Hér í Bali er strax komin mikil spenna í samningaviðræður. Umhverfisverndarsamtök lýstu í morgun áhyggjum sínum vegna afstöðu Japans og Kanada. Samtökin draga í efa að þau styðji það meginmarkmið að ný r samningur í kjölfar Kyoto-bókunarinnar fæli í sér lagalegar skuldbindingar um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Líkt og fyrri ár hafa Bandaríkin sig lítt í frammi en Bush-stjórnarin er eindregið gegn hvers kyns skuldbindingum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Engin bþst við að afstaða Bandaríkjanna muni breytast fyrr en Bush flytur heim til Texas þann 20. janúar 2009. Þau ríki sem vilja ná árangri í Bali eru í boxi við skugga Bush. Þau geta ekki samið við hann og þau geta ekki látið sem hann sé ekki til.

Skuldbinding iðnríkja um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er algjört skilyrði af hálfu þróunarríkja fyrir því að þau taki á sig skuldbindingar um aðgerðir eftir 2012. Taki iðnríkin ekki forustu um að draga úr losan hafna þróunarríkin hvers kyns skuldbindingum um að losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjum aukist ekki í samræmi við hagvöxt; að þróunarríki auki hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, auki orkuný tni eða leggi niður gömul kolaorkuver sem menga hlutfallslega mest.
Ennfremur er það krafa þróunaríkja að iðnríki aðstoði við tækniþróun og veiti fjármagn til að auðvelda fátækum þróunarríkjum við að takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Mörg iðnríki eru treg til að skrifa undir þann víxil. Ábyrgð þeirra á vandanum er þó ekki dregin í efa.

Leiðarljós umhverfisverndarsamtaka er að hækkun meðalhita Jarðar verði haldið innan við 2°C. Meira þoli vistkerfi jarðar ekki. ESB og Noregur styðja þetta markmið. Afstaða Íslands er enn óljós. 2°C-markmiðið felur í sér verulegan samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ófáir halda því fram að þetta markmið muni ekki nást en þá er hættan sú að loftslagsbreytingar verði ekki stöðvaðar.
Birt:
Dec. 4, 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Spenna í Balí“, Náttúran.is: Dec. 4, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/12/04/spenna-i-bali/ [Skoðað:July 25, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: