Lokahönd er nú lögð á tvöföldun hjóla- og göngustígs frá Faxaskjóli í Nauthólsvík en aðskildir stígar fyrir hjólandi og gangandi frá Ægisíðu í Elliðaárdal er eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík.

Markmiðið er meðal annars að bæta lífsgæði fyrir hjólandi og gangandi sem vilja njóta útivistar við strandlengjuna. Öryggi hjólandi og gangandi eykst einnig við tvöföldun stígsins sem er mest notaða samgönguæðin fyrir þessa vegfarendur í borginni.

„Það er ánægjulegt að sjá hluta af stígnum vera orðinn að veruleika - að vera með stíg sem er eingöngu fyrir hjólandi,“ segir Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs og að hvorki þyrfti að hafa áhyggjur af gangandi vegfarendum eða bifreiðum á þessum glæsilega stíg. „Nýir áningastaðir á stígnum auka einnig möguleika á því að njóta þessa fallega umhverfis,“ segir Ellý Katrín.

Hópur starfsmanna á Umhverfis- og samgöngusviði sem tekur þátt í hvatningarátakinu Hjólað í vinnuna sem nú stendur yfir fór í hádeginu í gær, 18. maí, í  könnunarferð til að taka út hjólastíginn við Ægisíðu.

Gerð sérstakra hjólreiðastíga í Reykjavík er þáttur í því að gera reiðhjólið að fullgildu samgöngutæki. Jafnframt stígnum við Ægisíðu hafa hjólavísar verið lagðir í malbik á Suðurgötu, Lynghaga og Starhaga og fleiri götum í borginni. Hjólamerkingar og nokkra tengistíga hefur einnig þurft að gera á nokkrum stöðum.

Áform eru um að leggja sérstakan hjólastíg beggja megin við Hofsvallagötu. Þá liggja einnig fyrir teikningar um tvöföldun stíga fyrir hjólandi og gangandi í Fossvogi.´

Hjólreiðaáætlun

Vinna við mótun sérstakrar hjólreiðaáætlunar fyrir Reykjavík er á lokastígi en hún mun leggja línurnar um framtíðarskipulagningu fyrir hjólreiðar í borginni. Þar verður áfram lögð áhersla á að aðskilja umferð hjólandi og gangandi og að gera hjólreiðafólki jafnhátt undir höfði og öðrum í Fossvogi.

Ljósmynd: Reykjavíkurborg.

Birt:
May 19, 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Tvöfaldur hjóla- og göngustígur í Reykjavík“, Náttúran.is: May 19, 2009 URL: http://www.natturan.is/d/2009/05/19/tvofaldur-hjola-og-gongustigur-i-reykjavi/ [Skoðað:Nov. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: