Prinsessukjólar, hreindýrshausasulta, lífrænt góðgæti, handsmíðaðir hnífar og ný bakaðar vöfflur – þetta er bara brot af öllu því sem boðið verður uppá á útimarkaði Varmársamtakanna í Álafosskvosinni, laugardaginn 30. ágúst nk.
Nú gefst öllum tækifæri til að njóta ávaxtanna af gjöfulu sumri í sveitinni okkar, jafnt afraksturs iðinna handa sem jarðargróðursins. Markaðurinn opnar kl. 12:00 og lýkur kl. 16:00.

Matarmarkaður við Varmá:

 • Lífrænt ræktaðar kryddjurtir frá Engi
 • Heimalagaðar sultur og mauk
 • Varmárbrauð frá Grímsbæ
 • Rósir í öllum regnbogans litum frá Laugabóli
 • Birki- og taðreykur silungur frá Útey
 • Steinbítur frá harðfiskverkun Finnboga á ísafirði
 • Lífrænt ræktað grænmeti frá garðyrkjustöðinni Akri
 • Garðyrkjustöðinni Sunnu Sólheimum
 • Garðyrkjustöðinni Hæðargarði
 • Glænýjar Þykkvabæjarkartöflur
 • Söl frá Hrauni í Ölfusi
 • Heimabakaðar berjabökur og kleinur
 • Grænmeti frá gróðrastöðinni Reykjum
Sjá meira hér að neðan:

Markaður með notað og nýtt:

 • Kompudót
 • Fatnaður
 • Prinsessukjólar í miklu úrvali

Markaður með handverk:

 • Sýning á trémunum í Ásgarði
 • Allt milli himins og jarðar í álafossbúðinni
 • Handunnir hnífar hjá palla hnífasmið
 • Skartgripir

Kaffiveitingar í kaffi kvos opið kl. 12.00 - 16.00. Lifandi tónlist – ungir tónlistarmenn
Uppboð á prinsessukjólum kl. 13.15. Leiksýning Ásgarðsmanna kl. 14.00 „Ísland ögrum skorið“á sviðinu í Álafosskvos

Þar sem Varmársvæðið geymir fjöldan allan af listrænu og duglegu fólki bjóðum við upp á alls kyns handverk, skartgripi, heimagerðar sultur og kryddmauk, grænmeti frá Reykjum og eitt og annað ágæti úr görðunum okkar. Þá verður lögð áhersla á lífrænar vörur úr nærsveitum, auk þess sem silungur og sjávarfang að austan og vestan verður á boðstólunum.

Sveitungar okkar falbjóða á flóamarkaði ýmsan varning úr kompum sínum og kirnum og ekki má gleyma listilegu handverki snillinganna í Ásgarði. Þeir munu jafnframt bjóða upp á leiksýningu kl. 14.00, þar sem flutt verður tímamótaverkið "Ísland ögrum skorið."

Kaffiveitingar fara fram í Kaffi Kvos, þar sem boðið verður upp á heitar vöfflur og lífrænar kökur, kaffi og te og safa, kleinur og fleira ljúfmeti.

Palli hnífasmiður býður alla velkomna á vinnustofu sína, en hann er ekki bara dverghagur hnífasmiður heldur meistarakokkur að auki og á heiðurinn af hreindýrshausasultunni, sælkerafæðu sem fáir þekkja en geta kynnt sér í Kvosinni á laugardaginn.

Álafossbúðin, vinsælasti viðkomustaður erlendra sem innlendra gesta Mosfellsbæjar, verður opin, og ef einhvern langar í rósir þá er bara að snúa sér til Jóns Baldvins Hannibalssonar, yfir-rósameistara Varmársamtakanna.

Hápunktur dagsins er þó án efa prinsessukjólauppboðið mikla.
Þar verða boðnir upp prinsessukjólar heimasæta á Varmársvæðinu, miklar gersemar og fágætar, og ekki vafi að slegist verður um fínustu kjólana.

Uppboðið hefst á slaginu 13:15 og fer fram undir röggsamri stjórn ofurkonunnar Elísabetar Brekkan, helsta sérfæðings Íslendinga um ævi og örlög heimsins kóngaslektis fyrr og nú.

Allur ágóði af uppboðinu rennur til Varmársamtakanna. Varmáin liðast um Reykjadalinn, vöggu ylræktar á Íslandi og uppsprettu heita vatnsins sem yljar stórum hluta Reykvíkinga. Meðfram bökkum árinnar, frá upptökum til ósa, má finna fjölbreytta flóru, ræktarlega skógarlundi, gróðurhús, akra og engi, ýmsan iðnað, gisna íbúabyggð, handverkstæði og vinnustofur listamanna svo fátt eitt sé nefnt.

Helsta hugðarefni Varmársamtakanna er að standa vörð um þessar fjölmörgu perlur svæðisins, stuðla að náttúruvernd í þéttbýli, hvetja til umræðu um umhverfis- og skipulagsmál og hlúa að blómlegri menningu.

Botninn verður sleginn í góðan markaðsdag með popptónleikum vel valinna bílskúrsbanda af svæðinu, og hefjast þeir kl. 16.30

Varmársamtökin - íbúa- og umhverfissamtök í mosfellsbæ
sími 699 6684 ∙ varmarsamtokin@gmail.com, www.varmarsamtokin.blog.is

Myndir af vef Varmársamtakanna.

Birt:
Aug. 27, 2008
Höfundur:
Varmársamtökin
Uppruni:
Varmársamtökin
Tilvitnun:
Varmársamtökin „Útimarkaður í Álafosskvos “, Náttúran.is: Aug. 27, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/08/27/utimarkaour-i-alafosskvos/ [Skoðað:Dec. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 18, 2011

Messages: