélagsins í loftslagsmálum, verndun hafsins eða verndun heilbrigðis sjávarauðlinda er að sýna gott fordæmi. Öðlast trúverðugleika. Í húfi er hafið og lífríki þess.

Sjá frekari upplýsingar hér.

Sjá Gallup könnun um afstöðu almennings.


Birt:
Nov. 25, 2015
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Nokkrar athugasemdir við sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum“, Náttúran.is: Nov. 25, 2015 URL: http://www.natturan.is/d/2015/11/25/nokkrar-athugasemdir-vid-soknaraaetlun-rikisstjorn/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Dec. 1, 2015

Messages: