Til sveitastjórnar Flóahrepps.

Varðandi aðalskipulag Villingaholtshrepps hins forna.

Á fundi í Þjórsárveri 25. júní sl. voru kynntar fyrir íbúum Flóahrepps tvær tillögur að aðalskipulagi sem sveitarstjórn hefur látið gera. Önnur þeirra gerir ráð fyrir uppistöðulóni ofan við Urriðafoss.
Við teljum þá tillögu kalla hættu yfir nokkurn hluta íbúa, skerta möguleika á atvinnustarfsemi, svæði neðan stíflu munu verða óbyggileg og verðlítil, mengun og náttúruspjöll.

Viljum við vekja athygli á nokkrum staðreyndum og niðurstöðu Umhverfisráðuneytis um þær í úrskurði dags. 27. apríl, 2004 um framkvæmdina ásamt skoðunum okkar og spurningum:

Flóðahætta.

Sveitarstjórn hefur komið fram með tillögu að aðalskipulagi sem sýnir stíflu og uppistöðulón efst í byggðarlaginu. Á stíflan að standa á einu mesta jarðskjálfta og misgengissvæði landsins og mun lónið hvíla á sprungnu Þjórsárhrauninu. Ofan við stífluna verða 27.000.000 tonn af vatni.

Íbúar neðan við sífluna munu væntanlega búa við sömu hættu og fólk gerir á snjóflóðasvæðum en ekki bara í snjóbyljum heldur 365 daga á ári, allan sólarhringinn. Fólk mun þurfa að vera í viðbragðsstöðu, hlusta eftir sírenuhljóðum, bakka ávalt heimilisbílnum heim að bæ svo sem skemmstan tíma taki að flþja undan vatnsflóði.

Sú staðreynd er óumdeild að reglulega ríða yfir Suðurland mjög öflugir jarðskjálftar og er aðeins spurning hvenær sá næsti kemur. Síðasti skjálfti var árið 2000 og eftir hann má sjá gríðalegar sprungur þar sem jörðin hefur rifnað við virkjunarsvæðið. Þessi staðreynd kallar á að fyrir liggi að stíflumannvirkið þoli slíkar hamfarir og allur vafi um það hljóti að leiða til þess að ekki sé ráðist í framkvæmdina. Byggir það fyrst og fremst á því að ef talin yrði einhver hætta á að mannslíf yrðu í hættu við stíflurof þá er ekki hægt að réttlæta gerð hennar með því að benda á fjárhagsleg atriði eða hagkvæmni hennar; lífshætta = engin virkjun.

Hvaða vísindalegu gögn liggja fyrir um hvort stíflan þoli jarðskjálfta af þessu tagi og eru þau samhljóða um að hún geri það? Eru einhver gögn sem draga það í efa að stíflan þoli jarðskjálfta og ef svo er hvenær skal mannslífið fá að njóta vafans ef gögn og rök eru í andstæðar áttir?

Hvaða mælikvarði er notaður við hættumatið og hvernig hefur honum verið beitt? A.m.k. geta ekki verið forsendur til að setja virkjunina inn á skipulag nema að slíkt mat liggi fyrir sveitarstjórn. Í neðangreindum úrskurði er vísað til ofanflóðahættu - hver er í raun sá mælikvarði, hvar og hvernig hefur honum verið beitt í málinu – er sveitarstjórn upplýst um það og hver er niðurstaðan? Ef ofanflóðamælikvarðinn er notaður ber þá sveitarstjórn þegar að fara að undirbúa að rýma blómlegar sveitir við neðanverða Þjórsá? Er ekki augljóst að það þarf að vera hafið yfir allan vafa að mannvirkið sjálft þoli reglulegar náttúruhamfarir Suðurlandsjarðskjálfta þar sem jörðin rís upp og rifnar sundur á virkjunarsvæðinu?

Hvað gerist ef stíflan brestur? Flóðbylgja mun stefna mönnum og dýrum í augljósa hættu enda lítill viðbragðstími fyrir íbúa við Þjórsá. Miklar líkur eru á að fólk muni farast ef stíflan brestur og þar af leiðandi verður það að vera hafið yfir allan vafa að stíflan þoli meiriháttar náttúruhamfarir sem Suðurlandsjarðskjálftarnir eru. Er öruggt að hún geri það að mati sveitarstjórnar miðað við gögn málsins eða er þörf frekari rannsókna og skýringa eða liggur kannski þegar fyrir að ekki sé hægt með neinni vissu að segja fyrir um hvað muni gerast? Ætlar sveitastjórnin að leika sér með mannslíf?

Viljum við benda á úrskurð umhverfisráðuneytis frá 27. apríl, 2004, en þar segir :

Skipulagsstofnun telur að mönnum og skepnum í næsta nágrenni stíflu og lóns þar sem land er flatt sé töluverð hætta búin við stíflubrot af völdum jarðskjálfta. Engar viðmiðanir séu til um það hvað sé ásættanleg áhætta á slíkum svæðum en eðlilegt væri að notast við sömu viðmiðunarmörk og notuð eru á snjóflóðasvæðum (bls 6).


Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði (bls7) segir m.a. „æskilegt hefði verið að gera áhrifum jarðskjálftavár betri skil í umhverfismatinu“
„deila má um hvort það sé rétt túlkun að megináhættan sem fylgi byggingu vatnsaflsvirkjana á upptakasvæði jarðskjálfta sé fólgin í hættu á stíflubroti. Hins vegar geta afleiðingar af slíku tjóni óumdeilanlega verið mjög alvarlegar fyrir íbúa í nágrenni stþflumannvirkja.“

Með vísan til umsagna Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði og Veðurstofu Íslands telur ráðuneytið óumdeilt að fyrirhuguð framkvæmd muni auka áhættu fólks neðan virkjunarmannvirkja (bls 29).

Bls 31, 4. lið: Samhliða hönnun mannvirkjanna, skal framkvæmdaraðili láta gera áhættummat fyrir virkjunina þar sem sýnt verði fram á að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkjanna verð ekki meiri en talið er ásættanlegt vegna ofanflóðahættu.

Úr reglugerð um hættumat vegan ofanflóða 505/2000:

REGLUGERÐ

um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats.

I. KAFLI

II.
Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um gerð og notkun hættumats vegna ofanflóða og um nýtingu hættusvæða, svo og um gerð bráðabirgðahættumats.
2. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
Aðgerðaáætlun: Áætlun sveitarfélags um aðgerðir til að tryggja öryggi fólks í húsum á hættusvæðum.
Óstyrkt hús: Hús sem ekki hefur verið styrkt sérstaklega vegna álags frá hugsanlegu ofanflóði.
Staðaráhætta: Árlegar dánarlíkur einstaklings af völdum ofanflóða ef dvalið er öllum stundum í óstyrktu einbýlishúsi.

II. KAFLI
Hættumatsnefnd, kynning og staðfesting hættumats.
3. gr.
Hættumatsnefnd.
Sveitarstjórnir í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum. Beiðni sveitarstjórnar um gerð hættumats skal berast umhverfisráðherra og skipar hann fjögurra manna nefnd um hættumat, hættumatsnefnd.

Hættumatsnefnd ber að stýra gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi og gera samning við Veðurstofu Íslands um gerð hættumats þar sem m.a. skal kveðið á um kostnað og verktíma. Hættumatsnefnd ákveður í samráði við sveitarstjórn til hvaða svæða hættumat skuli ná. Nefndirnar taka við og meta athugasemdir frá aðilum sem málið snertir og kynna tillögur að hættumati þegar þær berast frá Veðurstofu Íslands. Hættumatsnefnd skal ganga frá tillögu að hættumati til staðfestingar umhverfisráðherra.


4. gr.
Skipan hættumatsnefnda.
Ráðherra skipar fjóra fulltrúa í hættumatsnefnd að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar. Skulu tveir tilnefndir frá viðkomandi sveitarstjórn hverju sinni en ráðherra skipar tvo fulltrúa í nefndina án tilnefningar. Skal annar þeirra vera formaður og hafa oddaatkvæði en hinn skal vera sérfróður aðili með þekkingu á mati á ofanflóðahættu. Hættumatsnefnd skal ljúka störfum þegar hættumat hefur verið staðfest af ráðherra.

5. gr.
Kynning og staðfesting hættumats.
Viðkomandi sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast kynningu á hættumati í samráði við hættumatsnefnd. Auglýsa skal hættumat og kynna á almennum fundi í sveitarfélaginu. Eftir að kynning hefur farið fram skal hættumatið liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kynningar í fjórar vikur. Hættumat skal staðfest af umhverfisráðherra og tekur gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

6. gr.
Veðurstofa Íslands.
Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats að beiðni hættumatsnefndar samkvæmt framkvæmdaáætlun sem gerð er í samráði við sveitarstjórnir og ofanflóðanefnd.

Veðurstofa Íslands annast enn fremur gerð bráðabirgðahættumats, sbr. 7. kafla, og mat á snjóflóðahættu á skíðasvæðum, sbr. 14. gr.

IV. KAFLI
Skipulagning svæða.
15. gr.
Skipulagning svæða.
Ef gildandi svæðis- og/eða aðalskipulag er ekki í samræmi við gert hættumat skal endurskoða skipulagið þannig að það verði í samræmi við hættumatið. Hættumati skal skila inn sem fylgiskjali með tillögu að svæðis- og aðalskipulagi þar sem það á við. Skipulagsáætlanir fyrir svæði utan þéttbýlis skulu ætíð samþykktar og/eða staðfestar með fyrirvara um hugsanlega ofanflóðahættu sem ljós kann að verða við hættumat á einstökum svæðum, sbr. 1. mgr. 8. gr.

Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð. Ef ágreiningur verður um samræmi milli hættumats og svæðis- og/eða aðalskipulags skal úrskurðarnefnd í skipulags- og byggingarmálum úrskurða í málinu skv. skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með áorðnum breytingum. Við endurskoðun aðalskipulags skal sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til að endurskoða hættumat.

Óheimilt er að skipuleggja íbúðabyggð, frístundabyggð eða svæði fyrir atvinnustarfsemi á áður óbyggðum svæðum nema tryggt sé að áhætta fólks m.t.t. ofanflóða verði ásættanleg, sbr. 11. gr.
16. gr.
Skipulagsáætlanir.
Í svæðis-, aðal- og deiliskipulagi skal auðkenna hættusvæði, sbr. 8. og 12. gr. Gera skal grein fyrir hvaða reglur gilda á hverju þeirra varðandi umgengni og mannvirkjagerð. Jafnframt skal gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum varnarvirkjum vegna ofanflóða og hvaða landnotkun er fyrirhuguð á hættusvæðum og nærliggjandi svæðum og hvernig hún fellur að reglum sem gilda á hverju svæði fyrir sig.

Ferðaþjónusta.

Í matsskþslu sem verkfræðistofan Hnit gerði og lagði fram í apríl 2003 er í kafla 2.11 á blaðsíðu 42 greint frá því að athugun á ferðamennsku og afstöðu ferðaþjónustuaðila og ferðamanna hafi verið gerð árið 2001. Þá var unnið með gögn sem sýndu minna lón en til stendur að gera þ.e. 7 fkm í stað 12.5 fkm. Niðursta rannsóknarinnar þá er að engir ferðamannastaðir eru á því svæði sem fer undir vatn. Í inngangi matsskýrslunar segir að framkvæmdir muni að líkindum hafa lítil áhrif á ferðamennsku, þar sem ferðamenn hafi litla viðdvöl á þessu svæði.

Framtíðarmöguleiki í ferðaþjónustu ákveði sveitastjórn Flóahrepps að setja lónið inn á aðalskipulag:

Við Þjórsárbrú verður útskýrt fyrir ferðamönnum að fyrir tíma Urriðafossvirkjunar fóru 4000 laxar upp hið vatnslausa gljúfur enda var Þjórsá þá í hópi aflasælustu laxveiðiáa landsins. Það sem gerði lax í Þjórsá sérstæðan var að stór stofn ólst upp í jökulvatni sem er fátítt á heimsvísu.
Ferðamönnum verður sýnt gróðursnautt landslagið sem Landsvirkjun hefur búið til á austurbakka Þjórsár úr jarðefnum sem áin hefði flutt til sjávar hefði ekki verið virkjað við Urriðafoss, jarðefni sem lífríki Atlantshafsins hefði þurft að fá og hefði komið í veg fyrir strandrof við ósa Þjórsár.
Útskýrt verður fyrir ferðamönnum að þegar tekin var ákvörðun um að setja lónið inn á skipulag var fjöldi heimila settur í þá hættu að geta orðið fyrir flóðbylgju, rofni stíflan en hún standi einmitt á sprungusvæði, menn og dýr sett í viðvarandi hættu, allt saman fyrirséð.
Er þetta sú framtíð sem sveitarstjórn ætlar íbúum Flóahrepps?

Úr úrskurði Umhverfisráðuneytis 27.apríl, 2004


Í umsögn Ferðamálaráðs Íslands segir:
Hjá Ferðamálaráði er reynt að leggja mat á þau áhrif sem fyrirhugaðar framkvæmdir kunna að hafa á ferðaþjónustu og samfélagið á áhrifasvæði þeirra og að gefnum ákveðnum forsendum er niðurstaða fengin. Huglægt mat getur varla talist nothæft sem mælistika við mat á umhverfisáhrifum. Í umræddu tilfelli var tiltölulega lítð til af efni til að vinna úr. Eftir skoðun á þeim gögnum sem til voru varð niðurstaðan að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki afgerandi áhrif á ferðaþjónustu á áhrifasvæði virkjunar (bls 3-4).

Mengun og náttúruspjöll

Landsvirkjun áætlar að dæla þurfi allt að 75.000 rm af botnfalli úr lóninu á hverju ári fyrstu ár virkjunarinnar, að meðaltali 35.000 rm á ári næstu 60 ár. Það þýðir að á hverjum 10 árum verða meira en tíu hektarar þaktir með 3,5 metra þykku lagi af jökulleir og alla tíð meðan virkjunin er starfrækt mun þetta efni falla til og því verða dælt á austurbakka árinnar. Af þessum efnishaugum mun stafa moldrok , til leiðinda og ama fyrir íbúa bæja beggja vegna árinnar, að ekki sé talað um hve slæmt þetta er heilsufarslega. Ekki er það rannsakað í umhverfismati.
Göngur fiska upp fyrir útrásaropið og stífluna munu raskast. Göngur seiða raskast og seiðastofnin getur orðið fyrir áföllum við að fara í gegnum virkjunina. Hryggninga og uppeldissvæði laxa raskast og eyðast mörg hver af völdum minnkaðs rennslishraða í lóninu. Dæling sets mun raska hryggningasvæðum.
Íbúar neðan við stífluna munu búa við náttúruspjöll, stíflumannvirki, uppistöðulón, frárennslisskurði, haugsvæði, andrúmsloft mengað af ryki úr botnleðju sem dælt hefur verið á land og árfarvegurinn afgirt hættusvæði með viðvörunarlúðrum. Ekki verða lögð net í vatnslausann vatnsfarveg eða við stífluvegg, auknar áhyggjur af jarðskjálftum þar sem þungi lónsins mun hugsanlega hafa áhrif , hækkun grunnvatns, strandrof í lóni og neðan við útrás.


Úr úrskurði Umhverfisráðuneytis 27.apríl 2004

Við framkvæmdirnar mun vatnsmagn í Urriðafossi minnka verulega (bls 8).

Fossar njóta sérstakrar verndar skv. 37.gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og því er brýnt að forðast sé að raska Urriðafossi svo sem frekast er kostur (bls 8).

Talsverð óvissa sé um hvernig rennsli verði í fossinum eftir framkvæmdir (bls20).

Brýnt sé því að forðast röskum á Urriðafossi svo sem frekast er kostur (bls 20)

Ljóst sé að minnkun á rennsli um fossinn muni rþra gildi hans t.d. til nýtingar tengt ferðamennsku (bls 20).

Þau sjónrænu áhrif sem verða hvað mest áberandi eru áhrif framkvæmdarinnar á Urriðafoss (bls 21).

Umhverfisstofnun telur ljóst að fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss muni hafa veruleg sjónræn áhrif í för með sér, bæði meðan á framkvæmdum stendur, sem og eftir að framkvæmdum lýkur. Þau mannvirki sem byggð verða í tengslum við virkjanirnar munu setja mark sitt á umhverfið, s.s. lón, stíflumannvirki, frárennslisskurðir, haugsvæði o,fl.(bls 16).

Samkvæmt matsskþslu getur stöku sinnum þurft að hleypa skyndilega fullu rennsli á árfarveg sé að jafnaði er vatnslítill vegna óvæntra atburða í rekstri virkjunarinnar (bls 29).

Framkvæmdaraðili áformar að girða farveg árinnar af á báðum bökkum eftir þörfum og setja upp aðvörunarskilti þar sem prílur eru yfir girðinguna til að draga úr framangreindri hættu. Samkvæmt
upplýsingum Landsvirkjunar munu einnig verða settar upp eins konar aðvörunarflautur sem fara í gang við hreyfingu á loku stíflunnar (bls 29).

Stofnunin telji að það land sem fari undir vatn eða blotni upp verði ekki nýtt til annarra hluta nema ef vera skyldi að hluta til endurheimtar votlendis ( bls 26 ).

Að mati ráðuneytisins er æskilegt að draga eins og kostur er úr grunnvatnsbreytingum á áhrifasvæði fyrirhugaðs uppistöðulóns. Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar og á grunnvatnsstöðu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.


Að okkar mati er umhverfismat fyrir Urriðafossvirkjun ekki fullnægjandi sem slíkt. Augljóst er að viðarmiklum atriðum eru ekki gerð skil.
Einnig hafa komið fram upplýsingar frá viðurkenndum vísindamönnum og staðreyndir um ýmsa þætti sem þarfnast athugunar.
Þá hefur vaknað sú spurning hvers virði gögn unnin af framkvæmdaaðila eru, er hann hlutlaus og heiðarlegur?

Við höfum fengið Ragnhildi Sigurðardóttur hjá Umhverfisrannsóknum ehf til að taka saman á faglegum grunni mat á stöðu þekkingar og matsskýrslu á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar. Skýrsla hennar fylgir erindi okkar.

Í ljósi alls þess sem að ofan greinir skorum við undirrituð á sveitastjórn Flóahrepps að taka strax þá ákvörðun að setja ekki lón Urriðafossvirkjunar inn í aðalskipulag sveitarfélagsins nema að gert verði nýtt umhverfismat þar sem allir þættir verða rannsakaðir og niðurstaðan verði sú að hættulaust sé að ráðast í framkvæmdina. Allt annað er óásættanlegt fyrir íbúa neðan við hið fyrirhugaða lón.


Skálmholti 28. september, 2007

Sjá viðhengi: Umhverfisrannsóknir Urriðafoss RS.pdf

 

Myndin er frá fundinum í Þjórsárveri þ. 25. júní 2007 sem vísað er til í upphafi bréfs. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 6, 2007
Tilvitnun:
Jón Árni Vignisson og Erna Gunnarsdóttir „Bréf til sveitarstjórnar Flóahrepps og úttekt á umhverfismati“, Náttúran.is: Oct. 6, 2007 URL: http://www.natturan.is/d/2007/10/06/brf-til-sveitarstjrnar-flahrepps-og-ttekt-umhverfi/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 7, 2007

Messages: