Sú fyrirætlun umhverfisráðherra að afturkalla gildistöku náttúruverndarlaga 60/2013 að því er virðist án haldbærra raka og að undirlagi einstaka hagsmunaaðila án samráð við aðra sem málið varðar hefur vakið reiði og ugg meðal þeirra sem annt er um vandaða stjórnsýslu og almennar leikreglur lýðræðisríkja. 

En framganga nokkurra ráðherra í ríkisstjórn sem hefur ekki að skipa neinum reyndum ráðherrum hefur vakið furðu langt út fyrir landsteina og athugasemdir við stjórnunarhætti þeirra komið úr ólíklegustu áttum, m.a. frá hópi bandarískra kvikmyndagerðarmanna með Clint Eastwood í broddi fylkingar. Einnig frá Alþjóða gjaldeyrisjóðnum. 

Landvernd hefur gert athugasemdrir við fyrirhugaða brottfellingu laga 60/2013, sem samþyktt voru með 46 atkvæðum á síðasta þingi og aðeins einu mótatkvæði. Inngangur athugasemdarinnar hljóðar svo: 

Af tölvubréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis til Landverndar 4. nóvember s.l. að dæma, þar sem bréfi samtakanna vegna þá fyrirhugaðs frumvarps var svarað, er afar óljóst hvaða þætti á að taka fyrir í endurskoðun laganna (sjá nánar í lið 4 í þessari umsögn og fylgiskjal I). Greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umræðu er jafn óræð hvað þetta varðar. Eina sem virðist vera alveg ljóst er að lögin verði að fella brott.

Stjórn Landverndar telur að hér sé farið offari og að ekki hafi verið gerð grein fyrir því á faglegan hátt hvers vegna eða hvað eigi að endurskoða. Þó neikvæðar athugasemdir hafi á sínum tíma borist og óánægja vissra hópa í samfélaginu með lögin sé til staðar þá getur slíkt eitt og sér ekki réttlætt jafn viðamikla og stóra ákvörðun sem brottfall náttúruverndarlaga felur í sér, ekki síst vegna þess að frumvarp um brottfall þeirra er einnig mjög umdeilt.

Því má aldrei gleyma að það er hlutverk stjórnvalda að verja náttúru og umhverfi fyrir neikvæðum áhrifum af mannavöldum. Náttúran ver sig ekki sjálf. Það er í sjálfu sér ekki við öðru að búast en að löggjöf um náttúruvernd sé umdeild, enda skerðir hún athafnafrelsi framkvæmdaraðila og e.t.v. í einhverjum tilfellum skipulagsvald sveitarfélaga og umráðarétt landeigenda. Það er hinsvegar hlutverk Alþingis að tryggja vernd náttúru og náttúruauðlinda og greiða fyrir almannarétti fólks, þvert á ofangreinda hagsmuni. 

Umsögnina alla má lesa hér og einnig athugasemdir Landverndar við frumvarp til laga um náttúruvernd frá 8. febrúar 2013

Ljósmynd frá ferð Landverndar og fleiri í Þjórsárver í sumar til að hleypa af stokkunum átakinu Hálendið - Hjarta landsins.

Birt:
Dec. 14, 2013
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Landvernd gerir athugasemdir við frumvarp “, Náttúran.is: Dec. 14, 2013 URL: http://www.natturan.is/d/2013/12/14/ladvernd-gerir-athugasemdir-vid-frumvarp/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: