Um leið og Toyota fagnar sölunni á milljónasta Prius-bílnum verða þeir að horfast í augu við að samkeppnin mun harðna verulega á næstu misserum. Japanskir keppinautar þeirra ætla ekki að láta Toyota sitja eitt að stækkandi tvinnbílamarkaði.

Fyrir skömmu greindi Takeo Fukui, forseti Honda, næststærsta bílaframleiðanda Japans, frá því að félagið hygðist leggja allan kraft í að þróa nýjan tvinnbíl sem kynntur yrði á næsta ári. Aðrir framleiðendur eins og Nissan, sem er í nánu samstarfi við Renault, hafa gefið fyrirheit um að koma með hreinræktaðan og nothæfan rafmagnsbíl á markaðinn í Bandaríkjunum og Japan árið 2010 og á heimsvísu árið 2012. Smærri framleiðendur eins og Mitsubishi Motors hafa einnig upplýst að þeir ætli að tefla fram rafmagnsbíl innan ekki langs tíma.

Á sama tíma hafa japönsk rafeindafyrirtæki greint frá samstarfssamningum við erlenda samkeppnisaðila Toyota. Þannig hefur Sanyo upplýst að félagið ætli að taka þátt í þróun sérstakra rafhlaðna með Volkswagen. Þessar rafhlöður hyggst VW nota í næstu kynslóð rafmagnsbíla hjá sér.

Á næstu árum mun baráttan við að kynna nýja orkuminni bíla harðna enn frekar en Japan verður án efa einn þeirra staða sem hvað best eiga með að kynna nýjungar. Bæði Honda og Nissan eru undir miklum þrýstingi um að komast undan yfirburðastöðu Toyota. Það setur enn meiri þrýsting á stjórnendur þessara félaga.

Tíundi hver bíll verði tvinnbíll
Honda ætlar að endurnýja tvinnbílsútgáfu (hybrid version) af Civic-bílnum en sem stendur er það eina tvinnbílsútgáfa þeirra. Það er ætlun Honda að koma með fleiri gerðir með tvinnvélum. Þar á meðal má nefna útgáfu af Jazzbílnum sem talsvert hefur selst af hér á landi og einnig útgáfu af CR-Z sem til þessa hefur eingöngu verið kynntur sem hugmyndabíll.

Með þessum aðgerðum vonast forráðamenn Honda til að selja um það bil 500.000 tvinnbíla á ári snemma á næsta áratug, sem væri um það bil 10% af heildarsölu Honda. Það er nálægt þeim viðmiðum sem Toyota stefnir á. Á síðasta ári seldi Honda um það bil 52.000 tvinnbíla af Civic- gerðinni.

„Stefna Honda hefur einkennst af of mikilli varfæni til þessa,“ hefur CNN eftir Koji Endo, greinanda hjá Credit Suisse. Honda hefur að mestu leyti lagt áherslu á að þróa tvinntæknina innanhúss á meðan Toyota hefur fengið aðila eins og Panasonic til liðs við sig. Augljóst er að Toyota hefur verið með frumkvæðið til þessa en félagið hefur heitið því að það verði til tvinnútgáfur af öllum bílum Toyota árið 2020.

Myndin er af Toyota Prius, umbreyttum sem tengiltvinn. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
June 14, 2008
Tilvitnun:
Sigurður Már Jónsson „Japanar herða samkeppni við Prius“, Náttúran.is: June 14, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/06/14/japanar-heroa-samkeppni-vio-prius/ [Skoðað:Sept. 29, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: