Náttúruverndarsamtök Suðurlands og samtökin Sól á Suðurlandi lýsa vantrausti og furðu á gjörðum og yfirlýsingum Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Sunnlensku samtökin tvö taka þannig undir vantraustsyfirlýsingu Náttúruverndarsamtaka Íslands og harðorð mótmæli Landverndar vegna óviðeigandi framkomu ráðherrans í garð íslenskrar náttúru.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands og samtökin Sól á Suðurlandi harma afstöðu ríkisstjórnarinnar til umhverfismála. Ríkisstjórnin hefur vanvirt bæði rammaáætlun og náttúruverndarlög og starf þeirra fjölmörgu fagmanna og leikmanna sem hafa komið að þessum verkefnum á annan áratug. Ennfremur átelja samtökin þá óvirðingu sem ríkisstjórnin hefur sýnt friðlandinu í Þjórsárverum og áratuga baráttu heimamanna fyrir verndun þess. Frestun á staðfestingu stækkunar friðlands sem var tilbúin til undirritunar í vor reyndist aðeins vera forsmekkurinn að þeim árásum á Þjórsá sem síðar hafa orðið.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands og samtökin Sól á Suðurlandi vilja þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt lið baráttunni fyrir verndun Þjórsár og Þjórsárvera á liðnum árum, nú síðast Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands, sem hvetur til verndunar allra stórfossanna í Þjórsá.

Ljósmynd: Séð yfir Þjórsá.

Birt:
Oct. 1, 2013
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „Tilkynning um ályktun Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og Sólar á Suðurlandi“, Náttúran.is: Oct. 1, 2013 URL: http://www.natturan.is/d/2013/10/01/tilkynning-um-lyktun-natturuverndarsamtaka-sudurla/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: