Við stöndum á tímamótum.

Við stöndum sem ferðahópur á krossgötum til framtíðar hvað varðar náttúruvernd og umhverfisvitund – hvað varðar framtíð og velferð manns og náttúru. Og eitt það versta sem maður lendir í, í hópferð um krossgötur, er þegar hópurinn er ekki samstilltur, hefur ekki komið sér saman um ferðaáætlun og allt endar í þjarki og pexi um framhaldið. Menn komast hvorki lönd né strönd eða tvístrast í allar áttir. Verst af öllu er þó þegar leiðangursstjórar hlusta ekki á sjónarmið ferðafélaganna, taka öll völd og æða áfram í blindri trú á eigið ágæti, eins og dæmi náinnar fortíðar sanna.

En það er mál að stilla áttavita og halda samstillt í þetta ferðalag til verndar íslenskri náttúru og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni gróðurs og dýralífs. Nú þegar ágangur verður æ meiri og nýjustu fregnir úr svokölluðu athafnalífi hérlendis gefa til kynna að tækifæri athafnafólksins felist í vatnsréttindum, orkulindum og sívaxandi möguleikum á að nýta náttúruauðlindir með jarðþtum og dýnamíti.Þá er rétt eins gott að menn hafi unnið heimavinnuna sína, hafi kortlagt íslenska náttúru - fánu hennar, flóru og fyrirbærin öll – viti hvers virði landið er og standi klárir með öfluga náttúruverndaráætlun að vopni svo forða megi stórslysum og standa reikningsskil gagnvart komandi kynslóðum.

Íslensk stjórnvöld hafa skrifað upp á samkomulag um sjálfbæra þróun í okkar samfélagi. Þróunin fram á okkar daga hefur ekki haft sjálfbærni að leiðarljósi. Rányrkju auðlinda, hvort heldur þær eru flokkaðar sem endanlegar eða endurnýjanlegar, verður að stöðva.
En á krossgötum er lítið gagn að því að velta sér upp úr orðnum hlut, víla og vola yfir lélegu nesti og slæmum skjólfötum. Þá ríður á að nesta sig upp að nýju og læra á mistökunum.
Okkar skjöldur í þeirri för sem nú er lagt í hefur marga fleti. Þar ber fyrsta að telja öfluga náttúruverndarlöggjöf sem verður að halda vatni og vindum og gegna því verndarhlutverki sem henni er ætlað. En ekki gatasigti svokallaðrar náttúruminjaskrár sem hefur á tíðum virst svipa til símaskrárinnar þar sem nöfn detta inn og út.
Til skamms tíma hefur almenningur, sem tekur þátt í náttúruverndarstarfi, aðallega verið að forða stórslysum á vegum hins opinbera, og lítt getað komið að eiginlegum náttúruverndarstörfum sem felast í undirbúningsvinnu og samstarfi við verndun og aðstöðubætur. Með breyttum áherslum og metnaðarfyllri sýn í stjórnarráðinu gæti þó verið bjartara fram undan og náttúruverndarfólk væntir mikils af samstarfi við nýjan umhverfisráðherra og stjórnvöld á komandi árum. Einörð og skýr stefna er mikilvæg og sjaldan hefur krafan á stjórnmálamenn um umbúðaleysi og stefnufestu í lagasetningu verið meiri. Nú er lag að gera hlé á stóriðjuframkvæmdum um langa hríð - þó ekki væri nema til að fá yfirsýnina alla.
Varúðarreglan er ein af grundvallarreglum sjálfbærrar þróunar. Sé sú regla ekki í heiðri höfð er kortið ónýtt og áttavitinn gagnslaus.

Með hverjum deginum vaxa væntingar varðandi álversuppbyggingu hér á landi. Á sama tíma lýsa ráðherrar Samfylkingar því yfir að þeir hafi engin stjórntæki til að stöðva skriðuna, nema ef vera skyldi veik lög um losun gróðurhúsalofttegunda. Greiningardeild Landsbankans talar um að nú fari í hönd tíu ára álversþensluskeið. Flestir stjórnmálamenn þegja þunnu hljóði.

Gildismat samfélagsins er hornsteinn náttúruverndar. Þessi þjóð þtir á undan sér snjóbolta sem er að verða æði stór. Við getum misst boltann frá okkur, hann oltið á undan okkur niður hlíðina, orðið risavaxinn og við náum honum aldrei uns hann ryður öllu á undan sér, hafnar á byggðinni, leggur hana í rúst – bráðnar svo ofan í jarðveginn og verður að engu. Sumir segja að sá bolti sé þegar farinn stjórnlaus af stað.

Með lögum um mat á umhverfisáhrifum var markmiðið að koma í veg fyrir framkvæmdir sem valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þeim lögum var snarlega breytt þegar Kárahnjúkavirkjun komst ekki í gegnum nálarauga umhverfismats. Nú fellir Skipulagsstofnun ekki lengur úrskurð um áhrif framkvæmda á umhverfið heldur er eins konar álitsgjafi sem leyfisveitendur í hrepps- eða bæjarstjórn geta tekið tillit til - kjósi þeir svo.

En við lærum á mistökunum því á þessu ferðalagi okkar verða leiðangursstjórar að setja skýrar línur og leggja til haldbær og nákvæm kort. Því er það að hin frjálsu félagasamtök, áhugamannafélög almennings í þessu landi, lýsa eftir efndum leiðangursstjóranna sem seldu okkur jafnvel áhugaverða ferð í upphafi.
Í stefnuskrám flokkanna má til dæmis sjá að mikill vilji er fyrir því að herða viðurlög við hvers konar umhverfisspjöllum og lögð er áhersla á nauðsyn skýrra viðurlagaákvæða í lögum. Þetta er mjög ánægjulegt og enn skemmtilegra ef það verður fljótlega að veruleika.
Merkir áfangar hafa náðst í náttúruvernd, þar sem hæst ber stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs, og sterkur vilji er fyrir því að halda áfram á sömu braut- og því ber að fagna.

Einnig má lesa í stefnuskrá að vernda beri níu fágæt svæði STRAX – Að níu háhitasvæði, vötn og vatnsföll sem nú er sótt í til virkjanarannsókna og framkvæmda verði vernduð nú þegar. Og tiltekin eru: Langisjór, allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum -sem reyndar var búið að lofa með lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjórsárver öll, Torfajökulssvæðið, Kerlingafjöll, Brennisteinsfjöll, Grændalur, jökulárnar í Skagafiðir og Skjálfandafljót. Við, leiðangursmenn, fögnum þessum markmiðum og því raunsæi sem felst í orðinu STRAX.

En áfram rúlla vinnuvélarnar og orkufyrirtækin leita virkjanatækifæra þótt raforkan sé ekki endilega seld. Kaupendur má alltaf finna eftir á. Það er eðli ríkisbáknsins að þenjast út. Risinn stikar um sveitirnar og leitar tækifæranna og nú er svo komið að dreifðir sveitamenn reyna hér og hvar að standa í lappir gagnvart ríkisbákninu sem notið hefur fulltingis stjórnvalda. Sveitarstjórnum er snúið, sendinefndir eru reknar af stað til að tala fólk til og fá það á sitt band með loforðum um betra símasamband eða skárri vegi. Skemmst er að minnast baráttunnar um neðri hluta Þjórsár þar sem stór orð eins og valdníðsla leita á hugann.

Það er lítið réttlæti í því að risavaxin áróðursmaskína á vegum ríkisins hjóli í dreifða heimamenn og náttúruverndarfólk af fullum krafti og hafi betur um allt land. Þarna þarf að leita jafnvægis og lýðræðis. Það er eðlileg krafa almennings að Alþingi lögfesti Árósasamninginn. Náttúruverndarbarátta er öðrum þræði útvíkkun á lýðræðinu og það er nöturlegt að Ísland sé eina landið á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki hefur fullgilt Árósasamninginn.

Allt er þetta spurning um lífssýn og framtíðarsýn, veröld sem við viljum sjá til framtíðar fyrir afkomendur, nýja hugsun og breytta stefnu. Þar greinir menn á og því þrefum við á krossgötum og þráttum.

Og þegar litið er á náttúru þessa lands, þessi óbyggðu ævintþralegu svæði sem við fengum í fóstur frá forfeðrum okkar og mæðrum, fyllast sumir framtaksgleði og hamingju yfir því að virkja tækifærin, stífla, bylta og byggja upp, malbika, hækka og breikka vegi svo flytja megi vörur á milli landshluta með enn meiri hraða. Gott og vel og þetta hefur hlotið nafnið uppbygging. Orðið eitt og sér - uppbygging- felur í sér bjartsýni, dugnað, þekkingu og hugvit. En kannski höfum við misnotað þetta hugtak örlítið og notað það jafnvel yfir hroka, yfirgang og mikilmennskuæði. Oft er uppbygging annað hugtak yfir þróun sem ekki er sjálfbær, þróun sem ekki stenst þann ramma sem náttúran setur okkur.

Við gleymum alltof oft í hita leiksins að óbyggð svæði eru ekki endilega óunnin svæði.
Og þá verðum við líka að vakna til vitundar um nauðsyn þess að auka rannsóknir á lífríki landsins. Þekking er af skornum skammti á mörgum sviðum. Á dögunum mátti til dæmis lesa í blöðum fregnir af því að mikið skorti á þekkingu á lífríki Breiðafjarðar, sem við viljum þó koma inn á heimsminjaskrá UNESCO. Aukið fjármagn og viðhorfsbreytingu þarf til að bæta rannsóknir á lífríki landsins. Efla má til muna náttúru- og umhverfismenntun á öllum skólastigum og það er sorgleg staðreynd að enn státar þessi þjóð - sem þó býr yfir svo stórbrotinni náttúru á heimsmælikvarða – enn státar hún ekki af frambærilegu þjóðarnáttúrugripasafni.

Og svo er það mál málanna. Loftslagsbreytingarnar eru spurning um líf og dauða. Móðuharðindi heimsins. Munu tugmilljónir manna í Afríku lenda á vergangi eða tekst okkur að koma í veg fyrir það? Um það erum við ekki einráð, heldur verða Íslendingar að taka á með þeim þjóðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem lengst vilja ganga til að koma í veg fyrir helför fórnarlamba hlýnunar jarðar.

Þannig var ánægjulegt að heyra forsætisráðherra gera í stefnuræðu sinni á dögunum loftslagsbreytingar að umræðuefni. Skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá því í vor hefur tekið af öll tvímæli um að áhrifa loftslagsbreytinga gæti nú þegar. Því er áríðandi að sameinuðum þjóðum mannkyns takist að halda meðalhlýnun andrúmsloftsins eins langt innan við 2 gráður á Celcíus og unnt er. Til að það megi takast er algerlega nauðsynlegt,

 Að aukning gróðurhúsalofttegnda á heimsvísu verði stöðvuð í síðasta lagi 2015.
 Að iðnríkin sýni fordæmi og dragi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 30% fyrir 2020.
 Að lagt verði fram fjármagn til þess að stöðva skógareyðingu víða um heim á næstu 15 árum. Slíkar aðgerðir komi til viðbótar samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í iðnríkjum.
 Að samkomulag um ofangreind atriði liggi fyrir á fundi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 2009.

Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íslending er nú tólf tonn á ári og verða sautján tonn þegar álverið á Reyðarfirði hefur náð fullum afköstum. Það er langt yfir meðaltali Evrópulandanna. Hér er því ekki verið að tala um hugarfarsbreytingu heldur hugarfarsbyltingu.

Við þurfum að ganga fremst í flokki þjóða um arftaka Kyoto-bókunarinnar. Krafa okkar er að umhverfisráðherra fái fullt umboð ríkisstjórnarinnar til góðra verka - að í þetta sinn verði markmið stjórnvalda að styðja öflugar aðgerðir til varnar Jörðinni, en ekki betla undaný águr.

Í því ferli rekast oftar en ekki á hagsmunir stórfyrirtækja og almennings og eru víða flöskuhálsar skammtímasjónarmiða og fjárhagslegra hagsmuna að tjaldabaki.
Við þurfum að leggjast á eitt um að snúa þessu stóra olíuskipi. Þar eru margar leiðir færar til að hvetja, sýna fordæmi og vekja til umhugsunar. Af nægu er að taka í íslensku neyslusamfélagi og tíminn er naumur. Þar gegna ráðamenn lykilhlutverki.
Hin frjálsu félagasamtök þakka gott boð hingað í dag og hlakka til samstarfs við nýjan umhverfisráðherra.
Við eigum okkur þann draum að í framtíðinni setjumst við öll saman og jöfn að borðum og höldum náttúruverndarþing á jafnræðisgrunni – á þingi sem verði ályktunarhæft og geti þannig beitt stjórnvöld jákvæðum þrýstingi og veitt stuðning og aðhald.

Höfudur er stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands og rithöfundur.

Myndin er af Kristínu Helgu á Umhverfsiþinginu. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 12, 2007
Tilvitnun:
Kristín Helga Gunnarsdóttir „Erindi frjálsra félagasamtaka á Umhverfisþingi“, Náttúran.is: Oct. 12, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/10/12/erindi-frjlsra-flagasamtaka-umhverfiingi/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 15, 2007

Messages: