Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið við sex nýjum metanbílum í flota fyrirtækisins. Fimm eru fólksbílar af gerðinni Ford Focus og einn Ford Transit, sendibíll. Verð á metani svarar nú til þess að bensínlítrinn kostaði 85 krónur. Metanbílar Orkuveitunnar eru nú 14 talsins, vetnisbílar fimm og rafmagnsbílarnir tveir. Pantaðir hafa verið níu metanfordar til viðbótar og að þeim fengnum verður um fimmtungur bílaflota Orkuveitunnar knúinn umhverfisvænum orkugjöfum.

Orkuveitan metanvæðist
Innflutningurinn á metanbílunum eru liður í stefnu OR um að auka hlutfall visthæfra ökutækja sinna upp í 55% fram til loka árs 2013. Sem stendur eru um 166 bílar í fastri notkun hjá fyrirtækinu og með kaupum þess nú, eykst hlutfall visthæfra bifreiða úr 10% í tæp 20%. Metan er ekki aðeins endurnýjanlegur orkugjafi, heldur einnig hagkvæmari kostur en hefðbundið bensín og dísilolía. Sem eldsneyti á bíla, samsvarar það í verði, að greiddar væru tæpar 85 kr/ltr. fyrir 95 okt. bensín.

Ford hentar vel til gasbreytinga
Bílarnir 15 eru fluttir inn af Orkuveitunni í samstarfi við Brimborg og koma frá GNG Techik GmbH í Þýskalandi. Þar hefur þeim verið breytt úr hefðbundnum bensínbílum í metangasbíla en umræddir Ford bílar þykja henta vel til slíkra breytinga. Ford Focus C-Max kemur með breyttri 2.0 ltr. og 145 hö bensínvél. Ford Transit sendibílarnir eru af gerðinni 330M gerð, með breytta 2.3 ltr., 145 hö bensínvél.

Brimborg sér um viðhaldið
Gastankurinn í breyttu bílunum tekur alls 6 kg af metani, sem dugar til 300 km aksturs. Ef gasleysi skyldi gera vart við sig og langt er í næstu gasáfyllingarstöð, er þó engin hætta á ferðum, því þeir hafa allir bensíntank til vara. Brimborg mun annast viðhald, viðgerðir og eftirlit með bílunum, auk þess að standsetja þá, en hjá fyrirtækinu starfa tveir vottaðir tæknimenn fyrir gasbíla. OR menn ættu því að geta komist áhyggjulausir ferða sinna á vel búnum og visthæfum bílum.

Ljósmyndin er frá því er Hjörleifur B. Kvaran forstjóri Orkuveitunnar tók við metanbílunum af Agli Jóhannssyni forstjóra Brimborgar.

Birt:
July 14, 2008
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Orkuveitan metanvæðist - 85 krónur lítrinn af eldsneyti“, Náttúran.is: July 14, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/07/14/orkuveitan-metanvaeoist-85-kronur-litrinn-af-eldsn/ [Skoðað:Dec. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: