Að frumkvæði Samráðsvettvangs skapandi greina ákváðu fimm ráðuneyti og Íslandsstofa að fjármagna kortlagningu á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi.

Allir sem starfa í skapandi greinum á Íslandi eru hvattir til að fjölmenna á stuttan kynningarfund þar sem tölulegar niðurstöður kortlagningarinnar verða opinberaðar. Niðurstaðan leiðir í ljós að skapandi greinar eru ein af megin stoðum íslensks atvinnulífs. Við sem störfum innan þeirra höfum lengi skynjað það afl sem býr með okkur en nú liggja helstu niðurstöður fyrir og verða þær kynntar miðvikudaginn 1. des. kl 11:00 í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

Í kynningunni á niðurstöðum mun meðal annars koma fram að:

  • Skapandi greinar eru einn af burðarásum íslensks atvinnulífs
  • Stærð greinanna, velta og umfang er verulegt
  • Velta skapandi greina hefur haldist stöðugri en annarra atvinnugreina, þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu
  • Framlög úr opinberum sjóðum eru grunnstoð lista á Íslandi
  • Skapandi greinar gefa af sér gríðarlega mikil afleidd verðmæti og leiða af sér fjölda starfa í öðrum atvinnugreinum t.d. verslun og þjónustu

Gestgjafar á fundinum verða ráðuneytin fimm sem standa að fjármögnun verkefnisins ásamt Íslandsstofu. Mennta- og menningarmálaráðherra og iðnaðarráðherra munu ávarpa fundinn. Fundurinn er liður í að vinna að viðurkenningu og skilgreiningu á skapandi greinum sem atvinnuvegi sem kveður að. Það væri gaman að sjá sem flest andlit úr hinum skapandi geira meðal gesta, látið því boðið berast sem víðast.

Nánar um Samráðsvettvanginn:

Samráðsvettvangur skapandi greina SSG var stofnaður árið 2009 en á honum mætast ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar), Kvikmyndamiðstöð Íslands, KIM (kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar), Bókmenntasjóður, Hönnunarmiðstöð Íslands, IGI (Icelandic Gaming Industry), Íslenska tónverkamiðstöðin og Leiklistarsamband Íslands. SSG stóð fyrir stefnumörkun í lok árs 2009 með fulltrúum allra aðila sem að ofan eru nefndir ásamt fulltrúum iðnaðar-, utanríkis- og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sóknaráætlunar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Niðurstaða hennar var sú að brýnt væri að kortleggja hagræn áhrif skapandi greina og liggja fyrstu niðurstöður nú fyrir. SSG stefnir að því að verða formlegum Samtökum skapandi greina á næstu misserum.

Kortlagningu á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi hafa unnið: Colin Mercer, breskur sérfræðingur, Tómas Young, rannsakandi og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina við HÍ.

Birt:
Nov. 27, 2010
Höfundur:
Hönnunarmiðstöð
Tilvitnun:
Hönnunarmiðstöð „Samráðsvettvangur skapandi greina í Bíó Paradís“, Náttúran.is: Nov. 27, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/11/27/samradsvettvangur-skapandi-greina-i-bio-paradis/ [Skoðað:Aug. 12, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: