Út er komin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi bókin Náttúra, vald og verðmæti eftir Ólaf Pál Jónsson. Í bókinni er glímt við ýmsar grundvallarspurningar um samband manns og náttúru, meðferð valds í lýðræðissamfélagi og rætur þeirra verðmæta sem gefa mannlegri tilveru gildi. Bókin er í senn greining á þeim hugtökum sem notuð eru til að fjalla um náttúru, vald og verðmæti - hugtökum eins og náttúra, umhverfi, framfarir, lýðræði og eignarréttur - og beitt gagnrýni á margt af því sem hefur verið sagt og gert síðustu ár.

Í þessu fyrsta Umhverfisriti Bókmenntafélagsins er tekist á við nokkur helstu átaka- og álitamála í samtímanum með aðferðum heimspekinnar.

Ólafur Páll Jónsson er lektor í heimspeki við Kennaraháskóla Íslands. Hann lærði heimspeki við Háskóla Íslands og síðar við Calgary-háskóla í Kanada og við MIT í Bandaríkjunum. Undanfarin ár hefur hann látið að sér kveða í umræðu um náttúruvernd og lýðræði.

Svo segir höfundur sjálfur um bók sína:

Í bókinni Náttúru, valdi og verðmæti fjalla ég um náttúruvernd, valdbeitingu í lýðræðisþjóðfélagi og þau verðmæti sem liggja mannlegri tilveru til grundvallar. Þetta eru mikil viðfangsefni og áleitin. Í raun má segja að þessi viðfangsefni hafi kosið mig, frekar en að ég hafi kostið þau. Þegar ég kom heim úr framhaldsnámi í heimspeki vorið 2001 hafði ég ekki hugsað mér að feta þessar slóðir. Ég hafði sérhæft mig á allt öðru sviði. En ásóknin í náttúru landsins var svo grimmileg og meðferð valds svo ófyrirleitin á köflum, að ég gat ekki orða bundist. Ég fann líka að heimspekilegur bakgrunnur minn fékk mig til að horfa svolítið öðruvísi á málin en flestir aðrir gerðu. Og mér fannst standa upp á mig að fjalla um þessi efni og reyna að leggja til dýpri skilning á hugtökum eins og náttúru, verðmæti og lýðræði.

Seinasta haust leit ég svo yfir það sem ég hafði skrifað í blöð og tímarit undanfarin fimm ár var það meira en ég gerði mér grein fyrir. Þegar ég bætti því við sem ég átti óbirt sá ég að ég hafði efnivið í heila bók. Bókin er samt ekki samsafn efnis sem var til, ýmist á prenti eða ofan í skúffu, heldur hef ég umskrifað allt efnið, mismikið að vísu, til að úr yrði heilsteypt rit sem gæti verið aðgengilegt sem flestum sem hafa áhuga á þessum málum.

Greinarnar í bókinni eru allt frá því að vera tvær blaðsíður og aðgengilega hverjum sem er, upp í að vera um 20 blaðsíður og mun fræðilegri. Ég hef þó lagt mig allan fram að skrifa skýrt og ég vona að engin grein sé svo tyrfin að hvaða áhugasamur og þolinmóður lesandi sem er geti ekki áttað sig á hugsuninni.

Það er ekki markmið mitt með þessari bók að sannfæra sem flesta um mín sjónarmið. Markmiðið er miklu frekar að leggja til hugtök og hugmyndir til að hugsa um þessi mikilvægu mál. Og hluti af því er að afhjúpa ýmis önnur hugtök og aðrar hugmyndir, t.d. hugmyndina um fórnarkostnað og hugtakið um lýðræði eins og það birtist í orðum og gerðum ýmissa stjórnmálamanna. En umfram allt á þessi bók að vera innlegg í rökræðu – ekki bara innlegg í samræðu. Hún á að setja fram rök og afstöðu sem hægt er að bregðast við, ræða frekar og vera sammála eða ósammála.

Ólafur Páll Jónsson

Birt:
May 4, 2007
Tilvitnun:
Ólafur Páll Ólafsson „Náttúra, vald og verðmæti“, Náttúran.is: May 4, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/05/04/nttra-vald-og-vermti/ [Skoðað:Dec. 5, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 8, 2007

Messages: