Náttúruverndarsamtök Íslands hafa ritað Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra eftirfarandi bréf:

Varðar skipulagsbreytingar vegna virkjana í neðri Þjórsá

Í ljósi úrskurðar samgönguráðherra s.l. föstudag vegna greiðslna Landsvirkjunar til Flóahrepps fyrir skipulagsbreytingar vegna Urriðafossvirkjunar og greiðslna Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi krefjast Náttúruverndarsamtök Íslands þess að umhverfisráðherra hlutist til um að málsmeðferð vegna breytts aðalskipulags verði ómerkt á grundvelli vanhæfis sveitarstjórnarinnar.

Umhverfisráðherra hefur áður með úrskurði sínum þann 12 maí s.l. staðfest að skipulagsferlinu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafi verið áfátt hvað varðar kynningu fyrir almenningi. Nú blasir við að sveitarstjórnarmenn hafi fengið greitt fyrir að hampa sjónarmiðum Landsvirkjunar og um leið snuða almenning um upplýsingar.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 24. mars s.l., mál nr. 5434/2008, segir:

Umboðsmaður tók fram að gerð aðalskipulags og deiliskipulags væri á ábyrgð sveitarstjórna, sbr. 1. mgr. 16. og 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og fælu því þessi verkefni í sér sveitarstjórnarmálefni í merkingu 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Veldi sveitarstjórn, sem lið í skipulagsferli, að gera sérstakt samkomulag við framkvæmdaraðila, og ágreiningur risi um hvort sveitarstjórninni hefði í ljósi skipulags- og byggingarlaga verið heimilt að gera samkomulag að hluta eða að öllu leyti, þá kynni að vera um að ræða „vafaatriði við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna“ í skilningi 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Við þær aðstæður væri endurskoðun samgönguráðuneytisins í kæruferli bundin við að leggja mat á hvort sveitarstjórninni hefði verið heimilt að gera umrætt samkomulag, að hluta eða í heild. Kynni þá m.a. að virtu efni hlutaðeigandi samkomulags að þurfa að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða réttarlegu þýðingu efnisreglur skipulags- og byggingarlaga hefðu í því efni.

[...]
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það tæki mál A ehf. til endurskoðunar, kæmi beiðni þar um frá félaginu, og hagaði þá úrlausn málsins í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu.

Í úrskurði samgönguráðherra segir:

Að virtu öllu framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að Flóahreppi hafi ekki verið heimilt að semja við Landsvirkjum með þeim hætti sem segir í 6. gr. samkomulagsins, um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu. Umrædd 6. gr. samkomulagsins telst því ólögmæt.

Með greiðslum sínum til sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur Landsvirkjun gengið mun lengra en gert var við breytingar á aðalskipulagi Flóahrepps og Umboðsmaður taldi samgönguráðherra skylt að taka til endurskoðunar – sem hann loks gerði. Hvað varðar skipulagsvinnu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur Landsvirkjun gert skipulagsferlið að fjárhagslegu samkomulagsatriði við einstaka sveitarstjórnarmenn án vitundar umbjóðenda þeirra. Slíkar greiðslur voru ekki í boði þá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps lagðist gegn Norðlingaölduveitu.

Við slíkar aðstæður er erfitt að halda því fram að sveitarstjórnarmenn vinni með hagsmuni íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps að leiðarljósi.

Minnt skal á í 1. gr. Skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997 segir um markmið laganna:

að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljós,

að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni bygginga og annarra mannvirkja sé fullnægt.

Ennfremur skal minnt á ákvæði Árósasáttmálans um rétt – ja, nánast skyldu – almennings til að beita sér við ákvarðanatöku í umhverfismálum (skipulagsmál falla tvímælalaust þar undir), rétt almennings til upplýsinga um umhverfismál og rétt almennings til að leita réttarúrlausna. Í þessu máli ber að þakka einstaklingsframtak en að öllu jöfnu hafa náttúruverndarsamtök ekki fjárráð til að leita aðstoðar lögmanns.

Hlutverk Landsvirkjunar á ekki og má ekki vera að bera fé á sveitarstjórnir eða einstaka sveitarstjórnarmenn. Fyrirtækið á ekki að gangast fyrir lokuðum fundum með sveitarstjórnarmönnum í höfuðstöðvum þess í Reykjavík og greiða fyrir fundarsetu þar eða annars staðar í borginni. Slík vinnubrögð koma í veg fyrir aðkomu almennings að ákvarðanatöku, gagnsæi skipulagsferilsins. Landsvirkjun á einungis að framkvæma það sem löggjafinn eða framkvæmdavaldið felur fyrirtækinu að gera.

Í þessu sambandi skal bent á upplýsingar sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa fengið varðandi framlag Landsvirkjunar austur á Fljótsdalshéraði þar sem Landsvirkjun,

  • vann deiliskipulag vegna Hálendismiðstöðvar við Laugafell
  • lagði rafstreng að fyrirhugaðari hálendismiðstöð við Laugarfell
  • 2,5 milljónir fyrir göngubrú yfir Laugará eyrnamerktar
  • athuga verður hvort Landsvirkjun greiddi kostnað vegna borrana eftir heitu og köldu vatni við Laugarfell
  • keypti hálfónýtan gangnamannakofa (Sauðakofa) á Vesturöræfum og hann síðan gefinn aftur til sveitarfélagsins og fluttur annað
  • byggði við félagsheimili Fljótsdælinga og hafði á leigu fyrir upplýsingamiðstöð vegna Kárahnjúkavirkjunar en mun skila þvíi á næsta ári og þá gengur viðbygging til eigenda þeim að kostnaðarlausu
  • á sínum tíma fékk oddviti Fljótsdalshrepps laun úr sjóðum Landsvirkjun í samræmi við þágildandi lög. Athuga verður hvort aðrir sveitarstjórnarmenn á Austurlandi hafi fengið slíkar fyrirgreiðslur.

Náttúruverndarsamtök Íslands telja brýnt að aðkoma Landsvirkjunar að ákvörðunum sveitarstjórna s.l. 10 – 15 ár um virkjanaframkvæmdir verði rarnnsakaðar í þaula.

Náttúruverndarsamtök Íslands skora á umhverfisráðherra að beita sér fyrir því að skipulagslögum og lögum um Landsvirkjun verði breytt þannig að skýrt verði tekið fram að ákvarðanir um virkjanir og skipulagsmál þeirra vegna sé á höndum viðkomandi ráðuneyta og stofnanna þeirra. Ennfremur, að Landsvirkjun verði beinlínis bannað að hafa áhrif á ákvörðunartöku um virkjana- og skipulagsmál með með beinum eða óbeinum greiðslum til sveitarfélaga eða einstakra sveitarstjórnarmanna.

Ennfremur telja Náttúruverndarsamtökin brýnt að ríkisstjórn Íslands móti sér eigendastefnu fyrir Landsvirkjun sem kveði skýrt á um að fyrirtækið virði í hvívetna rétt almennings til þátttöku í ákvörðunum um virkjana- og skipulagsmál.

Náttúruverndarsamtökin benda á ummæli Harðar Arnarsonar í Kastljósi ríkissjónvarpsins þann 18. ágúst s.l. varðandi afstöðu hans til virkjana í neðri hluta Þjórsár:

Mér finnst það mjög mikilvægt varðandi virkjunarkosti almennt að það eru raunverulega hlutverk stjórnvalda að ákveða hvar er virkjað. Landsvirkjun þarf að sjálfsögðu að gera rannsóknir og frumvinnu hvar er hagkvæmt að virkja, en síðan er það stjórnvalda helst með langtíma rammaáætlun að - sem sagt ákveða, þá í umboði almennings hvar skal virkja. Síðan er það Landsvirkjun þá á hverjum tímapunkti eða annarra fyrirtækja að virkja þar sem að stjórnvöld vilja virkja. Þannig að - mér finnst það mikilvægt - þetta er í rauninni pólítísk ákvörðun hvar virkjað er en þetta er ekki viðskiptaleg ákvörðun Landsvirkjunar.

Virðingarfyllst,

F.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands

Árni Finnsson

Birt:
Sept. 7, 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Landsvirkjun verði rannsökuð 15 ár aftur í tímann“, Náttúran.is: Sept. 7, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/09/07/landsvirkjun-veroi-rannsokuou-15-ar-aftur-i-timann/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: