Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra flutti í dag ræðu á 14. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Poznan í Póllandi. Á þinginu var fram haldið samningaviðræðum um hertar aðgerðir í loftslagsmálum, sem hófust fyrir rúmum tveimur árum og á að ljúka með samkomulagi á 15. aðildarríkjaþinginu í Kaupmannahöfn í lok árs 2009.

Umhverfisráðherra sagði að Ísland vildi reyna að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C frá því fyrir iðnbyltingu. Slíkt þþddi að öll ríki sem losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda þyrftu að taka virkan þátt, en þróuð ríki yrðu að leiða baráttuna. Nauðsynlegt væri að gera alla helstu efnahagsgeira loftslagsvæna og þróa og dreifa hreinni tækni, ekki síst á sviði orkumála. Ísland vildi miðla tækni á sviði jarðvarma til þróunarríkja.

Umhverfisráðherra vakti athygli á tillögu Íslands um að endurheimt votlendis verði viðurkennd sem leið til að binda kolefni úr andrúmslofti. Framræst og skemmt votlendi væri í dag uppspretta koltvísýrings (CO2), en hægt væri að minnka losunina og jafnvel snúa henni við og binda kolefni úr lofthjúpnum með aðgerðum til að endurheimta votlendi.

  • Öll ríki verða að taka virkan þátt
  • Þróun og miðlun hreinnar tækni lykilatriði
  • Tillaga Íslands: Endurheimt votlendis verði viðurkennd bindingarleið
Birt:
Dec. 11, 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ávarp umhverfisráðherra á loftslagsráðstefnunni í Poznan“, Náttúran.is: Dec. 11, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/12/11/avarp-umhverfisraoherra-loftslagsraostefnunni-i-po/ [Skoðað:Sept. 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: