Yfirlit yfir niðurstöður loftslagsráðstefnunnar

Niðurstöður loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn eru jákvæðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þótt skrefið sé lítið, að mati Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, sem sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Með Kaupmannahafnar-samkomulaginu er opnað á að Bandaríkin og Kína og öll helstu ríki sem losa gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftið grípi til aðgerða til að draga úr losun.

Með því er komið til móts við lykilkröfu Íslands og annarra ríkja, sem bera skuldbindingar samkvæmt Kýótó-bókuninni, um að fleiri ríki axli ábyrgð á að leysa loftslagsvandann og skuldbindi sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Margar hindranir eru þó enn í vegi ný s lagalega bindandi samnings sem taka á við þegar skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Eftir strangar formlegar samningaviðræður var ljóst að ekki væri unnt að ná samkomulagi um lykilatriði fyrir fund þjóðarleiðtoga í lok ráðstefnunnar. Því kom í þeirra hlut að reyna að leysa þau ágreiningsatriði. Undir forystu Obama Bandaríkjaforseta náðist sátt á milli Bandaríkjanna, Kína, Brasilíu, Indlands, Suður-Afríku, Evrópusambandsins og Rússlands, auk fulltrúa smáeyjaríkja og iðnríkja utan ESB, um orðalag lokaniðurstöðu, sem var síðan borin undir þing aðildarríkja loftslagssamningsins. Eftir langa og tilfinningaríka umræðu, sem stóð alla aðfararnótt laugardagsins var textinn studdur sem meginniðurstaða fundarins – Kaupmannahafnar-samkomulagið – en þó voru örfá þróunarríki sem lýstu yfir eindreginni andstöðu við það.

Kaupmannahafnar-samkomulagið felur í sér að:

  • Takmarka hlýnun jarðar við 2 gráður.
  • Einstök iðnríki tilkynni fyrir 1. febrúar 2010 hvaða losunarmarkmið þau setji sér fyrir árið 2020.
  • Upplýsingagjöf þeirra þróunarríkja sem taka á sig losunarskuldbindingar með fjárhagslegum stuðningi frá iðnríkjum.
  • Vilyrði iðnríkjanna um 10 milljarða dollara árlegan fjárhagsstuðning á tímabilinu 2010-2012.

Skuldbinding iðnríkjanna um að afla ný s fjármagns að upphæð allt að 100 milljarða dollara árlega 2020, með opinberum framlögum, einkafjármagni og með öðrum aðferðum.
Ísland lýsti í Kaupmannahöfn yfir vilja sínum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi áratug. Ísland hyggst í samvinnu við Evrópusambandið vinna að markmiði um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30% til 2020, miðað við 1990, að því gefnu að metnaðarfullt bindandi alþjóðlegt samkomulag náist. Með samningi um samvinnu við ESB tryggir Ísland sér sveigjanleika varðandi þetta markmið, sem er nauðsynlegt fyrir lítið hagkerfi. Markmiðinu verður náð annars vegar með þátttöku stóriðju og flugstarfsemi í viðskiptakerfi ESB eftir 2012, en hins vegar með samdrætti í losun í öðrum geirum, s.s. samgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði, auk bindingar kolefnis með skógrækt og landgræðslu.

Loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn er ein fjölmennasta samkoma þjóðarleiðtoga um langa hríð, en um 120 leiðtogar sóttu hann. Hafa fjölmiðlar m.a. bent á slíkur pólitískur þungi hafi tæpast legið að baki einum fundi frá því Versalasamningarnir voru gerðir árið 1919. Sú staðreynd sýnir mikilvægi loftslagsmála í alþjóðlegum samskiptum og vilja leiðtoga til þess að leysa ágreining um lykilatriði. Lengi hefur verið stefnt að því að ná bindandi samkomulagi í Kaupmannahöfn um alþjóðlegan samning sem tæki við eftir að fyrsta skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar rennur út. Vissulega eru vonbrigði að það tókst ekki, en þó lá fyrir að of mikið bæri á milli aðila til að hægt yrði að ganga frá fullbúnum samningi í Kaupmannahöfn. Lengi vel var tvísýnt um niðurstöðu í Kaupmannahöfn og tveggja vikna formlegar samningaviðræður voru nánast komnar í sjálfheldu þegar leiðtogafundurinn hófst.

Staða Íslands gagnvart núverandi og væntanlegum samningi skýr

Ísland er aðili að Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókuninni við hann. Ísland hyggst standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kýótó-bókuninni á fyrsta skuldbindingartímabili hennar 2008-2012. Spár Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda benda til þess að það muni takast. Stór hluti losunar á Íslandi fellur undir heimildir sérstaks ákvæðis í tengslum við Kýótóbókunina, sem rennur út í lok 2012. Óvissa um þær heimildir og almennt um alþjóðlegar reglur eftir 2012 er óþægileg fyrir íslensk stjórnvöld og atvinnulíf og fyrirtæki sem losa gróðurhúsalofttegundir. Með viljayfirlýsingu ráðherraráðs ESB um samstarf við Ísland, sem gengið var frá á meðan Kaupmannahafnar-fundinum stóð, er dregið verulega úr þeirri óvissu. Fullbúinn samningur Íslands við ESB gengur þó ekki í gildi fyrr en nýtt alþjóðlegt samkomulag liggur fyrir.
Ef dregst verulega að ganga frá bindandi alþjóðlegu samkomulagi um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda til að taka við af Kýótó-bókuninni er ljóst að krafa er á öll ríki að vinna að Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn hættulegum loftslagsbreytingum. Flest þróuð ríki hafa sett löggjöf eða gripið til aðgerða í því skyni en auk þess er Ísland hluti af viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. EES-samningnum. Nú er unnið að gerð aðgerðaáætlunar til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi undir forystu umhverfisráðuneytisins.

Áherslur Íslands komust áfram
Samningaviðræðurnar á 15. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins í Kaupmannahöfn og í aðdraganda þess eru einhverjar þær umfangsmestu í sögunni. Ísland hafði þar svipaðar megináherslur og flest þróuð ríki sem aðild eiga að Kýótó-bókuninni. Þær áherslur ferla í sér að setja ætti markmið um að hlýnun jarðar fari ekki yfir 2°C frá því fyrir iðnbyltingu og að allir helstu losendur gróðurhúsalofttegunda ættu að vera aðilar að bindandi samkomulagi um takmörkun losunar, þ.á m. Bandaríkin og stór og vaxandi þróunarríki á borð við Kína og Indland.

Ísland lagði sérstaka áherslu á kynjajafnrétti og virka þátttöku kvenna í aðgerðum og ákvarðanatöku í loftslagsmálum og hefur sett inn orðalag um það í drög að texta framtíðarsamkomulags. Ísland lagði líka fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun í viðbót við skógrækt, landgræðslu og aðrar aðgerðir á sviði landnotkunar og er sú tillaga inni í textadrögum. Þá hefur Ísland lagt áherslu á að draga úr losun með því að nýta endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis.
Haldið var upp á sérstakan Dag hafsins í tengslum við loftslagsfundinn, en þekking á áhrifum loftslagsbreytinga og aukins styrks koldíoxíðs á hafið og lífríki þess hefur aukist mjög á síðustu árum. Umhverfisráðherra vék sérstaklega að þeim vanda sem stafar af súrnun sjávar vegna hækkandi styrks koldíoxíðs í ræðu sinni og á sérstökum fundi um það efni.

Sameiginlegar aðgerðir allra ríkja nauðsynlegar

Loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál og ljóst að ekki er hægt að vinna markvisst gegn þeim nema með sameiginlegu átaki ríkja heimsins. Ísland hefur burði til að vera fyrirmyndarríki í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum vegna notkunar endurnýjanlegrar orku og mikilla möguleika á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og einnig vegna fjölmargra áhugaverðra verkefna á sviði loftslagsvænnar tækni og útflutnings á þekkingu. Margar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru auk þess hagkvæmar eða hafa annan ávinning í för með sér, s.s. minnkun á heilsuspillandi mengun og endurheimt landgæða. Halda þarf til haga því sem vel hefur verið gert á sviði loftslagsmála á Íslandi og grípa til aðgerða til að minnka nettólosun þar sem þess er þörf.
Ljóst er þó að aðgerðir Íslands til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda mega sín lítils nema þær séu hluti af hnattrænu átaki til lausnar loftslagsvandanum. Þátttaka í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er hornsteinn í loftslagsstefnu Íslands og íslensk stjórnvöld munu vinna að því að koma á bindandi samningi um aðgerðir í loftslagsmálum í kjölfar niðurstöðu Kaupmannahafnarfundarins.

Mynd af climatechange.thinkabout.eu.

Birt:
Dec. 20, 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Yfirlit yfir niðurstöður loftslagsráðsefnunnar“, Náttúran.is: Dec. 20, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/12/20/yfirlit-yfir-niourstoour-loftslagsraosefnunnar/ [Skoðað:Sept. 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: