Í framhaldi af tilkynningu Neytendasamtakanna og hugmynd um birtingu eftirlitsskýrslna, birtir Náttúran nýja eftilitsskýrslu umálið. Broskarlahugmyndin (sjá grein) hefur ekkert komið formlega til heilbrigðiseftirlita, en þessi hugmynd hefur komið fram, verið rædd og margir hafa kynnst framkvæmdinni bæði á fyrirlestrum Norrænu matvælaþinganna og eins á vettvangi í Danmörku.

REGLUGERÐ um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með matvælum.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um birtingu á niðurstöðum  eftirlits með framleiðslu og dreifingu matvæla. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að opinberri birtingu upplýsinga um gæði og öryggi matvæla.

2. gr.

Skýrsla og birting.

Eftirlitsaðilar, skv. 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, skulu árlega taka saman skýrslu með helstu niðurstöðum úr eftirliti með framleiðslu og dreifingu matvæla.  Eftirlitsaðilum er heimilt að flokka niðurstöður eftirlitsins eftir fyrirtækjum, vörum og eða vöruflokkum.

Eftirlitsaðilum er heimilt að gefa skýrsluna út sem hluta af ársskýrslu hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Eftirlitsaðilar skulu birta skýrsluna með rafrænum hætti á heimasíðu hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

3. gr.

Innflytjendur og framleiðendur.

Framleiðendur og dreifingaraðilar matvæla skulu eiga kost á að koma á framfæri athugasemdum við þann hluta skýrslunnar sem fjallar um vörur viðkomandi og skal veittur 30 daga frestur til að skila inn athugasemdum. Sé ekki tekið tillit til athugasemda frá framleiðendum eða dreifingaraðilum skal birta þær í viðauka við skýrslu eftirlitsaðila.

4. gr.

Birting rannsóknaniðurstaðna og eftirlitsaðgerða í einstökum tilvikum.

Eftirlitsaðila er í eftirfarandi tilvikum heimilt að birta niðurstöður úr eftirliti með framleiðslu og dreifingu matvælafyrirtækja á matvælum:

a. Þegar niðurstöður úr efna- og örverugreiningum leiða í ljós að matvæli er ekki í samræmi ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.

b. Þegar niðurstöður eftirlits leiða í ljós að framleiðsla, dreifing og markaðssetning matvæla er ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.

c. Þegar eftirlitsaðili stöðvar starfsemi matvælafyrirtækja að hluta eða heild eða þegar eftirlitsaðili gefur fyrirmæli um afmengun eða innköllun eða þegar eftirlitsaðili takmarkar eða stöðvar framleiðslu eða markaðssetningu, leggur hald á eða fer fram á förgun matvæla.

Birting niðurstaðna skal fara fram eins fljótt og unnt er á heimasíðu hlutaðeigandi eftirlitsaðila. Jafnframt er eftirlitsaðila með sama hætti heimilt að birta almennar upplýsingar um aðgerðir hennar eða matvælafyrirtækja þegar matvæli uppfylla ekki kröfur um öryggi vörunnar.

5. gr.

Kærur og frestun birtingar.

Stjórnsýslukæra aðila máls til ráðherra frestar ekki birtingu eftirlitsaðila.

6. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 28. gr. a. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 17. janúar 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

Birt:
Jan. 31, 2012
Höfundur:
Birgir Þórðarson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Ný reglugerð um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með matvælum“, Náttúran.is: Jan. 31, 2012 URL: http://www.natturan.is/d/2012/01/31/ny-reglugerd-um-birtingu-nidurstadna-vegna-eftirli/ [Skoðað:Jan. 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: