Wirk Zevenhuizen flutti til Íslands fyrir 2 árum og hóf störf sem rekstrarstjóri í Hreðavatnsskála. Wirk er fæddur í Hollandi en ólst upp í Tyrklandi og hefur ferðast um heiminn og eldað mat þ.á.m. á Ítalíu þar sem hann lærði að búa til pasta. Wirk hefur fengið viðurnefnið „pastaman“ enda elskar hann að búa til pasta.

Wirg Zewenhuizen framleiðandi Norðurárdals- pastans.Þar sem Wirk var farinn að framleiða umframmagn af pasta, meira en hægt var að selja í Hreðavatnsskála, hóf hann að leita að söluaðila. Í gegnum krókaleiðir náði pastað bragðlaukum Karenar Jónsdóttur sem rekur Kaja organic og fyrstu lífrænt vottuðu verslanir á Íslandi; Matarbúr Kaju & Café Kaja á Akranesi og nýopnað Matarbúr Kaju við Óðinsgötu 18b í Reykjavík. Karen, sem annars er ekki mikið fyrir pasta, var svo hrifin af pastanu hans Wirk að hún setti sig í samband við hann og þau hófu samstarf.

Eftir 4 mánaða vöruþróunarferli og leit að hárréttu lífrænu hráefnunum framleiðir Wirk nú pasta eingöngu úr lífrænt vottuðu hráefni og hefur fengið vottun á framleiðsluna frá Vottunarstofunni Túni.

Wirk framleiðir margar mismunandi gerðir af pasta undir nafni Norðurárdals, með og án krydds. Framleiðandi er Grá-Hraun ehf. Í fyrstu fara 4 tegundir í dreifingu. Venjulegt pasta án krydda, pasta með engifer, pasta með chili og sítrónu og pasta með karrí og pasta með kókos. Allt pastað inniheldur lífrænt vottuðu eggin frá Nesbúi. Kaja organic ehf. sér um dreifingu á Norðurálsdals- pastanu.

Merki lífrænnar vottunar Vottunarstofunnar Túns.
Birt:
Oct. 7, 2016
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Nýtt – Lífrænt vottað pasta framleitt á Íslandi“, Náttúran.is: Oct. 7, 2016 URL: http://www.natturan.is/d/2016/10/07/nytt-lifraent-vottad-pasta-framleitt-islandi/ [Skoðað:Dec. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 14, 2016

Messages: