Verkefnið Beint frá býli kynnti á þriðjudaginn handbók um heimavinnslu og sölu afurða. Um er að ræða verkefni sem hrint var úr vör fyrir tilstilli landbúnaðarráðuneytisins fyrir þremur árum síðan. Samstarfshópur á vegum Bændasamtaka Íslands, Félags ferðaþjónustubænda, Landbúnaðarháskóla Íslands, Impru, Hólaskóla - háskólans að Hólum og Lifandi landbúnaðar hefur síðan unnið að því að finna form og leiðir til að gera bændum landsins mögulegt að selja framleiðslu sína beint frá bæjum sínum eins og þekkist í nágrannalöndum okkar.

Niðurstaða vinnuhópsins var að gefa út leiðbeinandi rit eða handbók sem að auðveldað gæti fyrstu sporin í átt að heimavinnslu og sölu. Auðvitað eru mörg ljón á veginum, sérstaklega þar sem um gæðavottun verður að ræða. Uppfylla verður almennar kröfur um hreinlæti og aðstöðu eins og alls staðar annars staðar í matvælaiðnaði, stórum og smáum og gott eitt betur eigi varan að ná að marka sér sérstöðu sem íslensk gæðaframleiðsla „á heimsvísu“.
-
Miklar vonir eru bundnar við framtíð heimasölu en eins og Berglind Viktorsdóttir vitnaði í í ræðu sinni vakti Andri Snær Magnasons fólk af djúpum svefni með lýsingum sínum í Draumalandinu á því hvernig að maður ætti í raun að fá vatn í munninn við að keyra um sveitir landsins. Handbókin og heimasíða verkefnisins var formlega kynnt á veitingastaðnum Friðriki V. á Akureyri en Friðrik V. er meistarkokkur sem galdrað hefur fram nýja rétti af miklu hugmyndaauðgi. T.a.m var boðið upp á fjallagrasa-naanbrauð, brauðstangir kryddaðar með villtum jurtum, feta-ost lagðan í birkiblöð og olíu, mysudrykki o.m.fl. Berglind Viktorsdóttir verkefnisstjóri kynnti verkefnið, Ólöf Hallgrímsdóttir frumkvöðull Vogarfjóss kynnti bú sitt í máli og myndum og landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson tók við fyrsta eintaki handbókarinnar og hélt framsögu um verkefnið.


Sjá nánar um verkefnið, þátttakendur og vinnubókina á heimasíðu Beint frá býli, www.beintfrabyli.is.
Sjá einnig fréttina „Bændur og hönnuðir mætast“ á vef Framtíðarlandsins.
-
Efsta myndin sýnir Ólöfu Hallgrímsdóttur frá Vogafjósi í pontu.
Litla myndin þar fyrir neðan er af skyrkonfekti sem hannað var í Listaháskóla Íslands, í kúrs sem kallaðist „Borðið - stefnumót hönnuða við bændasamfélagið“. Konfektið var unnið í samvinnu við Mjólkurbúið Erpstaði í Dölunum. Hönnuðirnir Brynhildur og Guðfinna Mjöll kenndu á námskeiðinu og nemendur þeirra þær Kristín Birna Bjarnadóttir, Alda Halldórsdóttir og Sabrina Elisabet Stigler hönnuðu molana. Við Borðið.
Þriðja myndin er tekin við opnun vefsins, Guðni Ágústsson óskar Berglindi Viktorsdóttur og vefstjóranum Marteini Njálssyni til hamingju með áfangann.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
March 2, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Beinsala frá býlum landsins að verða að veruleika“, Náttúran.is: March 2, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/03/16/beinsala_ad_veruleika/ [Skoðað:June 6, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: July 10, 2008

Messages: