Friðarganga á ÞorláksmessuÍslenskir friðarsinnar hafa efnt til blysfarar niður Laugaveginn á Þorláksmessu á hverju ári undanfarna þrjá áratugi. Þessi ganga er sú  31. Margir líta nú á friðargönguna sem ómissandi þátt í jólaundirbúningi fjölskyldunnar og tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum rétt fyrir jólin til að leggja þar sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið í heiminum. Undanfarin ár hafa slíkar göngur einnig verið bæði á Akureyri og á Ísafirði.

Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur að venju fyrir blysför niður Laugaveginn í Reykjavík miðvikudaginn 23.desember. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00.  Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi áður en gangan leggur af stað. Í lok göngunnar verður stuttur fundur á Ingólfstorgi þar sem Steingerður Hreinsdóttir, alþjóða þróunarfræðingur   ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og formaður stjórnar Háskólafélags Suðurlands flytur ávarp en fundarstjóri er Árni Pétur Guðjónsson leikari. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Samstarfshópurinn minnir á að málstaður og rök friðarsinna skipta jafn miklu máli nú og fyrir þrjátíu árum. Stöðugt berast fregnir af ofbeldisverkum þjóða á milli og innan samfélaga. Óheyrilegum fjárhæðum er enn sóað í vígvæðingu og ekkert lát virðist á stríðunum í Írak og Afganistan.

Á Ísafirði: Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00 og gengið niður á Silfurtorg þar sem verður hefðbundin dagskrá með tónlist, ljóðum og mæltu máli.

Ræðumaður er Martha Ernstdóttir.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:

Changemaker, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Friðar- og mannréttindanefnd Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista

Nánari upplýsingar gefa:

Steinunn Þóra Árnadóttir.   Sími: 6902592/5512592
Guðrún V. Bóasdóttir.   Sími:   8919809

Birt:
Dec. 19, 2010
Tilvitnun:
Guðrún Valgerður Bóasdóttir „Gengið til friðar í þrjá áratugi.“, Náttúran.is: Dec. 19, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/12/19/gengid-til-fridar-i-thrja-aratugi/ [Skoðað:June 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: