Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði lýsir yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillögu um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði. Mikil andstaða er í Skagafirði við þau virkjunaráform sem þröngur en valdamikill hópur hefur á prjónunum. Þar er aðeins horft til skamms tíma og ekkert tillit tekið til náttúrufars á svæðinu. Stíflur í Jökulsánum og Héraðsvötnum myndu hafa mjög alvarleg áhrif á lífríki alls láglendis Skagafjarðar og sömuleiðis á hrygningar- og uppeldisstöðvar nytjafiska í Skagafirði. Þá er alveg ljóst að ferðaþjónustu í héraðinu yrði greitt þungt högg verði ráðist í virkjanirnar og sumar greinar hennar leggjast af, svo sem hinar geysivinsælu og sívaxandi flúðasiglingar. Fráleitt er að tala um hreina orku í tengslum við þessar virkjanir og fórnarkostnaðurinn þeim samfara algjörlega óréttlætanlegur. Skynsamlegra er að efla ímynd Skagafjarðar sem héraðs með hreina og óspillta náttúru þar sem áhersla verði lögð á matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fjölbreyttan smáiðnað. Með friðlýsingunni opnast möguleiki á stofnun þjóðgarðs, sem hugsanlega yrði hluti af enn stærri þjóðgarði og næði a.m.k. yfir Hofsjökul og umhverfi hans, m.a. Þjórsárver og Kerlingafjöll.

Áhugahópurinn skorar á þingheim allan að samþykkja tillöguna eins og hún liggur fyrir. Full ástæða er til að ætla að auk þingmanna Vg, sem eru flutningsmenn tillögunnar, muni a.m.k. þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar styðja tillöguna, enda er beinlínis tekið fram í stefnuyfirlýsingu hennar „Fagra Ísland“, að „tryggja skuli friðun jökulánna í Skagafirði“ . Það er einnig von okkar að aðrir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, sjái og skilji að mál er orðið að huga betur að náttúru Íslands og samhengi hennar en verið hefur fram til þessa.

Sjá vef Áhugahópsins.

Birt:
March 14, 2008
Tilvitnun:
Áhugahópur um verndun jökulsánna í Skagafirði „Yfirlýsing frá Áhugahópi um verndun Jökulsánna í Skagafirði“, Náttúran.is: March 14, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/03/14/yfirlysing-fra-ahugahopnum-um-verndun-jokulsanna-i/ [Skoðað:April 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: