Á vef Alta kemur fram að fyrirtækið hafi um nokkurt skeið verið að vinna með Landssambandi smábátaeigenda (LS) að verkefni sem felur í sér umhverfsimerkingu á íslenskum smábátafiski og og hefur verið tekin ákvörðun um samstarf við sænska fyrirtækið KRAV um slíka vottun.

Eftirspurn eftir fiski sem hefur hlotið vottun um sjálfbærar veiðar hefur aukist mikið á síðustu árum og er verkefnið liður í því að svara þeim kröfum markaðarins. Einnig er verkefnið liður í því að efla markaðssetningu á íslenskum smábátafiski á erlendum mörkuðum sem fyrsta flokks vöru sem uppfyllir ströngustu umhverfiskröfur við veiðar og vinnslu og þannig auka verðmæti aflans. KRAV eru samtök sem þróa og markaðsetja staðla fyrir lífræna vottun matvöru í Svíþjóð og er KRAV merkið eitt útbreiddasta umhverfismerkið fyrir lífrænt ræktaða matvöru í Svíþjóð og víðar í Skandinavíu. KRAV hefur á undanförnum árum þróað staðal og vottunarferli fyrir sjálfbærar fiskveiðar á Norðurlöndum og nær KRAV vottunin m.a. til veiða, veiðafæra, vinnslu og sölu tiltekinnar vöru. Til að hægt sé að markaðssetja fisk með KRAV merkinu þarf að uppfylla viðeigandi kröfur fyrir öll þessi stig í framleiðsluferlinu.

Í byrjun verður um tilraunaverkefni að ræða og er gert ráð fyrir að unnið verði að umhverfisvottun á fiski frá nokkrum bátum og einni fiskvinnslu til að byrja með. Ef vel gengur má gera ráð fyrir að fleiri fylgi í kjölfarið. Stefnt er að því að fyrsti umhverfismerkti smábátafiskurinn fari á markað fyrrihluta árs 2008.
Birt:
Sept. 12, 2007
Höfundur:
Alta
Tilvitnun:
Alta „Umhverfismerki fyrir smábátafisk í undirbúningi“, Náttúran.is: Sept. 12, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/09/11/umhverfismerki-fyrir-smbtafisk-undirbningi/ [Skoðað:Dec. 5, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 11, 2007

Messages: