Þar sem veturinn nálgast óðfluga er tilvalið að birta upplýsingar um harðkornadekk, sem koma í stað nagladekkja. Meðal þeirra sem hafa staðið að þróun harðkornadekkja er fyrirtækið Nýiðn hf.

Harðkornadekk eru einkum ætluð til vetraraksturs en hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að nota þau allt árið. Harðkornadekk fara sérstaklega vel saman með notkun ABS hemlakerfis og njóta sín best miðað við önnur dekk við erfiðustu hálkuskilyrði. Harðkornin (silicium carbide og aluminiumoxide) eru gjarnan notuð sem iðnaðardemantar og sem slík eru þau fest í fræsihjól og tennur m.a. til málmvinnslu. Við framleiðslu harðkornadekkja er kornunum dreift jafnt í allt gúmmíðið. Jöfn dreifing kornanna í allt slitlag hjólbarðans veldur því að ávalt koma ný harðkorn í stað þeirra sem hverfa þegar hjólbarðinn slitnar.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var af þekktri stofnun í Þýskaland þá valda nagladekk 14 sinnum meiri skaða á gatnakerfinu en harðkornadekk. Önnur sænsk rannsókn staðfestir að venjuleg fólksbifreið sem ekur á nagladekkjum rífur upp 27 grömm af vegefni á hvern ekinn km. Það samsvarar 15-20.000 rúmmetrum af malbiki og steypu á ári Stór-Reykjavíkursvæðinu. Stór hluti af þessu efni eru tjöruleifar sem svífa um og valda áþreifanlegri loftmengun. Sú mengun hefur verið staðfest með mælingum sem sýna að loftmengun á höfuðborgarsvæðinu eykst verulega á svokölluðu naglatímabili. Þekkt eru áhrif tjörugufu á starfsmenn sem vinna við malbikun. Hver skyldu áhrif tjörumengunar af völdum nagladekkja vera á höfuðborgarbúa?

Mæling sem gerð var af Stefáni Guðjohnsen hljóðsérfræðingi hjá Hljóð ehf leiddi í ljós að hávaði sem framkallast af fólksbíl á nagladekkjum er 4 desibelum (2,5 sinnu) meiri en af samskonar bíl á sama hraða með sambærilegum ónegldum dekkjum.

Sama tilraun var gerð fyrir harðkornadekk og kom í ljós að engin munur er á hávaðamengun af völdum harðkornadekkja og sambærilegra ónegldra dekkja. Bílnum var ekið á 61 km hraða í öllum tilvikum. Vindur var mjög lítill. Hávaði af völdum nagladekkja með svokölluðum létt-nöglum var einnig mældur. kom í ljós að hávaði af völdum léttnagla er síst minni en af völdum þyngri nagla.

Hvað varðar notkun á harðkornadekkjum er mikilvægt að aka 500 til 1000 km á auðum vegi til þess að ná fram sem bestri virkni harðkornadekkja. Ónotað harðkornadekk hefur þunna gúmmíhimnu yfir kornunum í fyrstu, hún hverfur fljótt við notkun.

Eins og sagt var frá hér að ofan koma ný harðkorn í ljós eftir því sem slitbani hjólbarðans eyðist. Þetta gefur harðkornadekkjum mikla yfirburði yfir önnur dekk sem missa eiginleika sína jafnt og þétt eftir því sem þau slitna. Sérstaklega á þetta við um virkni nagladekkja, enda sýna prófanir að nagladekk sem búið er að rúlla 10.000 km er búið að missa 85% af virkni sinni sem nagladekk.

Harðkornadekk fást meðal annars hjá Sólningu

 

Upplýsingar teknar af vef Nýiðn hf

Mynd tekin af vefnum GreenDiamond tire of Utah

Birt:
Oct. 7, 2009
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Harðkornadekk“, Náttúran.is: Oct. 7, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2007/09/25/harkornadekk/ [Skoðað:Dec. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 25, 2007
breytt: Nov. 13, 2010

Messages: