Björk Guðmundsdóttir söngkona svarar grein Árna Johnsen frá því á miðvikudaginn 11. júní í Morgunblaðinu í dag þ. 14. júní 2008:

Árni Johnsen kallar mig barnalega fyrir að vilja vernda náttúruna. Skrþtið því mér finnst einmitt hálfbarnalegt að þegar allur heimurinn er á tánum yfir því að næstu 50-100 árin muni gróðurhúsaáhrif jafnvel farga mannkyninu, þá hækkum við koltvísýringslosun Íslands upp í 17 tonn á hvern einstakling, sem setur okkur í þriðja sæti í heiminum, á eftir Ástralíu og Bandaríkjunum. 10 af þessum tonnum eru út af álverunum þremur sem eru komin. Ef við byggjum álver á Húsavík og Helguvík stefnum við hærra? Verðum við efst? Mesti mengunarvaldurinn í heiminum? Barnalegt eða fullorðinslegt? Það er spurning ... Álverin sem komin eru, þau verða áfram, hjá því verður ekki komist. En samt finnst mér eitthvað svo barnalegt að selja orkuna á þriðjungi af því verði sem Alcoa borgar í Evrópu og Ameríku. Við gætum virkjað þriðjungi minna ef við fengjum allan ágóðann. Og svo flytja menn allt óunnið úr landi í stað þess að hanna eitthvað nytsamlegt og setja “made in Iceland” á gripinn. Af hverju ekki að framleiða einhverja hluti áður en við bræðum meira?

Af hverju, eins og þegar við veiddum þorskinn, höfðum við bara áhuga á fyrsta stiginu, útvega hráefni, en ekki klára dæmið? Af hverju þurfum við enný á að leika ný lendu þar sem við vinnum öll skítverkin? Fyrir annaðhvort Dani, Bandaríkjaher eða Alcoa og fáum ekki mikið í staðinn. Er ekki barnalegt að selja sig svona ódýrt? Árni talar um ruddalegt brotthvarf hersins – af hverju ætti Alcoa ekki að verða jafn ruddalegt einhvern daginn? Og langflestir sem unnu hjá hernum eru komnir í aðra vinnu. Við ættum að fagna því. Jónas frá Hriflu kallaði Halldór Laxness barnalegan fyrir skoðanir sínar á náttúruvernd. Halldór barðist meðal annars fyrir varðveislu Gullfoss. Og kannski var Ólafur Thors barnalegur þegar hann neitaði Bandaríkjaher um fjórar herstöðvar hér í staðinn fyrir þessa einu. Þeir hefðu jú malbikað hringveginn í staðinn og við “grætt” heilmikið. En þá hefði Ísland hrunið með kalda stríðinu með tilheyrandi atvinnuleysi. Við hefðum ekki kunnað að koma neinu í verk nema spyrja Bandaríkjamenn um leyfi. Svipað og hvernig Grænlendingar eru háðir Dönum enn í dag.

Af hverju ættum við að verða háð öðrum? Mér finnst það barnalegt. Kannski finnst Árna Johnsen barnaleg sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Var Jón Sigurðsson bara með rómantíska tilfinningasemi þegar hann vildi að þjóðin gerði allt sjálf þar sem það er miklu erfiðara og eins og allir vita: að hlúa að grasrót, byrja alveg frá grunni og byggja upp heilt land tekur langan tíma, af hverju að vera að þessu veseni þegar við getum látið Dani/USA/Alcoa borga allt fyrir okkur? Ég vil benda Árna á, að þvert á vitneskju hans veit ég ýmislegt um grasrót. Hef bráðum 30 ára reynslu. Alveg frá því að Skífan og Steinar á sínum tíma buðu okkur samninga tókum við þá afstöðu að gera allt sjálf – þar til í dag hef ég aldrei selt mig. Sykurmolarnir fengu á sínum tíma stór tilboð frá stórum fyrirtækjum en við vildum alltaf eiga okkur sjálf og ekki skulda neinum neitt.

Ég hef t.d. alltaf sagt nei við öllum auglýsingum. Ég hef hitt mikið af erlendum tónlistarmönnum sem hafa verið í svipaðri stöðu og ég hvað frægð og sölu platna varðar en hafa síðan látið freistast og skrifað undir “stóra samninginn”, selt þar með sjálfstæði sitt og seinna þegar verr hefur gengið fá þeir ekkert gefið út eða neyðast til að skrifa tónlist sem er ritstýrt af hljómplötufyrirtækinu. Um það eru til margar sögur. Það er bara ekki gott að setja sig í svona veika stöðu, vera svona undir öðrum kominn.

Það er rétt hjá þér, Árni, ég veit ekkert um það hvernig það er að vera atvinnulaus úti á landi en ég veit ýmislegt um hvernig á að byrja á litlu fyrirtæki, hvernig þarf að hlúa að því, trúa á það þegar enginn annar gerir það og freistast ekki til að selja sig ódyrt stærri fyrirtækjum þegar fer aðeins að ganga, maður þarf að vökva og sinna því í gegnum erfiðu tímana til að eiga skilið ávextina sem koma seinna. Það verður að verja plöntuna öll árin á leiðinni, þangað til hún verður stór, plantan þín verður ekki heilbrigð og frumleg nema maður hafi með þolinmæðinni hlúð að henni og nostrað alla leið. Það þarf að segja nei við spillingu og alls kyns freistingum um að taka “short cut” inn í “big time” og ég get lofað þér að það að byggja eitt stærsta álver í heimi í samvinnu við Alcoa er “short cut”. Lyktin finnst langar leiðir.

Ég vil líka benda Árna á að ég kem ekki einu sinni á ári til Íslands. Ég hef verið hér helming tímabilsins frá 1993 og meðlimir Sigur Rósar búa hér enn og gott að minnast á að þeir byggðu hljóðver í Mosfellskvosinni og hafa unnið flestar plötur sínar þar.
Þegar ég tala um að ímynd Íslands sé mikilvæg Íslendingum sem vinna erlendis var ég ekki bara að tala um mig og Sigur Rós. Ég hef minnstar áhyggjur af okkur. Ég er að tala um hinar fjöldamörgu útflutningsvörur eins og skyr, vatn, fisk, lífrænt lambakjöt, ferðamennsku, jarðvarmaþekkingu og meira segja Ólafur Ragnar Grímsson, háttvirtur forseti Íslands, er farinn að halda fyrirlestra erlendis um græna orku Íslands. Svo ekki sé minnst á það sem gæti orðið, ef við höldum okkur grænum. Ég er þeirrar skoðunar að við gætum nýtt ímynd Íslands erlendis miklu miklu betur. Selt t.d. lífrænt grænmeti, heilsuvörur, snyrtivörur, mjólkurvörur og fleira og fleira. Erlendis eru margir tilbúnir að borga miklu meira fyrir lífræna vöru frá grænu landi.

Mesta trúna hef ég á ímynduarafli landans. Þar hef ég reynslu líka, Árni. Íslenski tónlist, sem hefur apað eftir erlendum hugmyndum hefur ekki gengið vel erlendis. Það eiga list og “bisness” sameiginlegt: frumleg hugsun hjálpar ...

Geir Haarde fékk um daginn verðlaun Newsweek sem grænasti forsætisráðherra heims. Ef við samykkjum fleiri álver verðum við ekki lengur grænust. Við verðum ein stærsta málmbræðsla í heimi og sú þjóð sem mengar mest á mann. Ótal atvinnumöguleikar verða úr sögunni. Það er á stefnuskrá margra fyrirtækja í framtíðinni að vinna aðeins með fyrirtækjum og löndum sem eru græn. Möguleikar okkar á að vinna með t.d. Google myndu hverfa ef við höldum ekki í þá ímynd sem Ísland hefur.

Við getum ekki bæði verið græn og ekki græn, því miður. Látrabjarg, stærsta fuglabjarg Evrópu, gæti orðið fjölsóttur þjóðgarður. Íbúar héraðsins þar hafa mikinn áhuga á því. En ætla líka að reisa olíuhreinsunarstöð. Það tvennt fer ekki saman. Ef við virkjum allar árnar okkar munu hrygningarstöðvar þorsksins raskast, jafnvel hverfa. Við stöndum frammi fyrir vali: þorskinn eða virkjanir?

Og svo eitt, Árni, sem mér hefur alltaf fundist svo barnalegt: að hafa of einsleitan atvinnuveg í svona litlu landi. Hversu oft höfum við brennt okkur á að t.d. allir veiddu síld og þegar hún hvarf þá varð kreppa, manstu þegar allir opnuðu vídeóleigur í einu og svo fór helmingurinn á hausinn (sólbaðsstofupakkinn líka eftirminnilegur) ... Við getum kannski unnið í kringum álverin þrjú sem komin eru, neyðumst til að gera gott úr því, en af hverju ekki fá fjölbreytni í þetta og restin af störfunum sem upp á vantar gæti komið frá svo mörgu öðru. Án þess að selja sál sína fyrirtæki sem er mannréttindabrjótur, hergagnaframleiðandi og á bannlista á mörgum stöðum í heiminum.

Þegar Íslendingar hófu sjálfstæðisbaráttuna var ekki til nein ein galdralausn. Ekki heldur núna. Skemmtileg, frjó samfélög eru ekki búin til úr einni lausn.

Árni, þú hefur kannski rétt á því sem stoltur utanbæjarmaður að taka ekki við ráðleggingum frá listaspíru úr 101 Reykjavík (sem er hvort eð er aldrei á landinu heldur alltaf að drekka kampavín með útlendingum í útlöndum), en af hverju að leggjast á hnéskeljarnar fyrir framan Alcoa fyrst þið eruð svona sjálfstæð og sjáfum ykkur nóg? Annars finnst mér ekki lengur rétt að stilla þessu álver-ekki-álver-rifrildi upp eins og það sé landsbyggðin á móti Reykjavík. Þetta er ekki svona svart og hvítt því síðustu ár hafa verið stofnuð alls konar fyrirtæki á landsbyggðinni. Grasrót sem byrjar smátt, en hver veit hvað verður eftir fimm ár? 10 ár? T.d. Hvalasafnið á Húsavík, tónlistarfólk um allt land, háskólaþorpið á Hólum, Villimey á Vestfjörðum, Geoplank í Grindavík, Vogafjós í Mývatnssveit, fuglasafnið á Mývatni, Hvíldarklettur: sjóstangveiði fyrir vestan, Landnámssetrið í Borgarnesi, Strandagaldur: Galdrasetrið á Ströndum, Háskólinn á Akureyri hefur vaxið heilmikið, Sjóræningjasafnið á Patreksfirði, Aldrei fór ég suður-hátíðin á Ísafirði, Skálanes og Lunga á Seyðisfirði. Mér þætti gott að heyra frá því fólki.

Flestir vísindamenn erlendis eru sammála um að framtíðin sé í sólarorku. Af hverju ekki leggja í rannsóknir þar og verða einir af frumkvöðlunum?

Miklu hefur nú þegar verið áorkað, t.d. Bláa lónið (það tók þá 10 ár að fá leyfi fyrir rekstrinum, þetta þótti svo útópískt), Icelandair, Össur, Marel, Marorka, hvalaskoðunin og safnið á Húsavík og 3X stál á Ísafirði. Það vinna 350 manns í ccp í dag við tölvuleiki upp úr hugmynd sem einn maður fékk fyrir 10 árum. Svo má ekki gleyma koltrefjaverksmiðjunni á Sauðárkróki sem mun útvega 60 störf. Mengar lítið, hugsar fram á við! (Flugvélar framtíðarinnar verða ekki smíðaðar úr áli heldur koltrefjum.) Þetta og fleira er í grasrótinni sem á eftir að vaxa, dafna, gróa í heila öld og lengur og þá er ekki búið að telja upp nærri allt því eins og Jón Sigurðsson vissi, Ólafur Thors vissi og Halldór Laxness vissi og við allir Íslendingar vitum ef við setjum höndina á hjartað, bæði álverssinnar og náttúruverndarsinnar, að fátt er eins göfugt og gott fyrir íslensku þjóðina og hlutir sem við höfum sjálf byggt frá grunni, þótt það hafi verið rosa erfitt og tekið miklu lengri tíma en hefðum við verið í þjónustu útlendinga. Þar uppskerum við.

Björk Guðmundsdóttir
(greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 14. júní 2008 og er birt hér með leyfi höfundar)

Nánari upplýsingar um tónleika Bjarkar og Sigur Rósar er að finna á nattura.info

Mynd: Stelpan Björk.

Birt:
June 14, 2008
Tilvitnun:
Björk Guðmundsdóttir „Fullorðinslegt?“, Náttúran.is: June 14, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/06/16/fulloroinslegt/ [Skoðað:July 26, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 16, 2008

Messages: