,,Mannauður og framleiðsla byggð á hugviti er leiðin út úr kreppunni, en ekki stóriðja, tilheyrandi verksmiðjustörf og eyðilegging á náttúru Íslands.” segir Ómar Ragnarsson við heimkomu til Íslands eftir að hafa veitt Seacology Umhverfisverndarverðlaununum viðtöku í Kaliforníu.

,,Finnar stóðu í sömu sporum og Íslendingar fyrir fimmtán árum, þá var finnska kreppan að buga þá, líkt og fjármálakreppan Íslendinga nú. Þeir gátu virkjað fyrir stóriðju en ákváðu að setja allt í mannauð, menntun og framleiðsluvörur sem byggðust á hugviti og þekkingu og skópu með því finnska efnahagsundrið.” Þetta segir Ómar Ragnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, en hann er ný kominn heim til Íslands úr för til San Fransisco og Los Angeles þar sem hann tók við
umhverfisverndarverðlaunum Seacology samtakanna.

,,Ég fagna þessum verðlaunum, en það er dapurlegt að brotalamir í umhverfismálum Íslands veki athygli samtakanna nú. Hingað til hefur athygli þeirra beinst að því að hjálpa þróunarlöndum svo sem Indónesíu, Indlandi, Tonga og Papúa Nýju Gíneu. Að Ísland sé komið í þann hóp er kannski tímanna tákn.” Segir Ómar en hann er fyrsti Evrópubúinn til að fá Seacology verðlaunin, sem veitt hafa verið síðan 1992.

Verðlaunin, sem nema 10,000 Bandaríkjadölum, hlýtur Ómar fyrir að hafa vakið almenning til vitundar um risavaxnar virkjanaframkvæmdir á hálendi Íslands og þau umhverfisspjöll sem stíflugerð og uppistöðulón til að knýja álver Alcoa á Reyðarfirði hafa valdið. Ómar hyggst flytja verðlaunaféð til Íslands við fyrsta tækifæri til að fjármagna heimildamynd sína Örkina. Myndin fjallar um þau áhrif sem virkjanaframkvæmdirnar hafa og hyggur Ómar á að selja hana á alþjóðlegum markaði og taka með því þátt í öflun gjaldeyris.

„Þarna úti í Kaliforníu skilja menn ekki hvernig það getur borgað sig að flytja súrál yfir þveran hnöttinn til að flytja það aftur út sem ál frá Íslandi, þegar mörg lönd hafa bæði súrál og vatnsafl á sama stað. Svarið við þessu er einfalt. Stjórnvöld hér buðu lægsta orkuverð í heimi með sveigjanlegu umhverfismati sem þyrfti ekki að hafa áhyggjur af og undirbuðu þannig fátækar þjóðir.” segir Ómar. ,,Hraðleið framhjá lögum um umhverfismat til að auka stóriðju myndi þýða að Ísland væri að rjúfa alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Rio sáttmálanum og EES. Þá yrði landið endanlega að viðundri í Evrópu og um allan heim.”

,,Ef hér verða samtals sex risaálver og tvær olíuhreinsistöðvar til viðbótar verður öll orka Íslands virkjuð og til hvers? Svo aðeins 3% þjóðarinnar geti unnið við störf þar sem ,,engrar sérstakrar menntunar er krafist” ef marka má auglýsingar Alcoa í sumar. Ef þetta verður niðurstaðan er ég ekki bjartsýnn fyrir hönd þjóðarinnar.” segir Ómar Ragnarsson, ,,en ég trúi því samt að hún nái áttum.”

Seacology eru helstu umhverfisverndarsamtök heims sem hafa það að markmiði að vernda einstakan fjölbreytileika lífríkis á eyjum veraldar. Samtökin voru stofnuð í ljósi þess að meirihluti þeirra plöntu- og dýrategunda sem orðið hafa útdauðar síðustu fjögurhundruð árin lifðu á eyjum heimsins og vinna samtökin ötullega að því að sporna gegn þessari ógnvekjandi þróun.

Sjá frétt á vef samtakanna.

Myndin er tekin við afhendingu Seacology verðlaunanna í San Francisco. Ómar Ragnarsson og Paul Cox stjórnarformaður. Ljósmynd: Daði Guðmundsson

Birt:
Oct. 15, 2008
Höfundur:
Teitur Torkelsson
Tilvitnun:
Teitur Torkelsson „Ómar Ragnarsson trúir að þjóðin nái áttum“, Náttúran.is: Oct. 15, 2008 URL: http://www.natturan.is/d/2008/10/15/omar-ragnarsson-truir-ao-thjooin-nai-attum/ [Skoðað:Dec. 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: