Álit Skipulagsstofnunnar á sameiginlegu umhverfismati vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda á Bakka og orkuvinnslu á jarðhitasvæðum á norðurlandi, sem birt var í síðustu viku, staðfestir þá gagnrýni sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland hefur haldið uppi.

Í álitinu segir meðal annars að:

  • Umhverfisáhrif verkefnisins verði veruleg og verði ekki fyllilega mætt með mótvægisaðgerðum.
  • 17 þúsund hektarar óspilltra víðerna verði fyrir áhrifum.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda vegna verkefnisins muni nema 14% heildarlosunar Íslands.
  • Mikill óvissa ríkir um áhrif virkjunar jarðhitasvæðanna, þá sérstaklega á orkuauðlindina sjálfa.
  • Orkuvinnslan á jarðhitasvæðunum sé af þeirri stærðargráðu að ólíklega verði unnt að halda henni innan marka sjálfbærni
  • Áætlaðar orkuframkvæmdir komi ekki til með að framleiða nægja næga orku fyrir álverið, 140 MW vanti upp á.

„Skýrslan staðfestir þrjá lykilþætti þeirrar gagnrýni sem Saving Iceland hefur haldið uppi síðustu árin,“ segir Jaap Krater, talsmaður Saving Iceland.

„Í fyrsta lagi að umhverfisáhrif jarðborananna á norðurlandi verði mun meiri en Alcoa hefur haldið fram. Í öðru lagi, þegar  tilkynnt var um gerð sameiginlega umhverfismatsins kröfðumst við þess að umhverfisáhrif mögulegra stífla í Skjálfandafljóti, Jökulsá austari og Jökulsá á fjöllum yrðu metin. Útreikningar okkar um að jarðvarmavirkjanirnar á norðurlandi muni ekki framleiða næga orku fyrir álverið, hafa nú verið staðfestir. Í þriðja lagi sögðum við að kolefnislosun verkefnisins yrði gífurlega mikil og gera Íslandi erfitt fyrir við að standa við alþjóðlegar samþykktir. Þetta er nú einnig staðfest,“ segir Krater.

„Ef Ísland stefnir að inngöngu í Evrópusambandið er ljóst að þetta umhverfismat er merki um endalok hugmyndanna um álversframkvæmdir Alcoa á Bakka.“

Útreikningar Saving Iceland á orkuframleiðslu voru birtir í Morgunblaðinu í ágúst 2008 (1) og upplýsingarnar um losun gróðurhúsalofttegunda voru birtar í bók sem gefin var út á alþjóðavísu fyrr í ár (2).

Heimildir:

(1) „Umhverfismat fyrir Bakka ætti að innihalda vatnsaflsvirkjanir“, eftir
Jaap Krater, Morgunblaðið, 22. ágúst 2008:
http://www.savingiceland.org/is/2008/08/umhverfismat-fyrir-bakka-%C3%A6tti-a%C3%B0-innihalda-vatnsaflsvirkjanir/

(2) „Development of Iceland’s geothermal energy potential for aluminium production – a critical analysis“, eftir Jaap Krater og Miriam Rose. Úr: Abrahamsky, K. (ritstj.) (2010) Sparking a World-wide Energy Revolution: Social Struggles in the Transition to a Post-Petrol World. AK Press, Edinburgh. p. 319-333:
http://www.savingiceland.org/2009/11/development-of-iceland%E2%80%99s-geothermal-energy-potential-for-aluminium-production-%E2%80%93-a-critical-analysis/

Ljósmynd: Þeystareikir, Sigmundur Einarsson.

Birt:
Dec. 1, 2010
Höfundur:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Umhverfismat fyrir Bakka staðfestir gagnrýni Saving Iceland“, Náttúran.is: Dec. 1, 2010 URL: http://www.natturan.is/d/2010/12/01/umhverfismat-fyrir-bakka-stadfestir-gagnryni-savin/ [Skoðað:April 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Dec. 2, 2010

Messages: