Á íbúafundi sem bæjarstjórn Hveragerðis efndi til í Grunnskóla Hveragerðis í gærkvöldi til kynningar og umræðu um áformaðar virkjanir Orkuveitu Reykjavíkurvið í Hverahlíð og við Bitruháls. Ingólfur Hrólfsson sviðsstjóri hjá Orkuveitunni kynnti áformaðar virkjanir, Eyþór H. Ólafasson formaður skipulags og byggingarnefndar kynnti sjónarmið Hveragerðisbæjar og Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar lýsti sjónarmiðum náttúruverndarsinna.

Fundurinn stóð í heilar fjórar klukkustundir enda var fundarmönum heitt í hamsi og kröfðu fulltrúa Orkuveitunnar svara við ýmsum vafaatriðum eins og lofthreinsun, aðgerðum gegn hávaðamengun, áhrif á vatnsból og áhrif á allt útivistarsvæðið sem að þrengt yði að með fyrirhuguðum framkvæmdum.

Eyþór lýsti furðu sinni á því að Orkuveita Reykjavíkur hafi ekki kynnt Hvergerðingum áform sín á frumstigi og lagði áherslu á alvarleika þess að gengið væri of nærri náttúruverðmætum þeim sem íbúar Hveragerðis byggi framtíð sína á.

Bergur ítrekaði þá skoðun Landverndar að farið sé á hála braut hvað varðar sjálfbæra nýtingu en með sjálfbærni er átt við að ekki sé gengið það mikið á landið og orkubrunnana að gengið sé á rétt komandi kynslóða. Frá Reykjanestá, allt norður fyrir Þingvallavatn er náttúruperla á heimsmælikvarða og okkur ber að standa vörð um að ekki sé gengið of á óspillta náttúru þessa lands. Orkunýting þurfi alltaf að stunda af hógværð og í sátt við umhverfið.

Ásta Þorleifsdóttir, einn atorkumesti umhvefisverndarsinni landsins til fjölda ára en nú varaformaður Orkuveitunnar olli bæjarstjóra Hveragerðis miklum vonbrigðum (sjá) en Ásta gætir betur að orðalagi sínu nú en þegar hún var óbreyttur náttúruverndarsinni og fræðimaður. Miklar vonir eru bundnar við Ástu og hennar störf fyrir Orkuveituna en Ásta lýsti því yfir að hún vilji bíða eftir umsögn Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu áður en að hún kemur með yfirlýsingar um Bitru- og Hverahliðarvirkjun. Von er á umsögn Skipulagsstofnunar þ. 19. maí nk.

Mynd af Hengill.nu en þar er hægt að fræðast um svæðið. Þaðan er hægt að senda bréf með athugasemdum vegna auglýstra skipulagsbreytinga Sveitarfélagsins Ölfuss.
Birt:
April 22, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvergerðingar uggandi um áhrif virkjana á Hellisheiði“, Náttúran.is: April 22, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/04/22/hvergeroingar-uggandi-um-ahrif-virkjana-hellisheio/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: